Engin gögn hafa fundist hjá skjalasafni Ráðhúss Reykjavíkur, Borgarskjalasafni né Listasafni Reykjavíkur um sovéska samóvarinn sem var seldur á uppboði til styrktar Sambandi ungra Sjálfstæðismanna. Þetta kemur fram í svörum frá Reykjavíkurborg.
Samóvarinn, sem er rússneskur teketill, var gjöf frá Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna. Teketillinn var gefinn Davíð Oddssyni, þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, eftir fund Gorbatsjov og Ronalds Reagan, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, í Höfða árið 1986.

Davíð gaf svo teketilinn til fjársöfnunar SUS þar sem hann seldist á eina og hálfa milljón. Ekki er vitað hver kaupandinn er.
Borgin átti ekki Samóvarinn
„Engin gögn finnast sem með einhverjum hætti staðfesta eða benda til eignarheimildar Reykjavíkurborgar á umræddum hlut. Þá liggja heldur engin gögn fyrir sem benda til þess að hann hafi einhvern tímann verið í vörslu Reykjavíkurborgar,“ segir í svari borgarinnar, spurð hvort samóvarinn hafi á einhverjum tímapunkti verið skráður sem einhvers konar eign borgarinnar. Það er því ljóst að fyrrverandi borgarstjóra var heimilt að ráðstafa sovéska tekatlinum með þeim hætti sem var gert, þó að mögulega sé um sögulegar minjar að ræða.
Engar reglur
Þá hefur ekkert verið rætt um málið innan borgarkerfisins og stendur ekki til að svo stöddu. Þá eru engar skráðar reglur í gildi hjá Reykjavíkurborg um gjafir til borgarstjóra. Þó hefur Reykjavíkurborg fengið ýmsar gjafir í gegnum tíðina, svo sem jólatré, málverk og fleira, sem hafa fengið afgreiðslu innan stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og þá tekið fyrir hvort borgin eigi að þiggja gjöfina eða ekki. „Borgarstjóri hefur einnig fengið ýmsar gjafir og er það í höndum móttökufulltrúa Reykjavíkurborgar að skrá þær og varðveita. Ef um listaverk er að ræða eftir tiltekinn listamann fer afgreiðsla fram í aðfanganefnd/innkaupanefnd Listasafns Reykjavíkur“, segir svo í svari borgarinnar.
Fargaði Banksy
Sala SUS á tekatlinum vakti spurningar á samfélagsmiðlum og hvort borgarstjóra sé stætt á að halda slíkum gjöfum.
Jón Gnarr, þingmaður og fyrrverandi borgarstjóri, var gagnrýndur harðlega fyrir Banksy-verk sem hann fékk að gjöf þegar hann var borgarstjóri árið 2014. Verkið var eftirlíking og hann tók það með sér þegar hann lét af embætti. Í ljós kom að verkið var verðlaust þrátt fyrir háværa umræðu um verðmæti þess og mögulegar skattalegar afleiðingar sem því gætu fylgt. Jón Gnarr ákvað í samráði við eiginkonu sína að farga verkinu að lokum til þess að trufla engan.
Eins og margir muna eftir komu Ronald Reagan, þá forseti Bandaríkjanna, og Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, til Íslands árið 1986 til þess að undirbúa fund leiðtoganna í Washington ári síðar en þar átti að ræða um takmörkun á vígbúnaði og deilu- og mannréttindamál. Fundurinn er oft sagður hafa verið upphafið að endalokum Sovétríkjanna.
Nú er spurningin: má opinber embættismaður, í þessu tilviki borgarstjórinn taka á móti persónulegum gjöfum af slíku verðgildi? Eða mátti hann það 1986?