Upp á síðkastið hefur þetta ljóð Sigurðar Pálssonar leitað á hugann:
„Á róluvelli þjóðfélagsins / er vegasaltið / langsamlega mikilvægast // Samt skal alltaf vera / lengsta biðröðin / við hoppukastalann“
Ég hugsa um þetta ljóð og finnst ómögulegt að þröngva upp á saklausa áskrifendur þessa blaðs enn einni skoðuninni, og dettur nú í hug upphafslínur annars ljóðs, sem rímar á ská við hitt:
„Orð / Ég segi alltaf færri og færri orð / enda hafði ég lengi á þeim illan bifur.“ Skáldið Sigfús Daðason hélt reyndar áfram með það ljóð í heilar 28 línur, hann þurfti mörg orð til að lýsa hættunum sem því fylgir að nota orð, þau gætu sprungið, það gæti vöknað í púðrinu, orti hann. Sannleikurinn er enda þversagnakenndur. Við erum flókin, ekki einföld:
„Tilgangur ljóðlistarinnar er að minna okkur á / hve erfitt það er að vera bara ein manneskja, / því hús okkar stendur opið, það eru engir lyklar í skránni, / og ósýnilegir gestir koma og fara að vild.“ Þannig yrkir nóbelskáldið Czesław Miłosz og sendir mig að bókahillunni, þeim opnu dyrum, ég geng inn og út að vild:
„þjáning er á ábyrgð mannkyns / bakið þess hlýtur að vera breitt // þjáning hverfur ekki við aftöku / þjáning hverfur ekki við afskiptaleysi // óp frá hafi leitar skjóls í öðru koki / á landi“
Ég fæ gæsahúð þegar ég les þessar línur úr ljóði Kristínar Ómarsdóttur, ég hef brotið hundseyra á blaðsíðuna svo ég finni það strax aftur. Í næstu hillu finn ég annað hundseyra, ljóð eftir Sigurlínu Bjarneyju Gísladóttur:
„Hlátur og grátur hljóma eins / úr vissri fjarlægð / aðeins nærvera gerir þér kleift / að greina á milli“
Nærvera – þvílíkt orð í heimi sem sífellt fleiri reyna að skilja úr fjarlægð slagorða, merkimiða og upphrópana.
En munið: Dyrnar standa opnar. Okkur er óhætt að ganga inn, taka skrefið í áttina frá róluvellinum, ganga þar til við hættum að heyra öskrin í hoppukastalanum og byrjum að heyra í hvert öðru.
Athugasemdir