Á dögunum sat ég djúpt hugsi um fullkomnun á miðri Öxnadalsheiðinni, velti fyrir mér hvernig ég gæti útskýrt fyrir 5 ára barni að ekkert væri fullkomið. Mig langaði svo mikið að segja að ekkert sé fullkomið því tilraunir til að ná fullkomnun geti sett svo ógurlega mikla og óraunhæfa pressu á okkur sjálf. Því við getum svo auðveldlega fest í hringiðu niðurrifs og hugsana um að við hefðum átt að gera betur, þegar við vorum samt bara að gera okkar besta. Það sem er ófullkomið er ekki alltaf slæmt, en það er alltaf eitthvað sem reynir að telja okkur trú um annað.
Á sama tíma finnst mér ýmislegt sem ég hef upplifað vera fullkomið. Fallegir sumardagar þar sem sólin glitrar á bláu hafinu, snjór sem sindrar eins og demantar, gleði, ást og hamingja. Er þar ekki að finna einhverja fullkomnun? Ég velti þessu fyrir mér á meðan ég horfði á snævi þakin fjöllin og hugsaði, eru þau fullkomin? Fegurð þeirra þennan daginn var fullkomin, þótt hvert og eitt agnarsmáa sandkornið, allir steinarnir og mosavaxnir klettaskorningar sem mynda fjallið, séu kannski fullkomlega ófullkomin í lögun. Snjókornin sem saman þekja fjöllin, fæst eru þau fullkomin heldur. En saman mynda þau hughrif sem þennan dag færðu mér ró. Fullkomið? Ég veit það ekki.
„Þá fór ég að sjá fegurðina í hinu ófullkomna“
Þegar ég hugsa um mína eigin komplexa og hugmyndir um fullkomnun er af nógu að taka. Mér fannst hárið á mér til dæmis aldrei vera fínt – það var aldrei fullkomið. Fullkomið í mínum huga var slétt og fellt og ekki úfið. Slíkt hár er fallegt hár, fyrir þau sem það bera, en þannig er ekki hárið mitt. Ég er með hár sem getur ekki ákveðið sig hvort það sé liðað eða krullað, og tilraunir mínar til að fullkomna það eftir öðrum stöðlum en þeim sem hentuðu mér, skekktu því sjálfsmyndina. Fyrir einhverjum árum breyttist sýn mín á hárið og núna fær það að vera fullkomlega ófullkomið, enda er það hár – hvert og eitt hár er mjög ófullkomið þegar vel er að gáð.

Það má yfirfæra þetta á ýmislegt annað. Þau okkar sem hafa hengt sjálfsvirði sitt á frammistöðu í skóla kannast eflaust við það að bíða í ofvæni eftir einkunnum. Þær urðu að vera sem næst fullkomnun til að sjálfsálitið biði ekki hnekki. Fullkomnunaráráttan nær svo hámarki þegar maður vill frekar hætta við að gera hlutina en taka áhættuna á því að fá kannski ekki góða einkunn. Ef ég hefði bara vitað þegar ég var yngri að tölur væru, eins gagnlegar og þær eru í að mæla kunnáttu að einhverju leyti, alls ekki mælikvarði um mig sem manneskju. Mesti lærdómurinn er einmitt fólginn í því að gera mistök, læra af þeim, vera ófullkomin og vinna með það.
„Þó að pönnukökurnar hafi brunnið fastar við pönnuna er minningin af tilefninu kannski fullkomin“
Ég held að það sé ekkert í jarðlegu lífi okkar mannfólks fullkomið annað en fallegar tilfinningar. Óræð augnablik og minningar jafnvel líka, sem geta fengið á sig fullkominn ljóma þrátt fyrir að þar sé oft að finna eitthvað ófullkomið þegar vel er að gáð. Í augnablikinu virkaði það kannski eins og klúður en þó að pönnukökurnar hafi brunnið fastar við pönnuna er minningin af tilefninu kannski fullkomin eins og hún er.
Er þetta stærsti lærdómur lífsins? Að lífið sé bara samansafn af fullkomnum ófullkomleika eða ófullkomnum fullkomleika? Hvað veit ég, miðað við meðalævi Íslendings er líf mitt ekki hálfnað en þegar ég reyni að festa fingur á það sem ég hef lært hingað til þá nær þessi vitneskja sennilega upp í einhvern topplista.
Ég held nefnilega að það sé að hluta til sú bandbrjálaða ósk mannfólks að ná einhverri fullkomnun sem er að kollvarpa öllu í kringum okkur. Það er aldrei neitt nógu gott. Alltaf einhver útþensla, ná sér í meira, meiri vörur, græða meiri peninga, taka meira land.
Óttinn við það ófullkomna í hversdeginum, sem er eðli málsins samkvæmt alltumlykjandi (og þegar vel er að gáð bara óskaplega fallegt), verður svo mikill að fólk missir sjónar af öllu því sem skiptir máli. Allt í einu verða aukin mannréttindi og jöfnuður þyrnir í augum einhverra sem sjá ófullkomleika hins fjölbreytta og fjölskrúðuga mannlífs á jörðinni sem eitthvað óæskilegt. Allt skal klippt og skorið inn í eitt ákveðið, fyrir fram ákveðið, einsleitt fullkomið mót. Þegar öllu er á botninnn hvolft getur mótið samt aldrei orðið fullkomið, enda er því sem troðið er í það svo ófullkomið. Það mun aldrei uppfylla skilyrðin, það verður aldrei almennilega fullkomið.
Ekkert við okkur mannfólkið er fullkomið, nema einna helst tilfinningar og hughrif. Við getum ekki stýrt því fullkomna sjálf, það kemur einhvers staðar úr iðrum mannlegra tilfinninga. Um leið og ég hætti að setja pressuna á sjálfa mig að allt þyrfti að vera fullkomið þá fór ég að sjá fegurðina í hinu ófullkomna. Lífið er fullkomlega ófullkomið í alla staði. Kannski er þetta bara ágætis lærdómur fyrir daginn í dag.
Athugasemdir