Ásthildur Lóa Þórsdóttir, sem sagði af sér embætti mennta- og barnamálaráðherra fyrir helgi, mun „ekki geta sinnt þingstörfum á næstunni.“ Þetta kom fram í máli forseta þingsins, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, við setningu þingfundar í dag. Sæti Ásthildar
tekur fyrsti varamaður á lista Flokks fólksins í Suðurkjördæmi, Elín Íris Fanndal.
Ásthildur Lóa tilkynnti um afsögn sína sem barnamálaráðherra á fimmtudag, eftir að RÚV greindi frá því að hún eignaðist barn með 16 ára dreng þegar hún var sjálf 23 ára.

Guðmundur Ingi Kristinsson tók formlega við embætti sem mennta- og barnamálaráðherra á ríkisráðsfundi á Besstastöðum í gær, sunnudag, eftir afsögn Ásthildar Lóu. Hún mætti á Bessastaði í gær, en formlega var hún enn ráðherra þar til á ríkisráðsfundinum, en ræddi ekki við fjölmiðla og fór bakdyramegin.
Á þingfundinum í dag var einnig tilkynnt um breytingar af hálfu Flokks fólksins í nefndum. Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir tekur sæti sem aðalmaður í velferðarnefnd í stað Guðmundar Inga, og Sigurjón Þórðarson tekur sæti hans sem aðalmaður í Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Athugasemdir (1)