Jæja. Þá hefur það gerst. Þrátt fyrir allar viðvaranirnar. Þrátt fyrir að við ættum að vita betur. Fyrirbæri sem við héldum að hefði fengið að daga uppi á öskuhaugum sögunnar blasir nú við okkur af blaðsíðum og skjáum, of oft og reglulega til að lengur sé hægt að afskrifa það sem eitthvert tilfallandi flipp.
Þær eru komnar aftur: Örmjóar augnabrúnir tíunda áratugarins.

Með aldrinum byrjar tíminn að ganga úr skorðum. Amma mín hefur á orði að það taki því varla í seinni tíð að pakka niður jólaskrautinu; áður en við er litið er aftur kominn tími til að hengja það upp.
Nema þetta sé akkúrat á hinn veginn. Kannski er tíminn að rétta sig af, eftir að hafa bjagast í kringum færiband nýrra upplifana sem dynja á okkur framan af ævinni og láta dagana virðast endalausa. Til öryggis er líklega best að hugsa um ævina sem örstutt andartak og reyna að njóta þess dálítið að snúast um á plánetunni áður en aldurinn feykir manni af henni.
Inni í skáp geymi ég kassa með gömlum fötum, sem ég tróð þangað inn fyrir örfáum árum. Nú dregur unglingurinn minn þau fram og kallar vintage.
Það er reyndar ekki bara við svikult eðli tímans að sakast, né er það mín eigin ímyndun að hringirnir frægu sem tískan gengur eftir séu að styttast. Á tiktok, segir unglingurinn mér, logar nú allt í ljúfsárri nostalgíu – eftir árinu 2020. Krakkarnir lifa í annars konar tíma en við.
Ég velti því stundum fyrir mér í hvaða tíma ég lifi yfirleitt. Það á ekki beint við mig að vera miðaldra. Á hinn bóginn hentaði það mér heldur engan veginn að vera ung kona. Það tengist því kannski hvað ég var lengi að finna mína hillu. Reyndar hafði ég fyrir löngu fundið hana en þorði ekki að taka stökkið. Sniglaðist í staðinn eins og köttur í kringum heitan og vandræðalegan listamannsdrauminn, þangað til illa bæld öfundin út í þau sem „fengu“ að búa til listaverk varð enn vandræðalegri.
„Þegar upp er staðið ráðlegg ég hverjum sem er afdráttarlaust að mæta seint til leiks“
Eftir á að hyggja var þetta ágætt. Ég varði áratug í að viða að mér efnivið, brýndi tennurnar á nytjatextum eins og svo margir á undan mér, tileinkaði mér dálitla seiglu og lærði að taka höfnun án þess að hún mölbryti mitt litla hjarta (heldur kremdi það bara svolítið).
Þegar upp er staðið ráðlegg ég hverjum sem er afdráttarlaust að mæta seint til leiks.
Framan af ævinni skiptir aldursbil öllu máli. Fyrir grunnskólabarni virðast krakkarnir í eldri og yngri bekkjunum á svo ólíku æviskeiði að þau gætu allt eins verið frá annarri plánetu. Eitt af því skemmtilega sem gerist með aldrinum er að jafningjahópurinn inniheldur skyndilega bæði hundgamalt fólk og kornungt, sem stækkar heiminn hundraðfalt. Það er reyndar mesta furða hvað heimurinn heldur áfram að stækka löngu eftir að flestum stóru vörðunum hefur verið náð, og það þótt jólin komi sannarlega með sífellt styttra millibili.
Í augum barnanna minna átti meirihluti ævi minnar sér stað í þokukenndri forneskju. Sem er eðlilegt því þau eru jú fædd í gær. En stundum bregður mér þegar það sama virðist vera upp á teningnum gagnvart öðru fullorðnu fólki.
Og þá er ég ekki bara að tala um tískuna. Tíska, svo það sé sagt, er auðvitað fyrst og fremst samsæri hinna ungu og fögru gegn okkur sem erum með hrukkur og eigum fasteignir. Þetta er sniðug svikamylla, því það eina sem gerir miðaldra manneskju asnalegri en úreltu fötin okkar og hallærisleg hárgreiðslan er þegar við reynum að apa stílinn eftir unga fólkinu, sem leikur sér að því klippa sig með eldhússkærum, klæða sig í gamla bónuspoka, sofa í einn og hálfan tíma og líta samt út eins og gyðja eða grískur prins að morgni.
„Tíska er auðvitað fyrst og fremst samsæri hinna ungu og fögru gegn okkur sem erum með hrukkur og eigum fasteignir“
Þetta er í mínum augum bara hið sanngjarna og sjálfsagða eðli hlutanna.
En síðan berst hið stærra samhengi í tal. Samfélag, pólitík, málefni og menn. Snemma á þessari öld varð hér svokallað hrun. Ég var á þrítugsaldri og drakk í mig fréttir og umfjöllun, mætti á mótmæli og fékk meira að segja að smakka táragas. Vinir mínir og kunningjar af yngri kynslóðum eru ekki illa upplýst en á þessum tíma voru þau að leika sér í barbí og ég þekki svipinn sem kemur á þau þegar maður nefnir, segjum, Evu Joly. Ég set hann upp sjálf þegar eldra fólk talar um gamla skemmtistaði, leikara, stjórnmálamenn. Nöfnin hafa sérstakan hljóm í munni þeirra sem muna, en fyrir mér eru þau flöt og framandi, ruglast auðveldlega og renna saman við allt sem kom á undan.

Nú er fólk auðvitað misgott í því að setja sig inn í sögulega atburði. Á tiktok sökkvir unglingurinn sér í mannkynssögu og hefur skýrari mynd af eiginkonum Hinriks áttunda en mér tókst að gera mér á minni óralöngu skólagöngu.
En síðasta áratuginn, meðfram því að ala upp börn og fylgjast með uppgangi fasismans á Vesturlöndum, hef ég verið að velta því fyrir mér hvernig við ætlum að fara að því að útskýra atburði þessara ára í framtíðinni, fyrir þeim sem ekki voru á staðnum. Skrefin eru bara svo ótalmörg, stór og lítil og afspyrnufáránleg. Það er ekki það að ég treysti ekki sagnfræðingum framtíðar til að skilja og greina, útskýra og setja í samhengi. Heldur að í hvert skipti sem ég hef tekið upp bók til að reyna að glöggva mig á, segjum, orsakavefnum í kringum seinni heimsstyrjöldina, líður aldrei á löngu þangað til upplýsingamagnið er orðið yfirþyrmandi, flækjurnar fylla á mér höfuðið og það kemst ekki meira inn.
Þetta er bara of mikið. You had to, eins og þeir segja, be there.
Á undanförnum áratug, meðan ég var að ala upp börn og fylgjast með uppgangi fasismans, meðan mjóu augnabrúnirnar voru hægt og rólega að krafsa sig til baka, þá höfum við líka verið að missa síðustu manneskjurnar sem upplifðu á eigin skinni hrylling heimsstyrjaldarinnar. Fólkið sem man.
Ég sé að gellurnar í dag kunna ýmis trix til að mjókka brúnirnar án þess að eyðileggja þær með plokkara. Unga kynslóðin sér margt skýrari augum en við, og vegna okkar. Hlutir sem við börðumst við að nefna og lyfta – femínismi, geðheilbrigði – eru fyrir þeim eðlilegur, næstum ósýnilegur hluti af vefnaði samtímans. Að því leyti hafa þau forskot. Og kannski reynast þau flinkari en við að læra af sögunni.
Athugasemdir (1)