Fyrir örfáum árum hefur líklega ekki hvarflað að nokkrum manni að á því herrans ári 2025 myndu margir, kannski flestir, þjóðarleiðtogar í Evrópu vart hugsa né tala um annað en vopnakaup og hernaðaruppbyggingu.
Á árum kalda stríðsins lögðu margar þjóðir í mikinn kostnað, til að bregðast við kjarnorkuvánni, eins og iðulega var komist að orði. Stjórnmálamenn og almenningur hafði ríkan skilning á nauðsyn þess að byggja upp öflugan her.
Eftir að kalda stríðinu lauk töldu margar þjóðir sig vera komnar á lygnan sjó og drógu úr fjárveitingum til hermála. Hernaðaruppbygging var ekki efst á lista stjórnmálamanna. Danmörk var eitt þeirra landa sem taldi að fjármunum væri betur varið til annarra verkefna, flest verkefni væru brýnni en að styrkja herinn og halda við tækjakosti. Forsvarsmenn danska hersins töluðu fyrir daufum eyrum þegar þeir reyndu að ná athygli stjórnmálamanna og fjárveitingar drógust saman. Niðurskurðurinn stóð árum saman og í raun fram á allra síðustu ár. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa, húsakosturinn drabbaðist niður og tækjakosturinn fékk ekki nauðsynlegt, eðlilegt viðhald. Þetta bága ástand varð enn fremur til þess að áhugi ungmenna á hermennsku dofnaði og margir hinna eldri létu af störfum.
Svona var ástandið árum saman og versnaði sífellt.
Í skýrslu sem gerð var um danska herinn árið 2023 kom fram að árið 2022 náði „flóttinn“ hámarki, þá hættu tæplega tvö þúsund manns í hernum, fyrir utan þá sem hættu vegna aldurs. Í landhernum var ástandið verst, þar vantaði fjórða hvern mann og hjá flotanum var ástandið svipað, ekki hægt að fullmanna skipin.
Innrás Rússa í Úkraínu 2014 og tveggja prósenta markmiðið
Í febrúar árið 2014 réðust Rússar inn í Úkraínu og lögðu undir sig Krímskagann. Í byrjun september það sama ár hittust leiðtogar NATO-ríkjanna í Newport í Wales. Anders Fogh Rasmussen var þá að láta af störfum sem framkvæmdastjóri NATO. Í þrumuræðu sem hann flutti á fundinum í Newport ítrekaði hann það sem hann hafði margoft sagt, framlög ríkjanna væru allt of lítil „getur NATO brugðist við ef Rússar hyggja á frekari landvinninga?“ spurði Anders Fogh og svaraði spurningunni sjálfur neitandi.
Viðbrögð þjóðaleiðtoganna voru þau að sammælast um að stefna að auknum fjárveitingum til varnarmála og miða árlega við 2 prósent af vergri þjóðarframleiðslu hvers lands. Stefna að sagði í yfirlýsingu þjóðaleiðtoganna. Þetta viðmið hafði oft áður verið nefnt.
Hrukku við eftir innrás Rússa
Eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 kom berlega í ljós að varnaðarorð Anders Fogh Rasmussen í Newport árið 2014 höfðu ekki verið út í loftið. Vopnabúr NATO-ríkjanna, að Bandaríkjunum undanskildum, voru flest hálftóm og ekki undir það búin að veita Úkraínu nauðsynlega aðstoð í varnarbaráttunni gegn Rússum. Í þessum efnum veltur mikið á Bandaríkjunum sem eru langöflugasta ríkið innan NATO. Einhugur var um það innan NATO að styðja eins og framast væri unnt við Úkraínu. Fæstir höfðu kannski búist við að átök Rússa og Úkraínumanna myndu standa jaf lengi og raun hefur orðið á. Í millitíðinni hafa orðið forsetaskipti í Bandaríkjunum og núverandi forseti, Donald Trump, hefur að mörgu leyti annað viðhorf til stríðsins en forveri hans, Jo Biden.
Eins og margoft hefur verið fjallað um í fréttum fór allt upp í loft á fundi Trumps og Zelensky föstudaginn 28. febrúar. Síðastliðinn þriðjudag, 4. mars, tilkynnti Bandaríkjaforseti að lokað yrði fyrir allan fjárhagsstuðning til Úkraínu, tímabundið. Stjórnmálaskýrendur segja að með þessu sé verið að neyða Úkraínu til samninga sem séu þeim ekki hagfelldir. Og styrkja stöðu Rússa í hugsanlegum samningaviðræðum.
Hvað mun gerast varðandi Úkraínu?
Þessari spurningu er ekki auðsvarað. Greinilegt virðist á viðbrögðum evrópskra þjóðarleiðtoga innan NATO að þeir eru áhyggjufullir, Bandaríkjaforseti óútreiknanlegur. Stuðningur hans við áframhaldandi aðstoð við Úkraínu skiptir miklu máli en NATO-ríkin í Evrópu reyna nú hvað þau geta til að bregðast við og hafa stóraukið framlög til varnar-og öryggismála. Allir virðast sammála um nauðsyn þess að Bandaríkin standi hundrað prósent (eins og einn þjóðarleiðtogi komst að orði) með öðrum NATO-ríkjum.
Aukin samvinna
Síðastliðinn þriðjudag, 4. mars, greindi Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, frá samkomulagi Dana og Finna í varnarmálum. Samkomulagið er að mestu óútfært enn sem komið er en skýrari rammi (orðalag ráðherrans) á að liggja fyrir síðar á árinu. Í maí á síðasta ári undirskrifuðu Danir og Svíar samning um stóraukna samvinnu í varnar- og öryggismálum. Það snýr meðal annars að eftirliti á Eystrasalti og sameiginlegum innkaupum á hergögnum. Danir og Svíar hafa um árabil haft margháttaða samvinnu á hernaðarsviðinu en nýleg innganga Svía í NATO styrkir þessa samvinnu enn frekar að mati danska varnarmálaráðherrans. Á fundi með fréttamönnum dönsku fréttastofunnar Ritzau greindu Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, 25. febrúar, frá endurnýjuðu samkomulagi í varnar- og öryggismálum. Norski forsætisráðherrann sagði aukna samvinnu draga úr kostnaði, bæði hvað varði innkaup og viðhald.
Kaupið, kaupið, kaupið
Á fréttamannafundi í Kaupmannahöfn 20. febrúar sl. greindi Mette Frederiksen forsætisráðherra frá stórauknum fjárveitingum til varnar- og öryggismála, hér og nú eins og ráðherrann komst að orði og á næstu árum. „Køb, køb, køb“ voru fyrirmæli forsætisráðherrans til yfirmanns hersins. Fram til þessa hafa samningar um vopnakaup farið um hendur þingsins og hersins en slíkt hefur iðulega tekið langan tíma, alltof langan tíma sagði forsætisráðherrann. „Nú megum við engan tíma missa og með því að þetta verður nú á hendi æðsta yfirmanns hersins ganga hlutirnir hraðar fyrir sig.“
Bandarískir vopnaframleiðendur áhyggjufullir
Um langt skeið hefur verið í undirbúningi það sem danskir fjölmiðlar kalla stærstu innkaupaferð hersins. Um er að ræða loftvarnakerfi, en Danir ráða ekki yfir slíku kerfi í dag. Fjárfestingin jafngildi þúsundum milljarða íslenskra króna og því eftir miklu að slægjast. Augu danska hersins hafa einkum beinst að bandarísku kerfi, Patriot. Svíar og Þjóðverjar hafa keypt Patriot-kerfið sem hefur verið notað í Úkraínu. En það eru fleiri fiskar í sjónum, til dæmis hið evrópska Samp-T NG sem er hliðstætt Patriot-kerfinu bandaríska. Patriot-kerfið er mun mannfrekara en Samp-T Ng-kerfið.
Bandarískir vopnaframleiðendur eru áhyggjufullir þessa dagana. Þeir óttast að evrópskir vopnakaupendur snúi baki við bandarískri framleiðslu, vegna hugsanlegra duttlunga Donalds Trump.
Danskir þingmenn hafa sömuleiðis velt því fyrir sér hvort hægt sé að treysta því að Bandaríkjamenn standi við samninga um kaup á vopnum og varahlutum.
Ekki hægt að hlaupa út í búð og kaupa stríðstól
Þegar ákvörðun hefur verið tekin um hvað eigi að kaupa tekur við biðtími. Fram hefur komið í dönskum fjölmiðlum að þótt skrifað yrði undir kaupsamning á loftvarnakerfi á morgun kæmist það ekki í gagnið fyrr en árið 2028. Danski forsætisráðherrann nefndi á áðurnefndum fréttamannafundi möguleikann á að leigja loftvarnakerfi fram til þess tíma að Danir fái eigið kerfi afhent.
Þess má í lokin geta að í desember 2023 var undirritaður samningur milli Danmerkur og Bandaríkjanna (forsvarssamarbejdsaftale) í varnar- og öryggismálum. Samkvæmt honum fær Bandaríkjaher aðgang að þremur flugvöllum á Jótlandi og heimild til að hafa þar ótilgreindan fjölda hermanna. Samingurinn hefur ekki verið staðfestur af danska þinginu, Folketinget, en til stendur að það verði gert á vordögum.
Athugasemdir (1)