Þegar Teresa Borrenpohl ákvað að fara á opinn borgarafund hjá Repúblikönum í smábænum þar sem hún býr í Idaho grunaði hana eflaust ekki að örfáum klukkustundum síðar yrði hún ein frægasta konan á internetinu.
Á myndbandinu sem kom Teresu í heimspressuna sést hún sitja djúpt í sætinu sínu, klædd í bláa primaloft-úlpu með krosslagðar hendur. Hún var örg yfir að hafa ekki fengið að spyrja spurninga varðandi heilbrigðisþjónustu og rétt kvenna til þungunarrofs.
„Erum við í ráðhúsi eða á fyrirlestri?“ kallar hún. Þá nálgast hana maður með derhúfu, undarlega líkur háttsettum íslenskum lögreglumanni sem úðaði nýverið heilu lítrunum af piparúða yfir mótmælendur hér á landi. En það er önnur örsaga. Maðurinn í þessari sögu heitir Bob Norris og er lögreglustjóri í smábænum Coeur d'Alene í Idaho. „Burt með þig eða þú verður handtekin,“ segir Bob við Teresu sem neitar að fara. „Ég má vera hérna,“ svarar hún. „Konur þurfa að hafa rödd.“ Við þessu á sjarmörinn með derhúfuna vitanlega bara eitt svar:
„Viltu að ég piparúði þig?“
Svo nikkar Bob til nokkurra manna í dökkum fötum. „Grípið hana,“ segir hann. Ungir óeinkennisklæddir menn nálgast Teresu og draga hana úr sætinu. „Hverjir eruð þið? Það er verið að ráðast á mig!“ æpir hún.
„Viltu að ég piparúði þig?
Mennirnir snúa hana harkalega niður áður en þeir draga hana út á höndum og fótum. Hún er orðin skólaus, tjóðruð í bláu primaloft-úlpunni sinni og enginn gerir nokkra tilraun til að aðstoða hana. Á meðan stendur jakkafataklæddur maður í pontu og segir hæðnislega í míkrófóninn: „Sjáið þessa litlu stelpu sem neitar að fara. Hún talaði í leyfisleysi en vill ekki taka afleiðingunum. Rödd þín skiptir engu máli.“
Litla stelpan er fullorðin kona með doktorspróf en eitt einkenni fasisma er einmitt gróf kvenfyrirlitning. Annað einkenni eru ofbeldisfull viðbrögð gegn þeim sem nýta stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi sitt og rétt sinn til friðsamlegra mótmæla.
Athugasemdir