Árið 2009 sendi lesandi Morgunblaðsins Velvakanda bréf. „Húsmóður í vesturbænum svelgdist aldeilis á grautnum þegar hún hlustaði á auglýsingar á Rás 1 miðvikudagsmorguninn 25. nóvember. Þar voru auglýstir þakkargjörðar kalkúnar …“ Sá húsmóðirin enga ástæðu „til þess að flytja inn hátíðisdaga á borð við þakkargjörðarhátíð, Valentínusardag og hrekkjavöku“ og kvað rétt „að snúa af þessari óheillabraut nú þegar“.
Í dag fagna sumir Valentínusardegi á meðan aðrir bölsótast yfir honum. En í stað þess að fækka innfluttum tyllidögum má færa rök fyrir því að þörf sé á að fjölga þeim.
Harmleikur eða atvinnutækifæri?
Hinn 27. janúar síðastliðinn fór fram alþjóðleg minningarathöfn í Auschwitz í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá því að útrýmingarbúðirnar voru frelsaðar. Umtal vakti að hvorki forsætisráðherra Íslands né forseti voru viðstaddar samkomuna. Þótti sumum fjarvera þeirra bera vott um virðingarleysi. Fannst öðrum hún léttvæg því litlar líkur væru á að heimsbyggðin veitti því eftirtekt þótt stöllurnar vantaði í þjóðarleiðtogahafið.
Andstæð sjónarmið gengu út frá sömu forsendu; málið snerist um skilaboðin út á við. Flestum virðist hins vegar hafa yfirsést sá möguleiki að mæting íslensks þjóðarleiðtoga væri ekki fyrir aðra, heldur okkur.
Hér í Bretlandi, þar sem ég bý, var fjallað ítarlega um minningarathöfnina í Auschwitz, einkum út frá viðveru þjóðarleiðtoga Breta sjálfra, Karls Bretakonungs, sem felldi tár er hann hlýddi á orð eftirlifenda helfararinnar.
Ráðafólk er ekki aðeins fulltrúar þjóðar á alþjóðlegum vettvangi heldur einnig gjallarhorn heim.
Stundum er sem harmleikur seinni heimsstyrjaldar falli á Íslandi í skuggann af tækifærunum sem fólust í henni hér á landi; eins og að hún sé saga af efnahagsuppgangi, atvinnutækifærum, tyggjói, nælonsokkabuxum, dansböllum, kanasjónvarpi og popptónlist. Tragedíuna og skömmina látum við öðrum eftir.
Ein þeirra sem ávörpuðu minningarathöfnina í Auschwitz var hin áttatíu og sex ára Tova Friedman. Tova var fimm ára þegar hún var send í útrýmingarbúðirnar. Stuttu eftir komuna þangað var Tova flutt í gasklefann. Þar stóð hún ásamt hópi barna og beið örlaga sinna. Klukkustundir liðu en ekkert gerðist. Skyndilega var börnunum skipað að halda aftur til svefnskála sinna. Tova veit ekki enn hvernig það kom til að hún varð ein af fáum sem lifðu af gasklefa nasista.
Eftir stríð auðnaðist Tovu að komast til Bandaríkjanna. Þar varð á vegi hennar velviljaður læknir. Hann sá húðflúrið sem Tova bar á handleggnum, talnarununa sem fangar í Auschwitz höfðu verið merktir með, og bauðst til að fjarlægja það án greiðslu. Tova brást ókvæða við. Fjarlægja það! „Ég vil aldrei gleyma. Veröldin þarf að vita hvað gerðist.“
„Ráðafólk er ekki aðeins fulltrúar þjóðar á alþjóðlegum vettvangi heldur einnig gjallarhorn heim
Hinn 27. janúar er alþjóðlegur minningardagur um helförina sem hafður er í heiðri í flestum nágrannaríkja okkar ár hvert. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra óskaði á dögunum eftir því að starfshópur, sem skipaður var í janúar 2023, kæmi með tillögur um hvernig taka mætti upp daginn hér á landi.
Það þarf hins vegar ekki að vera svo flókið.
Veggskjöldur við Holtsgötu
Sé dagblöðum frá árunum fyrir stríð flett má gjarnan sjá auglýsingar frá Leðurvöruverkstæði Hans Rottberger að Holtsgötu 12 sem býður til sölu „kventöskur með lás og rennilás, seðlaveski, buddur og nýmóðins tveggja sentímetra belti“.
Hans Rottberger flúði til Íslands frá Þýskalandi árið 1935 eftir að hafa verið fangelsaður og pyntaður í heimalandi sínu fyrir að vera gyðingur. Kona hans, Olga, og kornung dóttir þeirra fylgdu í kjölfarið. Rottberger-hjónin hófu hér leðuriðju.
En móttökur Íslendinga, bæði stjórnvalda og almennings, við flóttafólki sem leitaði undankomuleiða undan ofsóknum Hitlers voru að jafnaði óblíðar. Vorið 1938 bankaði lögreglan upp á hjá Rottberger-hjónunum. Hún lokaði leðurverkstæðinu. Hans, Olga og börnin þeirra, sem þá voru orðin tvö, voru rekin inn í lögreglubíl og þau flutt um borð í Brúarfoss sem átti að flytja þau aftur til Þýskalands. Það varð Rottberger-hjónunum hins vegar til lífs að Brúarfoss kom við í Danmörku þar sem þeim tókst að fá hæli.
Á tímum uppgangs öfgahægrisins megum við ekki við því að afmá ummerki um ein mestu ódæðisverk mannkyns. Fyrst við gátum tekið upp Valentínusardaginn hljótum við að geta sett alþjóðlegan minningardag um helförina í dagatalið eins og aðrir. Á þeim fyrsta mætti hengja upp veggskjöld við Holtsgötu til minningar um Leðurvöruverkstæði Hans Rottberger og örlög hans.
Athugasemdir