Hærri vindhraði hefur ekki mælst á Veðurstofureitum síðan 7. febrúar 2022 en í dag, þegar vindhviður hafa náð hátt í 60 m/s á Fróðárheiði á Snæfellsnesi. Aðeins tvisvar hafa vindhviður mælst hærri á Fróðárheiði á þessari öld, árin 2015 og 2008.
Á höfuðborgarsvæðinu náði veðrið hámarki um klukkan 18 og voru hviður víða á milli 30 til 35 m/s. Óveðrinu hafa fylgt þrumur og eldingar.
Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að viðbragðsaðilar hafi sinnt fjölmörgum verkefnum á höfuðborgarsvæðinu í dag, þar sem rauð viðvörun var í gildi til klukkan 19. Appelsínugul viðvörun verður síðan í gildi fram að miðnætti. Lögreglan hvetur fólk því til að halda sig heima.
Síðdegis hafi lítil umferð verið á höfðuborgarsvæðinu og flestir fylgt fyrirmælum um að vera ekki á ferli. Verkefni dagsins hafa að mestu snúið að lausamunum sem hafa fokið, auk þess sem vatnstjón varð þegar flæddi inn í hús. Alls hafa útköllin verið á annað hundrað og nýtur lögregla og slökkvilið aðstoðar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Enn að hvessa fyrir austan
Veðrið gengur yfir landið á mismunandi tíma með mismiklum áhrifum. Sem stendur er veðrið byrjað að ganga niður vestast á landinu, þótt enn sé að hvessa fyrir austan.
Tilkynna þarf komu barns
Aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins hefur sent frá sér tilkynningu um að rauð viðvörun verði einnig í gildi frá klukkan 8 til 13 á morgun, fimmtudag. Fólk er því hvatt til að halda sig heima á meðan óveðrið gengur yfir og vera ekki á ferðinni ef nauðsyn ber ekki til. Röskun verður á skólastarfi og lágmarksmönnun verður í grunn- og leikskólum. Tilkynna þarf komu barns með tölvupósti til skólastjórnenda.
Biðja fólk um að fylgjast með
Almannavarnir hafa hvatt fólk til að fylgjast með á vef Veðurstofunnar http://www.vedur.is. Eins er bent á að hægt sé að fylgjast með færð á vegum á vef Vegagerðarinnar http://www.umferdin.is.
Athugasemdir