Bóhemalíf í Prag

„Ás­geirs H. Ing­ólfs­son­ar, bóhems­ins, sígaun­ans, norð­lend­ings og sout­h­ererr­ani­an, verð­ur sárt sakn­að, og tím­inn rann út svo alltof hratt,“ skrif­ar Val­ur Gunn­ars­son í minn­ingu um Ás­geir sem var ná­inn vin­ur hans.

Bóhemalíf í Prag
Ásgeir uppi á þaki í Prag að lesa úr bók. Mynd: Aðsend

Það hefur löngum verið vitað að eina leiðin til að lifa af íslenskum menningarskrifum er að flytja á brott frá Íslandi. Þar sem um það bil alls staðar er ódýrara að lifa koma flestir borgir heims til greina, utan kannski Tókýó, Ósló og Genf. Auk þess að sækjast eftir ódýru fæði og húsnæði vill hinn íslenski menningarskríbent hafa menningu í kringum sig, og Prag er ein helsta menningarborg álfunnar. Einmitt þangað sótti einn okkar allra besti maður, Ásgeir H. Ingólfsson, sem nýlega er fallinn frá. Og þangað heimsótti ég hann oft.

Eftir lok kalda stríðsins virtust um tíma sem Prag yrði miðpunktur Evrópu. Sumir vildu jafnvel færa höfuðstöðvar Evrópusambandsins þangað því ljóst var að það myndi brátt stækka til austurs og þá yrði Brussel ansi langt frá miðju þess.

Tugir þúsunda ungra Bandaríkjamanna flykktust til borgarinnar í von um að verða hinn nýi Hemingway eða F. Scott Fitzgerald, Prag átti nú að verða það sem París hafði verið eftir lok fyrri heimsstyrjaldar. Líklega komu margir jafnframt til að kynnast tékkneskum konum sem voru víst forvitnar um útlendinga. Ein kvikmynd tímabilsins sýnir Bandaríkjamann „óvart“ missa passann fyrir fram þarlenda, svo ekki færi á milli mála hvaðan hann sé.

En bókmenntaverkin létu á sér standa. Helsta skáldsagan um bandaríska expata í Mið-Evrópu var eftir Arthur Phillips og birtist árið 2002. Nefndist hún Prague: A Novel en brandarinn var sá að hún gerðist að öllu leyti í Búdapest, þar sem aðfluttir Bandaríkjamenn láta sig dreyma um hin björtu ljós Prag og ímynda sér partíin þar vera betri.

Kúlið færðist smám saman til Berlínar, þaðan sem það hafði líklega aldrei farið til að byrja með, og þar sem nú búa ótal listamenn, ekki síst frá Íslandi. En hvað varð af expötunum í Prag? Margir héldu líklega heim þegar peningarnir kláruðust og innblásturinn og ástin létu á sér standa, enda voru þeir stundum kallaðir „trustafarians“ til háðungar, efri miðstéttarkrakkar sem áttu sjóði að sækja í. En sumir búa þar enn og lifa hinu fullkomna bóhemalífi.

Uppruni bóhema

Og hugtakið bóhem er einmitt upprunnið héðan. Tvö helstu héruð Tékklands nefnast Bæheimur og Mæri á íslensku en á ensku Bohemia og Moravia og er hið fyrrnefnda komið úr Latínu, en sjálfir kalla Tékkar héraðið Čechy þaðan sem nafn landsins er fengið. Síðast þegar var staddur í Tékklandi spurði ég um tengslin á milli hins meinta bóhemalífs og Tékklands og fékk það svar að þar sem kaþólikkar litu á Tékka sem villutrúarmenn allt frá dögum Jans Húss sem var brenndur á báli á 15. öld hafi menn talið Bæheiminga óþjóðalýð hinn mesta og í stöðugri uppreisn við páfann. Þetta hafi svo færst yfir á þá Bóhema sem við þekkjum í dag.

Og hvað er svo bóhem? Tja, maður þekkir hann þegar maður sér hann. Bóheminn er rótlaus og gjarnan blankur, illa við að binda sig nokkur veraldlegu og hneigður til víns og lista, svo eitthvað sé nefnt. Wikipedia gefur reyndar aðra útskýringu á heitinu. Ofantaldir eiginleikar hafa lengi verið tengdir við sígauna. Í Frakklandi á 19. öld voru sígaunar taldir hafa komið til landsins í gegnum Bóhemíu 400 árum fyrr, eitthvað sem líklega stenst ekki en nafnið festist við þá sem þóttu lífa hálfgerðum sígaunalífsstíl. Frá frönsku rataði hugtakið inn í ensku, og um miðja 19. öld var farið að tala um bóhema sem bókmenntalega sígauna sem höfðu sagt skilið við hefðbundin viðhorf í lífi og listum, hvar svo sem þeir væru staddir í heiminum.

Höfuðstaður bóhema á 19. öld var Montmartre-hverfi Parísar, eins og sjá má í óperunni La Boheme eftir Puccini eða söngleiknum Moulin Rouge í seinni tíð. París var enn höfuðstaður bóhema á millistríðsárunum en undir lok aldar hafði bóhemastemningin flutt til Bóhemíu sjálfrar, til borgarinnar Prag.

Einhent skáld og svefnsamir Tékkar

Og þar eymir enn eftir af henni. Ljóðskáldin eru ekki lengur ungir Bandaríkjamenn heldur komnir vel á miðjan aldur. Þótt markmiðið sé varla lengur að slá í gegn, eða einu sinni að kynnast tékkneskum konum sem fyrir löngu eru búnar að venjast erlendum karlmönnum, una þeir hag sínum vel í borginni. Í hverri viku koma þeir saman á einum af börum borgarinnar, drekka hinn dýrindis tékkneska bjór og lesa upp ljóð sín. Aðrir útlendingar og stöku Tékkar slæðast með. Skipuleggjandinn Marco er franskur og giftur tveggja barna faðir, er annt um ljóðlistina en ekki jafn gefinn fyrir bóhemalífið, drekkur bjór en ekki Becherovka með og fer heim um miðnætti.

Tékkum er annt um svefnfrið sinn. Á skilti á lestarstöðinni og aftur í miðbænum er áréttað að nágrannarnir vilji fá að sofa og því bannað að vera með læti eftir klukkan tíu á kvöldin. Nágrannarnir ku fylgja þessu eftir og á uppistandskvöldum þarf tónlistaratriðum að vera lokið fyrir tíu þótt enn megi lesa upp. Ef til vill eru þetta viðbrögð við gengdarlausu partístandi níunnar en ágætis tilbreyting frá Íslandi þar sem partíin hefjast sjaldnast fyrr en um miðnætti og svefnfriður nágranna virtur að vettugi.

Ásgeir þekkir hér alla, líkt og hann gerir í Berlín og í Búdapest, þótt partíin þar séu ekki jafn góð. Hann var hér upprunalega skiptinemi í kringum aldamótin en sneri aftur fyrir um það bil tíu árum. Til að safn fyrir flutningnum þreif hann eitt sumar sundlaugar við Mývatn en hefur starfaði svo við þýðingar og greinaskrif og orti ljóð þess á milli, í Prag var hægt að lifa á launum sem varla höfðu náð upp í hálf lágmarkslaun heima fyrir. Öllu var fórnað fyrir listina.

Ásgeir átti það til að tala mikið, enda að norðan, og svo vinalegur að um hann söfnuðust vinahópar. Lucien er einhent skáld frá Bandaríkjunum, enginn veit hvernig hann missti höndina en hann gefur senunni talsverðan lit fyrir því. Oxana með alpahúfuna er frá Úkraínu. Hún segir mér frá því að fjölskylda hennar hafi hafnað henni þar sem hún neiti að taka bóluefni.

Annar segist afkomandi Tékka sem flúðu til Kanada eftir vorið í Prag 1968 sem kveðið var niður af rússneskum skriðdrekum. Þannig endaði síðasta tilraunin til að skapa kommúnisma með mannlegt andlit. Leikritaskáldið Václav Havel var einn þeirra sem hélt andstöðunni áfram í heimalandinu, var bannaður og stundum fangelsaður, en varð svo forseti landsins árið 1989. Eftir að hann lét af embætti árið 2003 átti hann það til að heimsækja Ísland og man ég eftir að hafa séð hann á vappi á Austurvelli.

Kafka, róbótar og góðir dátar

Havel er ekki eini Pragverjinn til að segja mark sitt á bókmenntasöguna. Á þriðja áratug aldarinnar má segja að Tékkar hafi svo gott sem fundið upp nútímabókmenntir. Jaroslav Hasek skrifaði hina bráðskemmtilegu bók um Góða dátann Svejk. Karol Capek skrifaði um uppreisn vélmenna fyrstur manna og fann í leiðinni upp hugtakið „Róbot,“ komið af „rabota,“ að vinna.

Ofar öllum trónir Franz Kafka, sem skrifaði á þýsku en bjó mestalla tíð í Prag. Tvær styttur af skáldinu eru í borginni og ég arka yfir Karlsbrúnna í leit að Kafka brúnni. Við anddyrið stendur að miðar fáist í minjagripabúðinni. Í minjagripabúðinni er hins vegar sagt að þeir fáist í anddyrinu. Þá er safninu lokað klukkan fimm þó það segi sex á heimasíðunni og hún er orðinn korter í. Allt virðist þetta heldur kafkaískt, en kannski hef ég bara ekki lagað mig að siðum heimamanna.  

Um kvöldið les ég upp við góðar undirtektir. Hér eru allir velkomnir. Síðar höldum við til České Budějovice í suðurhluta landsins, þaðan sem Budvar bjórinn er uppruninn. Ásgeir er á eftir mér á sviðinu, hefur rifið litla miða sem hann gengur um og dreifir yfir salinn. Ég er ekki alveg viss um hvað þetta á að fyrirstilla en það er áhrifaríkt. Hann er orðin frábær upplesari, enda hefur hér komist í æfingu. Minnst er á óhefðbundinn upplestrarstíl hans í bókinni Southerranians, sem ljóðakollektívið gaf út og er nefnt í höfuðið á uppáhalds upplestrarbarnum sem nefnist South.

Laugardaginn 2. febrúar komu þessir Sunnlendingar svo saman í íbúð Ásgeirs og lásu upp honum til heiðurs, ljóð eftir hann og ljóð um hann. Var því streymt hingað norður í Bíó Paradís þar sem annar vinahópur kom saman.

Ásgeirs H. Ingólfssonar, bóhemsins, sígaunans, norðlendings og southererranian, verður sárt saknað, og tíminn rann út svo alltof hratt. En við höfum enn Framtíðina, ljóðabók hans sem kom út fyrir nokkrum árum. Orð Ásgeirs munu lifa með okkur um langa framtíð enn.   

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Stendur með því sem hjartað segir að sé rétt
4
Viðtal

Stend­ur með því sem hjart­að seg­ir að sé rétt

Ás­dís María Við­ars­dótt­ir hef­ur sleg­ið í gegn í þýsku­mæl­andi lönd­um. Með­al ann­ars átt lag í fyrsta sæti vin­sældal­ista út­varps­stöðva í Þýskalandi og ver­ið til­nefnd þar fyr­ir besta popp­lag árs­ins. Hér heima vakti hún um­ræðu í fyrra þeg­ar hún dró sig frá lagi sínu í Eurovisi­on vegna hern­að­ar­ins á Gaza. Ás­dís María ræð­ir allt þetta í við­tali – og meira til!

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Ásgeir greindist með banvænt krabbamein: „Ég ætla samt að halda partí“
1
Viðtal

Ás­geir greind­ist með ban­vænt krabba­mein: „Ég ætla samt að halda partí“

Ás­geir H. Ing­ólfs­son fékk ný­ver­ið dauða­dóm, eins og hann orð­ar það. Krabba­mein­ið sem hann greind­ist með er ekki tækt til með­ferð­ar. Ljóð­skáld­ið og blaða­mað­ur­inn býð­ur því til Lífs­kviðu; mann­fagn­að­ar og list­við­burð­ar á Götu sól­ar­inn­ar við Kjarna­skóg. Ás­geir frá­bið­ur sér orð­ið æðru­leysi í þessu sam­hengi, því auð­vit­að sé hann „al­veg hund­fúll.“
Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
2
RannsóknCarbfix-málið

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
3
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár