Í síðustu viku gekk stormurinn Éowyn yfir Bretland og Írland. Milljón heimili urðu rafmagnslaus er áttatíu ára vindhraðamet var slegið. Ungur maður lést þegar tré féll á bifreið hans.
Fjölmiðlamaðurinn Jeremy Clarkson lét sér fátt um finnast. Í pistli í dagblaðinu The Sun sagði hann storminn aðeins smávægilegt „ónæði“ og æsilegar veðurfréttir Breska ríkisútvarpsins af honum skipulagðan áróður gegn Íhaldsflokki landsins.
„Sko, ég skil hvers vegna veðurfræðingum finnst gaman að fara í móðursýkiskast,“ skrifaði Clarkson sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt sem þáttastjórnandi bílaþáttarins Top Gear. „Við það eru þeir fluttir úr lokum fréttatímans í fréttirnar sjálfar, sem gerir mömmu þeirra og pabba afar stolt. En ég veit líka hvers vegna þáttagerðarfólk BBC er ánægt með látalætin; þau smellpassa inn í söguna sem verið er að semja til höfuðs Íhaldsmönnum, efnahagsvexti og viðskiptum og um loftslagsbreytingar.“
„Sko, ég skil hvers vegna veðurfræðingum finnst gaman að fara í móðursýkiskast“
Clarkson er ekki einn um að gruna ríkisfjölmiðil um samsæri. Það var þungt hljóðið í þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Hildi Sverrisdóttur, við upphaf vikunnar. Á Facebook greindi hún frá því að hún hefði hlustað á þáttinn Vikulokin á RÚV og þar hefði ekki verið „minnst einu orði á styrkjamál Flokks fólksins og tilheyrandi vandræðagang ríkisstjórnarinnar“. Taldi hún að ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt í hlut hefði „allur þátturinn verið lagður undir þá umræðu“. Kvað Hildur efnistökin áfellisdóm: „Hlutleysi og aðhald ríkismiðilsins gagnvart nýrri vinstri stjórn byrjar aldeilis vel segi ég nú bara.“
Erfitt er annað en að hlæja að vitleysunni í vígapennanum Clarkson. Orð Hildar væru líka fyndin léki hún sér ekki að eldi.
Annarlegar hvatir
Ný könnun, sem breska sjónvarpsstöðin Channel 4 lét gera, sýnir að 58 prósent Z-kynslóðarinnar – fólk á aldrinum 13–27 – treysta upplýsingum sem vinir þeirra deila á samfélagsmiðlum jafn vel eða betur en rótgrónum fjölmiðlum. Andrew Tate og Jordan Peterson voru meðal áhrifavalda sem nutu mikils trausts, en 42 prósent karlkyns þátttakenda könnunarinnar sögðust taka trúanleg orð hinna umdeildu karlmennsku-prédikara.
Hugtakið „meginstraumsmiðlar“ er níðyrði sem hefur verið notað síðustu ár til að grafa undan tiltrú almennings á hefðbundnum fjölmiðlum. Er það vinsælt meðal popúlista á borð við Donald Trump í Bandaríkjunum og Nigel Farage í Bretlandi, sem leitast við að beina almenningi frá gagnrýninni umfjöllun hefðbundinna fjölmiðla að hlaðvörpum og bloggsíðum sem flytja boðskap hliðhollan málstað þeirra.
Undanfarið hefur borið á þeirri samsæriskenningu, sem Hildur Sverrisdóttir viðrar, að íslenskir fjölmiðlar ætli sér ekki að veita hinni nýju ríkisstjórn jafnmikið aðhald og þeir veittu þeirri fráfarandi sem Sjálfstæðisflokkurinn sat í.
Fjölmiðlar eru sannarlega ekki hafnir yfir gagnrýni og er rétt að vekja á því athygli þegar þeim verður á. En þar sem nýtt þing er ekki komið saman og ný ríkisstjórn vart tekin við er lítið hægt að fullyrða um hvernig fjölmiðlaumfjöllun um stjórnvöld verður háttað í framtíðinni. Að manni læðist því sá grunur að aðrar hvatir en áhyggjur af vinnubrögðum fjölmiðla liggi að baki yfirlýsingum á borð við upphrópun Hildar.
Ótilætluð áhrif
Sjálfstæðisfólki er vorkunn. Flokkurinn er vanur að vera við völd. Það mun taka hann tíma að finna rödd sína í stjórnarandstöðu.
Donald Trump er nú aftur orðinn forseti Bandaríkjanna. Flokkur Nigel Farage mældist í síðustu viku stærsti flokkur Bretlands í skoðanakönnun. Það getur verið freistandi að grípa á lofti orðræðu popúlista í von um að stytta sér leið aftur í stjórn. En slíkt er dýru verði keypt.
Ungt fólk leggur í auknum mæli hefðbundna fjölmiðla og hvers konar efni á internetinu að jöfnu. Alex Mahon, framkvæmdastjóri Channel 4, segir Z-kynslóðina hafa frá fæðingu verið berskjaldaða fyrir skautun, upplýsingaóreiðu og viljandi villandi staðhæfingum á samfélagsmiðlum. Hún segir þá sem slíkt stundi afvegaleiða æskuna eins og flautuspilandi rottufangarinn frá Hamel úr þýsku þjóðsögunni.
Í könnun Channel 4 sögðu 45 prósent karla „baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna gengna svo langt að mismununin beindist nú að karlmönnum“ og að jafnréttisbaráttan ætti „ekki að ganga lengra“. Er um að ræða svipað hlutfall og treystir orðum Andrew Tate og Jordan Peterson.
Ég leyfi mér að efast um að Hildur Sverrisdóttir myndi viljandi gera nokkuð til að auka veg fyrrnefndra postula. Ótilætluð áhrif þess að kasta rýrð á fjölmiðla í pólitískum tilgangi eru hins vegar uppgangur loddarans.
Almenningur á betra skilið en rottufangara í stjórnarandstöðu. Óskandi er að Sjálfstæðisflokknum beri gæfa til að finna rödd sína án þess að sökkva niður á plan harðsvíruðustu popúlista heimsins.
Athugasemdir