Tæplega þriðjungur kjósenda gerði upp hug sinn á kjördag og er það hlutfall með því hæsta sem mælst hefur í undanförnum alþingiskosningum. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup þar sem spurt var um ákvarðanatöku kjósenda í alþingiskosningunum 30. nóvember.
Samkvæmt niðurstöðu þjóðarpúlsins tóku 18 prósent kjósenda ákvörðun í kjörklefanum eða á kjörstað, níu prósent samdægurs en áður en mætt var á kjörstað. Þannig ákváðu nær 28 prósent kjósenda endanlega á kjördag hvernig þeir ráðstöfuðu atkvæði sínu. Hlutfall þeirra sem tóku ákvörðun meira en mánuði fyrir kosningar var örlítið hærra, eða 29 prósent.
Níu prósent tóku ákvörðun daginn fyrir kjördag en 14 prósent tóku ákvörðun í vikunni sem var kosið, 11 prósent ákváðu sig einni til tveimur vikum fyrir kosningar og níu prósent þremur til fjórum vikum fyrir kosningar.
Yngra fólk ákvað sig almennt seinna en eldra fólk og fólk með meiri menntun en minni var sömuleiðis aðeins líklegra til að ákveða sig seinna. Kjósendur Miðflokksins voru líklegastir til að ákveða sig meira en mánuði fyrir kosningar, en 46 prósent kjósenda flokksins voru búnir að taka ákvörðun þá. Á sama tíma voru kjósendur Framsóknarflokksins líklegri en kjósendur annarra flokka til að ákveða sig á kjörstað, eða 28 prósent. Sama hlutfall kjósenda þeirra var hins vegar búinn að ákveða sig mánuði eða meira fyrir kjördag.
Kjósendur Flokks fólksins „taktískastir“
Einnig var spurt hvort fólk hafi kosið annan flokk en þann sem þeim leist best á, til dæmis frá niðustöðum kannana. 92 prósent svarenda kaus flokkinn sem þeim leist best á en átta prósent kusu annan flokk en þann sem þeim leist best á. Það voru helst kjósendum Flokks fólksins sem kusu annan flokk en þeim leist best á og þar á eftir komu kjósendur Samfylkingarinnar.
Af þeim sextíu svarendum sem sögðust hafa kosið annan flokk en þann sem þeim leist best á leist flestum best á Sjálfstæðisflokkinn og næst flestum á Pírata og Miðflokkinn. Þar á eftir koma Viðreisn og Sósíalistaflokkurinn.
Könnunin var gerð dagana 5. til 12. desember 2024. Heildarúrtaksstærð var 1.726 og þátttökuhlutfall var 47,9 prósent. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.
Athugasemdir