Ég þyrfti helst að vakna 15 mínútum fyrr á morgnana en geri það sjaldnast. Morgnarnir éta auðveldlega upp eina og hálfa klukkustund og við mæðgur rétt mokumst inn í skólann á þokkalegum tíma. Æi, ég vakna aðeins fyrr á morgun.
Ég varð fertug fyrir rúmum mánuði og hef örugglega ætlað mér síðastliðna þrjá áratugi að vakna þessu fyrirtaksfína og lífsbætandi korteri fyrr á morgnana. Ég er ansi ákveðin ef ég ætla mér eitthvað og á auðvelt með að koma hugmyndum í verk en þessar fjandans 15 mínútur eru mér einhvern veginn um megn. Eða hvað?
Það er nefnilega munur á að breyta fólki og að benda því á eitt og annað sem mætti betur fara. Löskuð týpa verður seint tipp-topp þó ég biðji hana vinsamlegast um að vera aðeins minna glötuð.
Við sjáum mynd. Eða í raun blað. Dagblað með stuttum bókadómi sem fer að mestu í vangaveltur um útlit höfundar, metnaðarleysi og mögulegan höfundarrétt en í ritdómnum er bent á að það sé ekki útilokað að hópur karlmanna hafi skrifað bókina, sem er slök en ekki það slök að konan sem um ræðir geti hafa skrifað hana án aðstoðar. Tekið er fram að konan sé ung og á „fengitíma“ sem sé möguleg ástæða fyrir einhverjum af brestum hennar.
Gott og vel. Fólk er alls konar. Þegar þessi bókadómur er birtur er ég 26 ára og tel mig með áframhaldandi dugnaði og hugrekki geta sýnt mig og sannað. Bókaelítan muni með tíð og tíma sjá að ég er flink og þó að maður um sextugt hafi ekki skilið bók sem ég skrifaði handa vinkonum mínum þá sé það allt í lagi. Alveg eins og það hefur ekkert með mig og mína hæfni að gera þótt einhverjir í stjórn Rithöfundasambandsins hafi fundið sig knúna til þess að gera lítið úr inngöngu minni í það fína apparat.
Árin líða og ég gef út fleiri bækur, hlýt styrk til að skrifa fræðibók með tveimur af færustu læknum landsins og bæti við mig í námi og reynslu. Upp, upp og áfram. Metsölubækur, sjónvarpsþættir, ritstjórastörf, framkvæmdastjórn, álag og áskoranir, meistarapróf í verkefnastjórnun og stofna nokkur fyrirtæki. Er ég núna orðin klár?
Ég vandi mig snemma á að gefa ómálefnalegri gagnrýni ekki gaum því þó hún sé aldrei skemmtileg þá skilgreinir hún mig ekki. Afköst og orðspor er minn mælikvarði. Keyrum þetta áfram!
Fyrir stuttu var ég svo stödd á menningartengdum viðburði. Þar standa nokkrir aðilar úr menningarkjarnanum og ræða málin og þar á meðal vinafólk mitt. Ég smelli mér því í samræðuhringinn sem hefur myndast og hlusta á samtalið. Það líða ekki nema örfá augnablik þar til ég stend fyrir utan hringinn sem ég hafði komið mér svo haganlega fyrir í, við hlið vinkonu minnar. Við hlið mér hafði staðið maður sem ég kannaðist við en mundi ekki af hverju. Á einhvern afskaplega listrænan hátt hafði hann fært sig hratt og ákveðið til nokkrum sinnum og „rassað“ mig út úr samtalinu svo ég stóð á örskotsstundu fyrir aftan hann – og utan við samtalið. Ég átti erfitt með að hlæja ekki upphátt. Hvað í fjandanum var hann að gera? Þetta var ákaflega undarlegt. Þar til ég áttaði mig á að viðkomandi hafði áður reynt að „rassa“ mig burt.
„Alla vega ætlar þessi óbeislaða að brokka frjálst hér eftir enda fengitíminn löngu liðinn“
Ég ákvað að gefa þessu atviki ekki meiri orku en var þó hugsað til þess á leiðinni heim þennan dag að það breytir engu hvað ég verð gömul eða klár, viðurkennd eða vegleg, glataða týpan er áfram glötuð. Ég á sjálf í mesta basli með að breyta mér sjálfri og endurstilla líkamsklukku mína um 15 mínútur. Hvernig í fjandanum á ég að breyta fullorðnu ókunnugu fólki? Og hvers vegna ætti ég að vilja það? Ég er orðin klár! Klár í að láta það laskaða dæma sig sjálft. Allavega ætlar þessi óbeislaða að brokka frjálst hér eftir enda fengitíminn löngu liðinn.
Athugasemdir