Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mun ekki gefa kost á sér í formannskjöri á komandi landsfundi flokksins. Þessu greinir hann frá í færslu á Facebook. Hann hefur verið formaður frá árinu 2009. „Ég skil sáttur við mín verk, þakklátur fyrir stuðninginn og stoltur af mínum störfum sem þingmaður í tæplega 22 ár.“
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut lægsta fylgi í sögu flokksins í síðustu þingkosningum og Bjarni mun ekki taka sæta á þinginu sem mun hefjast að nýju síðar í janúar.
„Næstu vikur ætla ég að taka mér frí en hyggst svo taka mín síðustu skref á pólitíska sviðinu og kveðja vini mína í Sjálfstæðisflokknum á landsfundinum sem framundan er, þar sem blásið verður til sóknar fyrir þjóðlífið allt.“
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður að óbreyttu haldinn í næsta mánuði.
Úrslitin ekki nægilega góð fyrir sjálfstæðismenn
Bjarni segir að sögulega séu úrslit kosninganna ekki nægilega góð fyrir sjálfstæðismenn. Flokkurinn hefði þó unnið ágætan varnarsigur.
Formaðurinn fráfarandi segir að í stjórnarandstöðu muni opnast ný tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að skerpa á forgangsmálum og hann segir það rétta ákvörðun að eftirláta það öðrum starf að vinna að góðum sigri í næstu kosningum.
Bjarni segir að hann hafi aldrei tekið því sem sjálfsögðum hlut að endurnýja umboð sitt. „Á þessum tímamótum hef ég hins vegar ákveðið að sækjast ekki eftir endurnýjuðu umboði til forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Nýafstaðnar kosningar skiluðu Sjálfstæðisflokknum næst flestum þingmönnum á Alþingi, þar sem hann var rúmu prósentustigi minni en sá stærsti.“
Nú hefur hann góðan tíma til að einbeita sér að pukrinu
Gott er að losna við hinn gjörspillta Bjarna af þingi.