Á fyrsta degi ársins 2024 tilkynnti Guðni Th. Jóhannesson, sitjandi forseti Íslands, í nýársávarpi sínu að hann hygðist ekki sitja annað kjörtímabil á Bessastöðum. Hann hafði þá verið forseti frá árinu 2016.
Í framhaldinu stigu fjölmargir fram og freistuðu þess að gerast arftakar hans. Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team, endaði þó á að bera sigur úr býtum í gríðarlega spennandi kosningabaráttu.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/mb6NwB3C4R8R_1600x3910_uOsVgCO_.jpg)
Strax í fyrstu viku janúarmánuðar höfðu þjóðþekktir einstaklingar svo sem athafnamaðurinn Ástþór Magnússon og hæstaréttarlögmaðurinn og varaþingmaðurinn Arnar Þór Jónsson tilkynnt um framboð sín til embættisins. Talsvert fleiri áttu eftir að bætast í hópinn, en þegar upp var staðið bárust tólf gild framboð til forseta Íslands.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/LmuQPs5_6n9R_1600x4160_kvSNd4Vj.jpg)
Fáeinum dögum áður en Baldur Þórhallsson tilkynnti framboð sitt hafði forstjórinn Halla Tómasdóttir sagst ætla að bjóða sig fram í annað skiptið. Hún hafði lotið í lægra haldi fyrir Guðna Th. í kosningunum 2016. Þá gáfu leikarinn Jón Gnarr og orkumálastjórinn Halla Hrund Logadóttir einnig kost á sér þegar á leið vorið.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/oSMgTH6WqLRy_1600x3969_1EqMOQng.jpg)
Stórtíðindi þóttu þegar forsætisráðherrann Katrín Jakobsdóttir tilkynnti í apríl að hún hygðist biðjast lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti til þess að gefa kost á sér til forseta. Þessi ákvörðun hafði það í för með sér að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, varð í annað sinn forsætisráðherra.
Eftir að Katrín bauð sig fram mældist hún, samkvæmt skoðanakönnunum, vera sigurstranglegasti forsetaframbjóðandinn. Hún átti þó erfiðara uppdráttar eftir því sem á leið kosningabaráttuna, meðal annars vegna þeirra óvinsælda sem ríkisstjórnin, sem hún hafði leitt, hafði bakað sér.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/aatAOKndP3XT_1600x4160_kvSNd4Vj.jpg)
Umtalsverðar sviptingar urðu á fylgi frambjóðenda á meðan kosningabaráttunni stóð. Í lok apríl mældist Katrín með mest fylgi en Baldur Þórhallsson mældist rétt fyrir neðan hana. Þegar komið var fram í maí hafði Halla Hrund hins vegar tekið fram úr þeim báðum. Það fylgi átti þó eftir að dala allverulega og hafnaði hún að lokum í þriðja sæti.
Þegar komið var á kjördag hafði Halla T náð til sín öðru sætinu í skoðanakönnunum á eftir Katrínu. Útséð virtist að önnur hvor þeirra myndi verða næsti forseti lýðveldisins.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/QJOc9qqHvCml_1600x3362_0cSiVtSS.jpg)
Umtalsverð spenna var áður en kosningavakan hófst að kvöldi 1. júní. Eftir að tölur fóru að berast varð þó fljótlega ljóst hvernig úrslitin myndu ráðast.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/Qt9iJkp0JDl1_1600x4160_kvSNd4Vj.jpg)
Þegar klukkan var orðin eitt um nótt hafði Halla Tómasdóttir fengið flest atkvæði í öllum kjördæmum. Eftir að fyrstu tölur höfðu verið kunngjörðar sagði Katrín að sér sýndist stefna í að Halla Tómasdóttir yrði næsti forseti Íslands. Óskaði forsætisráðherrann fyrrverandi keppinauti sínum til hamingju.
Halla Tómasdóttir var sett í embætti þann 1. ágúst.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/49eTIUN1-QUN_1600x4160_kvSNd4Vj.jpg)
Athugasemdir