Þrotabúi Air Berlin er heimilt að gera fjárnám hjá Isavia til greiðslu skuldar upp á 163 milljónir króna samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness sem féll í gær.
Málið tengist deilu Isavia við Air Berlin sem fór í greiðsluþrot. Til þess að tryggja endurheimtu vegna þjónustu á Keflavíkurflugvelli sem var óuppgerð, endaði sýslumaðurinn á Suðurnesjum á því að kyrrsetja vél fyrirtækisins að beiðni Isavia.
Lufthansa keypti félagið sama ár og var aðgerð Isavia harðlega gangrýnd af sumum fyrir óbilgirni í því ljósi, en Lufthansa er eitt stærsta flugfélag Evrópu.
Air Berlin höfðaði fyrst mál fyrir Landsdómi í Berlín í Þýskalandi og sigraði þar málið að því er fram kemur í dómi héraðsdóms. Þeim úrskurði var svo áfrýjað til yfirréttar þar í landi sem staðfesti úrskurð Landsdóms Berlínar.
Isavia hafnaði því að dómstóllinn hefði lögsögu hér á landi í ljósi þess að varnarþing félagsins er í Héraðsdómi Reykjaness. Þessu hafnar þrotabú Air Berlin og segja Lúganósamkomulagið gilda, sem geri það að verkum að úrskurðurinn gildi jafnframt hér á landi vegna alþjóðlegra skuldbindinga Íslands.
Málið er lagatæknilega flókið en í stuttu máli kemst dómari Héraðsdóms Reykjaness að þeirri niðurstöðu að gerðarbeiðni Air Berlin heyrir undir Lúganósamninginn auk þess sem skilyrði séu uppfyllt til þess að verða við aðfarabeiðninni.
Þegar haft var samband við Isavia fengust þær fregnir að það væri verið að yfirfara úrskurðinn og að engin ákvörðun lægi fyrir um framhald málsins að sinni.
Athugasemdir