Á kjördag birtust hugleiðingar á DV.is eftir pistlahöfundinn og geðlækninn Óttar Guðmundsson undir yfirskriftinni: „Leiðinleg kosningabarátta“.
Það tekur mig sárt að þurfa að lýsa mig ósammála mínum knáa kollega. En þvert á staðhæfingu Óttars var nýyfirstaðin kosningabarátta að mínu mati hreint ekki nógu leiðinleg.
Upp á líf og dauða
Óttar er ekki einn um að fagna því að kosningarnar séu afstaðnar. Athygli er takmörkuð auðlind og varpa rithöfundar öndinni léttar yfir því að sviðsljósið beinist nú aftur að jólabókaflóðinu sem hefð er fyrir að fylli fjölmiðla á þessum árstíma. Eins og pólitíkusar í síðustu viku geysast höfundar nú fram á völlinn og heyja baráttu upp á líf og dauða starfsferilsins um pláss í jólapökkunum sem – eins og sætafjöldi á Alþingi – er af skornum skammti.
Rithöfundar í desember og stjórnmálamenn í kosningabaráttu eiga það sameiginlegt að gera „næstum því hvað sem er fyrir frægðina“, eins og segir í Stuðmannalaginu, „nema kannski að koma nakinn fram“.
En hversu nálægt helberri nekt liggja velsæmismörkin?
Eitt sinn, þegar ég var með bók í jólabókaflóðinu, var mér boðið í hressan útvarpsþátt á Rás 2. Ekki var þó um að ræða létt spjall þar sem höfundi gæfist færi á að mæra eigið verk í von um selja nokkur eintök. Var tveimur rithöfundum ætlað að mætast í harðvítugu markaðs-einvígi. Hvor gestur fengi eina mínútu til að flytja eldheita söluræðu um sjálfan sig. Hlustendur áttu svo að hringja inn og kjósa þann höfund sem væri betri markaðsfulltrúi.
Ég afþakkaði.
Hnignun vitsmunanna
Í vikunni tilkynntu aðstandendur Oxford orðabókarinnar um orð ársins. Fyrir valinu varð hugtakið „brain rot“, eða heilarot, sem vísar til meintrar hnignunar vitsmunanna í kjölfar eilífs flakks um innihaldslaust efni samfélagsmiðla.
„Svo yfirdrifið kátt fólk eins og sást í kosningabaráttunni á hvergi heima annars staðar á opinberum vettvangi en í settinu hjá Gísla Marteini á föstudagskvöldi“
Af nýafstaðinni kosningabaráttu að dæma er tími heilarotsins runninn upp í íslenskum stjórnmálum. Ef frambjóðendur voru ekki að sprella á TikTok þar sem þeir birtust eins og paródíur af sjálfum sér í Áramótaskaupinu, syngja í karókí eða keppa í matreiðslu háðu þeir fyrir fram tapaða baráttu við að halda andlitinu og sjálfsvirðingunni þar sem þeir borðuðu kjúklingavængi í chili-sósu í sjónvarpsstúdíói og svöruðu spurningum um hverjum þau vildu helst „ríða, drepa og giftast“ úr röðum andstæðinga sinna.
Ábúðarfullt fólk, sem helgaði sig stjórnmálum en þarf nú skyndilega að gerast skemmtikraftar, telur niðurlæginguna eflaust óþægilegan en óumflýjanlegan hluta af starfinu. En þarf svo að vera?
Sirkusapar
Það er ekki eina niðurlæging rithöfunda, sem vilja selja bækur, að þurfa að leika kúnstir eins og sirkusapar séu þeir svo lánsamir að fá boð í útvarpsviðtal.
Í aðdraganda jóla fá fyrirtæki og félagasamtök rithöfunda gjarnan til að mæta á skemmtanir sínar og lesa upp úr bókum. Nýverið biðlaði formaður Rithöfundasambands Íslands, Margrét Tryggvadóttir, til rithöfunda um að láta ekki undan pressu um að taka að sér slík skemmtiatriði ókeypis. „Alltof oft er ýmsu kostað til fyrir viðburðinn en samt finnast ekki peningar til að greiða höfundinum,“ sagði Margrét. Hún bað höfunda um að „standa saman og hafna slíkum beiðnum“.
Óttari Guðmundssyni fannst kosningabaráttan leiðinleg. Undirrituð vill hins vegar biðla til stjórnmálafólks um að „standa saman“ gegn ofríki hressileikans og hafna því að gerast ókeypis skemmtikraftar fyrir landsmenn. Svo yfirdrifið kátt fólk eins og sást í kosningabaráttunni á hvergi heima annars staðar á opinberum vettvangi en í settinu hjá Gísla Marteini á föstudagskvöldi.
Haldi fram sem horfir verða næstu kosningar háðar í raunveruleikasjónvarpsþættinum „Ísland got talent“ þar sem atkvæði verða greidd með símakosningu: Veldu 1 fyrir Ingu Sæland í karókí; 2 fyrir Bjarna Ben að baka; 3 fyrir Sigmund Davíð að teikna yfirvaraskegg á ljósmyndir af öðrum frambjóðendum.
„Haldi fram sem horfir verða næstu kosningar háðar í raunveruleikasjónvarpsþættinum „Ísland got talent“
Það hefur aldrei neitt gott hlotist af því að borða marineraðan puttamat á almannafæri.
(Ekki alveg viss hvort þetta sé orðrétt tilvísun, en þið fatið meininguna)