Þéttum fundardegi lauk síðdegis hjá formönnum Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Þær Kristrún Frostadóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Inga Sæland funduðu á stað sem ekki var gefinn upp, en fundurinn stóð, með stuttum hléum inn á milli, frá hálf níu í morgun og til um klukkan fjögur.
„Þetta hefur bara gengið mjög vel. Við förum þétt af stað og erum ánægðar eftir daginn,“ segir Kristrún í samtali við Heimildina.
Eftir stuttan fund þeirra í þinghúsinu í gær kom fram að þær væru allar sammála um að fækka ráðuneytum. „Það skiptir máli að senda skýr skilaboð um að það þarf að taka víða til og það er full ástæða til þess að passa upp á þetta lag stjórnsýslunnar. Við viljum auðvitað gera það með þeim hætti að það bitni ekki á grunnþjónustu,“ segir hún.
Í dag hafi þær fyrst og fremst tekið fyrir stóru línurnar og unnið eftir málefnalegum flötum. „Það þarf að vinna þetta nánar eftir því sem dagarnir líða og þá getum við fengið fleiri aðila til að koma að þeirri vinnu. Við erum að byrja á stórum málaflokkum eins og heilbrigðismálum og húsnæðismálum, við ræddum til að mynda stöðu eldra fólks og atvinnuppbyggingu og fleira. Við erum að feta okkur gegnum þessar stóru línur og þetta hefur bara gengið mjög vel,“ sgeir Kristrún.
Hefur eitthvað komið upp í viðræðunum sem blasir við að sé sérstakur ágreiningur um?
„Við fórum þá leið að byrja út frá sameiginlegum flötum og nálgast þessar viðræður með þeim hætti vegna þess að við vitum að það er auðvitað sem skiptir mestu máli, að finna rauðan þráð og sameiginlega taug. En það eru ekki mörg ágreiningsmál sem hafa komið upp, og miklu fleira af sameiginlegum þráðum sem við höfum fundið í þessum viðræðum. Þannig að við erum fyrst og fremst núna að einbeita okkur að því að koma okkur saman um þá málaflokka,“ segir hún.
Næstu daga stefni þær á að funda þétt og ætla að hittast aftur í fyrramálið í þinghúsinu. Þar munu þær hitta fulltrúa úr stjórnsýslunni, meðal annars fulltrúa frá fjármálaráðuneytinu til að fara yfir stöðuna í ríkisfjármálunum.
„Við erum allar mjög meðvitaðar um að allt sem verður gert núna á fyrstu mánuðum, og auðvitað náttúrlega út kjörtímabilið, þarf að stuðla að áframhaldandi lækkun vaxta og verðbólgu þannig að við viljum fara inn í alla málaflokkana með þennan ramma alveg á hreinu,“ segir Kristrún.
Nú eruð þið auðvitað bara á fyrstu metrum viðræðna en geturðu sagt til um hvort þú teljir raunhæft að þið náið að ljúka þessu þannig að þið náið að mynda ríkisstjórn?
„Þetta hefur bara gengið mjög vel og auðvitað fer maður ekki út í svona viðræður nema maður ætli sér að klára þær. En við þurfum auðvitað bara að gefa þessu nokkra daga til þess að átta okkur á stöðunni. Við erum allavegana bara frekar bjartsýn á þessum tímapunkti,“ segir hún.
Athugasemdir