Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, virðist ekki hafa mikinn áhuga á samstarfi með Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum miðað við svör hennar í kappræðum Heimildarinnar sem fram fóru í Tjarnarbíói á þriðjudagskvöldi.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar sagðist þá merkja stjórnarmyndunarteikn á lofti milli Sjálfstæðisflokks, Miðflokksins og Flokks fólksins. Sagði hún þá Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, hafa talað með þeim hætti í hlaðvörpum hér á landi.
„Það sem er að teiknast upp hér, það sem við erum að sjá hér,“ sagði Þorgerður Katrín og greip þá Inga Sæland fram í fyrir henni og sagði skýrt og skilmerkilega:
„Gleymdu hugmyndinni!“
„Það er þeirra draumaríkisstjórn,“ sagði Þorgerður Katrín og Inga endurtók fyrri ummæli aftur.
„Jæja, þú verður þá að tala við þá því þeir eru í einhverju brómansi [Bromance þýðir bróðurleg ást] í einhverjum hlaðvörpum núna,“ sagði Þorgerður og uppskar hlátrrasköll úr sal.
Sjón er þó sögu ríkari og má sjá orðaskiptin hér fyrir neðan.
Athugasemdir (1)