Ég heiti Vera. Í æsku fannst mér það hvimleitt því það var hægt að uppnefna mig og það gerðist ósjaldan. Í dag vil ég vera Vera. Ég er í raun stöðugt að vinna að því að verða Vera. Talið er að nafnið Vera eigi rætur í latínu, þar sem það tengist orðinu „veritas“, sem þýðir sannleikur. Aðrir vilja meina að nafnið sé slavneskt og merki trú. Báðar merkingarnar eru fallegar í mínum huga: sannleikur og trú.
Það hefur tekið mig tíma að finna sjálfa mig og leitin stendur enn yfir. Með því að vinna að því að verða ég sjálf, hef ég lært óteljandi hluti. En það sem skiptir mig mestu máli í dag er að vera sönn og trú – sönn við sjálfa mig og trú sjálfri mér. Það er þar sem ég finn innri frið og geri það sem er best fyrir mig.
„Í dag vil ég vera Vera“
Þegar ég hugsa til baka, hef ég oft leiðst til að gera það sem öðrum fannst skynsamlegt að ég gerði en ekki var gott fyrir mig. Ég hef stundum tekið ákvarðanir sem voru í þágu annarra, frekar en sjálfrar mín. Ég hef umgengist fólk sem hefur ekki verið hollt fyrir mig að vera í samskiptum við. Ég hef samþykkt að gera hluti sem ég vildi ekki gera. Ég hef oft svikið sjálfa mig í þeirri von að laga aðstæður fyrir aðra. Allt á eigin kostnað og oftast ósjálfrátt.
Að gefa of mikið af sér og missa þar með tengingu við sjálfið getur haft alvarlegar afleiðingar. Það hefur tekið mig langan tíma að átta mig á því. Ég hef líka staðið í vegi fyrir mínum eigin þroska með því að reyna að uppfylla kröfur annarra. Ég hef komist að því að með því að hlusta á hjarta mitt og innsæi er ég á réttri leið. Það er ekki endilega það sama og samfélagið segir mér, og ekki heldur það sem aðrir segja mér. Ég þurfti að læra að hlusta á sjálfa mig – og það reyndist vera hægara sagt en gert. Ég hafði mikið fyrir því að laga þessa skekkju og að setja upp réttu gleraugun þegar kemur að því að taka ákvarðanir um eigið líf – og ég er enn að læra.
Þegar ég útskrifaðist úr menntaskóla hafði ég óljósa hugmynd um hvað mig langaði að gera við líf mitt. Ég vissi þó að ég vildi mennta mig erlendis, en hafði ekki hugmynd um hvað ég ætti að læra. Ég ákvað því að taka einhvers konar amerískt áhugasviðspróf sem okkur stúdentunum var boðið að taka að loknu námi. Þetta var á fyrstu árum netsins, þannig að útkoman úr þessu ítarlega og flókna ameríska prófi, sem kostaði mig bæði fjámuni og tíma, komu seint og síðar meir í bréfpósti.
Þegar niðurstaðan kom var hún afar óskýr. Það reyndist ógerlegt að lesa úr mínu prófi. Í besta falli ætti ég að verða „paralegal“. Ég fletti upp þessu fína orði sem þýddi að mér ætti að henta að verða aðstoðarmaður lögfræðings! Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að verða aðstoðarmaður lögfræðings þegar ég hafði áhuga á ýmsu öðru? Og hvers vegna ætti ég ekki bara að gerast lögfræðingur? Niðurstaða sérfræðingsins sem las úr prófinu var að áhugasvið mitt væri einfaldlega of vítt. Það var í raun ekkert sem passaði almennilega við mig. Annaðhvort var fína ameríska prófið gallað, eða ég. Það læddist að mér sá grunur að hið síðarnefnda væri rétt enda skorti mig sjálfstraust og fannst ég oft ekki tilheyra eða passa inn í hlutverkið. En þarna ákvað ég að standa með sjálfri mér og henti prófinu beinustu leið í ruslið. Sú ákvörðun varð byrjunin á því að fylgja eigin leiðum.
„Annaðhvort var fína ameríska prófið gallað, eða ég
Ég hef blessunarlega alltaf átt góða að. Stjúpfaðir minn heitinn lagði mikla áherslu á að ég ætti alltaf að gera eitthvað – og það hefur reynst mér mjög vel. „Ef þú gerir ekkert, þá gerist ekkert.“ Það er einfalt, en dýrmætt ráð.
Ég valdi að hlusta á innsæi mitt. Skítt með alla praktík og lögfræðiráðleggingar! Ég fór í listnám, sem leiddi mig í kvikmyndagerð – fag sem hentar mér vel, þar sem áhugasvið mitt er mjög vítt. Í kvikmyndagerð mætast allar listgreinar. Í þeirri listgrein breyttist það sem áður var túlkað sem „galli“ í fari mínu – áhugasvið sem var of vítt – í styrk. Ég hef alltaf haft breitt áhugasvið, og ég veit að það er eitthvað sem gerir mig sérstaka. Starfsheiti mitt á það til að breytast vikulega. Stundum er ég kennari, stundum dagskrárgerðarmaður, leikstjóri, framleiðandi, handritshöfundur eða jafnvel tónlistarmaður. Ég get verið allt þetta, því ég er heppin. Ég hef alltaf fengist við skemmtilega hluti þegar ég hef hlustað á innsæið, verið sönn og trú sjálfri mér.
En það hefur ekki alltaf verið auðvelt. Ég hef oft villst af leið. Ég hef tekið að mér verkefni sem ég hefði betur sagt nei við, en það gerist einungis ef ég hætti að hlusta á sjálfa mig. Ég hef verið í samböndum sem hentuðu mér ekki, og ég hef reynt að passa inn í aðstæður á röngum forsendum. Það er erfitt og það getur verið sárt að komast að því eftir á að man fórnaði sjálfri sér til að reyna að láta allt ganga upp. En það sem eftir situr er reynslan og lærdómurinn sem draga má af slíku og það besta er að þetta gerist sjaldnar eftir því sem ég kemst nær kjarnanum. Það krefst þess að vera vakandi og í sífelldri sjálfsskoðun.
En ég er ekki ein. Í dag á ég fáa og góða vini sem kunna að meta mig eins og ég er og á þá er hægt að treysta. Ég er heppin með fjölskyldu sem styður mig. Ég er einnig í 12 spora samtökum og hef fengið ómetanlega hjálp frá yndislegum sálfræðingi. Það hefur kostað mig peninga, en ég hef engan veginn efni á að hætta að fara til hennar. Ég er alltaf að læra, alltaf að fletta fleiri lögum af sjálfri mér. Það er erfitt, það getur verið sárt, en það er líka spennandi og gefandi. Ég hef lært að það sem skiptir máli fyrir mig er að vera sönn og trú.
Mamma hefur örugglega hlustað á innsæið þegar hún gaf mér þetta fallega nafn. Takk, mamma mín, ég ætla að reyna mitt besta til að bera það í hjartanu, og bera það til minna dætra. Því það er það sem öllu máli skiptir. Að vera Vera.
Athugasemdir