Samfylkingin segir mikilvægt að vindorkukostir verði á hendi opinberra fyrirtækja í eigu almennings, á meðan ekki hefur verið mótuð stefna og lagarammi um nýtinguna. Þá vill flokkurinn að meginhluti raforkuframleiðslu á Íslandi verði áfram á hendi ríkis og sveitarfélaga og að vindorkuver verði byggð í grennd við vatnsaflsvirkjanir.
Viðreisn styður nýtingu vindorku og að hæf orkufyrirtæki, í opinberri eða einkaeigu, fái að reisa vindorkuver. Tryggja þurfi sanngjörn auðlindagjöld af nýtingu vindorku og að gjaldtakan renni að hluta til nærsamfélagsins.
Sósíalistaflokki Íslands þykja þau stórfelldu vindmylluáform sem nú eru í kortunum fara langt fram úr allri skynsemi. Flokkurinn vill leyfa náttúru landsins og almenningi að njóta vafans á meðan enn hafi ekki verið fundin lausn á því hvernig nýta megi vindorku á þann máta að ekki þurfi að koma til náttúruspjöll og yfirgangur stórfyrirtækja.
Framsóknarflokkurinn vill að farið verði hægt í uppbyggingu vindorkuvera og að lögð verði áhersla á vönduð skref á afar afmörkuðum stöðum. Áhrif vindorkuvera á náttúruna séu töluvert frábrugðin þeim áhrifum annarra virkjana. Því sé það mikilvægt náttúruverndarmál að uppbygging slíkra orkuvera fari fram af varfærni.
Píratar tala sömuleiðis fyrir varfærnum skrefum þannig að nýir orkukostir séu ekki þróaðir á kostnað umhverfis og náttúru. Þá segist flokkurinn hafa efasemdir um þær forsendur sem liggja fyrir í áætlunum um að byggja upp vindorkuver hér á landi eins og staðan sé núna.
Vinstri græn telja að rannsaka þurfi nánar afleiðingar orkuöflunar með vindi og kynna fyrir almenningi áður en teknar verði óafturkræfar ákvarðanir. Þá hugnast flokknum ekki að erlendir aðilar fái að nýta vind til raforkuframleiðslu í hagnaðarskyni.
Sjálfstæðisflokkurinn styður hvers konar græna orkuöflun, hvort sem það er virkjun fallvatna, jarðhita, vinds, birtu, sjávarfalla eða annað svo lengi sem gætt sé jafnvægis milli nýtingar og verndar náttúrunnar. Flokkurinn styður að æskilegt sé að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum.
Flokkur fólksins vill helst engin vindorkuver og að tryggt verði að erlendir fjárfestar geti aldrei eignast orkuna okkar.
Heimildin spurði flokka sem bjóða fram til Alþingis um stefnu þeirra í vindorkumálum. Spurt var:
Á að byggja vindorkuver á Íslandi?
Ef já, hvar á að byggja þau og hver á að byggja þau?
Ef nei, af hverju ekki?
Telur flokkurinn að setja þurfi stefnu um í hvað orkan eigi að fara?
Hér að neðan fara svör hvers flokks fyrir sig. Miðflokkurinn skilaði ekki svörum.
Flokkur fólksins
Á að byggja vindorkuver á Íslandi?
Nei.
„Við viljum fyrst og fremst tryggja orku til heimilanna“
Það er hins vegar þegar búið að gefa leyfi fyrir byggingu eins vindorkuvers á Íslandi, Búrfellslundi. Flokkur fólksins vill fá 100 prósent reynslu á það orkuver, ef og þegar af því verður, áður en farið verður að líta lengra. Þá vill flokkurinn tryggja að erlendir fjárfestar geti aldrei komið hingað og eignast orkuna okkar.
Flokkur fólksins vill fyrst og fremst tryggja orku til heimilanna.
Framsóknarflokkurinn
Á að byggja vindorkuver á Íslandi?
Vindorka er ný auðlind sem Ísland getur nýtt bæði á hafi og landi. Um þessar mundir eru tugir vindorkuvera af ýmsum stærðum og gerðum í undirbúningi, og fjöldi þeirra gæti aukist verulega víðs vegar um landið samkvæmt núverandi regluverki. Eins og staðan er þá er er svo mikill fjöldi vindorkuvera til skoðunar í kerfinu og er samanlagt uppsett afl þeirra meira en núverandi stærð íslenska orkukerfisins.
„Það er mikilvægt að ábati af vindorkunýtingu sé skýr og skili sér beint til samfélagsins, í samræmi við stefnu okkar um sjálfbæra nýtingu auðlinda“
Framsókn vill snúa frá þeirri þróun og að farið verði hægar í uppbyggingu vindorku og að lögð verði áhersla á vönduð skref á afar afmörkuðum stöðum. Með þessu viljum við draga úr ágreiningi, tryggja vernd náttúrunnar og hámarka hagkvæmni verkefna í samræmi við markmið stjórnvalda. Nú þegar hafa tvö vindorkuver verið samþykkt – Búrfellslundur og Blöndulundur – og mikilvæg lærdómsrík reynsla mun fást af þessum verkefnum sem hægt er að byggja á við frekari uppbyggingu. Þessi reynsla getur verið grunnur að frekari þróun, í anda þess sem gert var í fyrri uppbyggingu raforkukerfisins, sem gert var í skrefum og þekking efldist um leið. Mögulega er einnig hægt að meta fá hagkvæm verkefni til viðbótar sem hafa lágmarksáhrif á umhverfið en stuðla að auknu orkuöryggi á mismunandi svæðum landsins. Það er mikilvægt að ábati af vindorkunýtingu sé skýr og skili sér beint til samfélagsins, í samræmi við stefnu okkar um sjálfbæra nýtingu auðlinda.
Auk þess er mikil þörf á heildstæðu regluverki fyrir vindorku á hafi. Þar þarf að móta framtíðarsýn og skilgreina möguleg hafsvæði fyrir útboð og nýtingu, í stað þess að bregðast einungis við einstaka beiðnum frá einkaaðilum sem þegar hafa lýst yfir áhuga á nýtingu hafsvæða. Vindorkuver hafa áhrif á náttúruna sem eru töluvert frábrugðin þeim áhrifum sem vatnsafl og jarðhiti hafa. Því er það mikilvægt náttúruverndarmál að uppbygging vindorkuvera fari fram af varfærni og með vandaðri útfærslu til að tryggja að þessi nýja auðlind verði nýtt á sjálfbæran og ábyrgan hátt í þágu samfélagsins.
Ef já, hvar á að byggja þau og hver á að byggja þau?
Framsókn telur mikilvægt að uppbygging vindorku á Íslandi fari fram með yfirveguðum og varfærnum hætti, þar sem tekið er eitt skref í einu og svæðin afmörkuð vandlega. Upphafsskrefin ætti að miða við þau verkefni sem þegar hafa verið samþykkt í rammaáætlun. Framsókn telur að opinbert eignarhald sé almennt fýsilegri leið í þessum efnum þar sem slíkt eignarhald tryggir að ábati verkefna renni til samfélagsins. Mikilvægt er að bæði nærsamfélagið og ríkið njóti góðs af nýtingu þessarar auðlindar, enda styður slíkt við langtíma markmið um sjálfbæra þróun og aukið orkuöryggi.
Telur flokkurinn að setja þurfi stefnu um í hvað orkan eigi að fara?
Framsókn leggur mikla áherslu á að skýr stefna verði mótuð um nýtingu orkuauðlinda, þar sem markmiðið er að orkan verði fyrst og fremst nýtt til að mæta innlendri orkuþörf. Það er forgangsmál að styðja orkuskipti innanlands og skapa fjölbreyttari atvinnustarfsemi um allt land sem skilar samfélagslegum ávinningi. Með þessu tryggjum við að orkan stuðli að sjálfbærum hagvexti og lífsgæðum fyrir landsmenn, ásamt því að styrkja innviði sem stuðla að aukinni sjálfbærni og orkuöryggi á Íslandi. Í allri vinnu skal gæta að lágmarka umhverfisáhrif og hlú að náttúru landsins sem einnig er verðmæt auðlind.
Píratar
Á að byggja vindorkuver á Íslandi?
Píratar hafa sett spurningarmerki við þann mikla þrýsting sem ríkisstjórnin hefur sett á aukna orkuvinnslu, sem virðist oft notaður til að breiða yfir það aðgerðaleysi sem ríkt hefur í loftslagsmálum á kjörtímabilinu. Við tölum fyrir varfærnum skrefum þannig að nýir orkukostir séu ekki þróaðir á kostnað umhverfis og náttúru. Það hefur verið kostulegt að fylgjast með umræðu um orkumál á undanförnum árum, þar sem ríkisstjórnin hefur verið leiðandi í áróðri um meintan orkuskort í landi sem framleiðir meiri raforku miðað við höfðatölu en nokkurt annað ríki. Á sama tíma hefur skort regluverk til að tryggja að ný orka fari í orkuskipti og standa vörð um stöðu almennings á raforkumarkaði.
„Þarna er um að ræða fjárfesta með stórar hugmyndir um vindorkuver sem tengjast síðan enn stærri hugmyndum um rafeldsneytisframleiðslu til útflutnings“
Áður en orkuskipti eru notuð sem réttlæting fyrir nýrri orkuvinnslu þarf að gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, sem ríkisstjórnin hefur ekki gert. Þá þarf raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar, þar sem meðal annars er horft til þess að draga úr vægi stóriðjunnar sem í dag notar bróðurhluta þeirrar raforku sem er framleidd. Ef niðurstaðan af þessu verður að auka þurfi orkuframleiðslu þá þarf að gæta þess við þróun vindorku að settur sé skýr lagarammi þar sem tryggt sé að saman fari hagsmunir almennings, náttúru og nærsamfélags.
Ef nei, af hverju ekki?
Píratar hafa efasemdir um þær forsendur sem liggja fyrir í áætlunum um að byggja upp vindorkuver hér á landi eins og staðan er núna. Vindorkan hefur farið fram á öðrum forsendum en orkuvinnsla fyrri tíma, þar sem einkaaðilar eru drifkrafturinn í framkvæmdum. Þarna er um að ræða fjárfesta með stórar hugmyndir um vindorkuver sem tengjast síðan enn stærri hugmyndum um rafeldsneytisframleiðslu til útflutnings. Þær áætlanir virðast hins vegar almennt gera ráð fyrir því að hið opinbera sé í raun bakhjarl, hvort sem er með því að Landsvirkjun sé skikkuð til að tryggja jöfnunarafl, eins og lagt er til í stjórnarfrumvarpi um vindorkuna, eða með því að byggðir séu upp innviðir sem eru nauðsynlegir til að koma verkefnunum á koppinn, eins og með því að styrkja þjóðvegi til að bera gríðarstóra flutningabíla á framkvæmdatíma eða flutningskerfi til að hægt sé að koma orkunni á kerfið.
Ef já, hvar á að byggja þau og hver á að byggja þau?
Píratar vilja tryggja varúðarsjónarmið svo nýir orkukostir séu ekki þróaðir á kostnað umhverfis og náttúru. Vindorka krefst þess að settur sé skýr lagarammi þar sem tryggt sé að saman fari hagsmunir almennings, náttúru og nærsamfélags.
Telur flokkurinn að setja þurfi stefnu um í hvað orkan eigi að fara?
Pírötum þykir mikilvægt að gera raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar, þar sem meðal annars er horft til að draga úr vægi mengandi stóriðju í raforkukerfinu. Það þarf að tryggja að orkuvinnsla gangi til orkuskipta og að orka sé nýtt til uppbyggingar grænnar nýsköpunar – en frumforsenda fyrir slíkri forgangsröðun er að setja skýra stefnu um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Við viljum standa með almenningi og smærri notendum þannig að þeim sé tryggt aðgengi að áreiðanlegri endurnýjanlegri orku á viðráðanlegu verði og að fólk sitji við sama borð hvar sem er á landinu.
Samfylkingin
Á að byggja vindorkuver á Íslandi?
Sjónarmið náttúruverndar og kröfur um aðra landnýtingu en til hefðbundinnar orkuvinnslu gera að verkum að eðlilegt er horfa til nýrra orkugjafa við mótun stefnu um orkuöflun næstu áratugi. Þar er um að ræða vindorku, sólarorku og sjávarfallaorku. Samfylkingin er reiðubúin til samstarfs um nýtingu allra þessara orkugjafa, að því gefnu að starfsemin lúti reglum um umgengni við náttúru, skipulag og framlag auðlindarentu til þjóðarinnar. Sólar- og sjávarorka eru spennandi orkukostir sem nú þegar þarf að kanna hvort og hvernig henta hérlendis. Vindorka er á hinn bóginn þegar orðinn raunhæfur kostur sem þarf að leggja grunn að með lagasetningu og skipulagsvinnu.
„Það er réttlætismál að orkufyrirtæki greiði fyrir aðgang að auðlindum og að hluti af tekjum renni til nærsamfélags“
Ef já, hvar á að byggja þau og hver á að byggja þau?
Hvers kyns ákvarðanir um orkuvinnslu, þar með talið hvar byggja eigi vindorkuver, eiga að byggjast á heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja og til hagkvæmni ólíkra nýtingarkosta með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Með rammaáætlun, sem lögfest var í stjórnartíð Samfylkingarinnar, voru skapaðar leikreglur um þetta. Þau lög og annað regluverk þarf að bæta með langtímasjónarmið og rétt komandi kynslóða í huga.
Samfylkingin tók þátt í afgreiðslu 3. áfanga rammaáætlunar vorið 2022 á Alþingi. Flokkurinn studdi tvo vindorkukosti í þeirri áætlun, við Búrfell og Blöndu. Forsendur þess voru þrenns konar. Í fyrsta lagi er mikilvægt að vindorkukostir séu á hendi opinberra fyrirtækja í eigu almennings, á meðan ekki hefur verið mótuð stefna og lagarammi um nýtingu vindorku, í þessu tilviki Landsvirkjunar, þannig að þróun verkefnanna sé á hendi stærstu og reynslumestu fyrirtækjanna. Í öðru lagi er mjög mikilvægt að við þróun nýtingar vindorku sé hugað að því að vindorkuver séu staðsett nálægt vatnsaflsvirkjunum. Þannig nýtist orkan langbest og mestar líkur til þess að vindorkuver sé sett niður þar sem þegar hefur verið framkvæmt vegna virkjana, þ.e. ekki á óröskuðu landi. Í þriðja lagi þá styður Samfylkingin eindregið að allir orkukostir hér á landi fari til faglegrar skoðunar og röðunar á vettvangi rammaáætlunar. Samfylkingin vill að meginhluti raforkuframleiðslu á Íslandi verði áfram á hendi ríkis og sveitarfélaga og leggst gegn hvers kyns hugmyndum um einkavæðingu eða uppskiptingu Landsvirkjunar.
Telur flokkurinn að setja þurfi stefnu um í hvað orkan eigi að fara?
Já, Samfylkingin telur nauðsynlegt að setja í lög ákvæði um að almenningur og almenn fyrirtæki hafi aðgang að forgangsorku frá orkuveitum. Einnig er eðlilegt að sett verði þak á arðsemi raforkusölu til heimila, á sama hátt og um sölu heits og kalds vatns. Það er réttlætismál að orkufyrirtæki greiði fyrir aðgang að auðlindum og að hluti af tekjum renni til nærsamfélags vegna staðbundinna áhrifa af nýtingunni, óháð eignarhaldi og hvort sem orkuvinnslan nýtir vatnsafl, jarðvarma, vind eða aðra orkugjafa.
Sjálfstæðisflokkurinn
Á að byggja vindorkuver á Íslandi?
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að Ísland stefni að fullum orkuskiptum og orkusjálfstæði. Það verður aðeins gert með því að hætta notkun innflutts jarðefnaeldsneytis og nýta í staðinn innlenda græna orku sem unnin er með sjálfbærum og ábyrgum hætti. Tryggja þarf að þau orkuskipti dragi ekki úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og að lágt orkuverð til heimila verði áfram tryggt.
„Sjálfstæðisflokkurinn styður atvinnufrelsi og dæmir því ekki um hverjir mega eða mega ekki byggja upp virkjunarkosti á Íslandi“
Hlutverk stjórnvalda er að skapa það umhverfi að hægt sé að ná settum markmiðum m.a. varðandi orkuskipti. Í því samhengi er ljóst að afla þarf grænnar orku svo hægt sé að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir græna orkugjafa. Sjálfstæðisflokkurinn styður hvers konar græna orkuöflun, hvort sem það er virkjun fallvatna, jarðhita, vinds, birtu, sjávarfalla eða annað svo lengi sem gætt er að jafnvægis milli nýtingar og verndar náttúrunnar.
Ef já, hvar á að byggja þau og hver á að byggja þau?
Rammaáætlun er það fyrirkomulag sem notað er til að ákveða hvar má byggja orkuver og á það einnig við um vindorku. Það fyrirkomulag er í endurskoðun og niðurstaða þeirrar vinnu er væntanleg. Ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um stefnu um uppbyggingu vindorku á Íslandi sem og lagafrumvarp þar sem settar eru fram meginforsendur uppbyggingar virkjunarkosta í vindorku. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að virkjanakostir sem uppfylla skilyrði þingsályktunartillögunnar geti farið í flýtimeðferð en þó þannig að sveitarfélög ákveði hvort viðkomandi kostur verði samþykktur.
Í þingsályktunartillögunni er lagt til að uppbygging vindorkukosta verði óheimil á friðlýstum svæðum á A-hluta náttúruminjaskrár, svæðum á B-hluta náttúruminjaskrár, svæðum innan marka friðhelgunar menningarminja, á svæðum á heimsminjaskrá UNESCO, Ramsar-svæðum, á viðkvæmum fuglasvæðum og svæðum innan marka miðhálendislínu. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkti að tillagan gengi með þessum hætti til Alþingis.
Sjálfstæðisflokkurinn styður að æskilegt sé að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verði að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif.
Sjálfstæðisflokkurinn styður atvinnufrelsi og dæmir því ekki um hverjir mega eða mega ekki byggja upp virkjunarkosti á Íslandi enda vandséð hvernig það samrýmist stjórnarskrá lýðveldisins að banna einhverjum að taka þátt í virkjunarframkvæmdum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki í hyggju að selja Landsvirkjun hvorki að hluta né að fullu.
Telur flokkurinn að setja þurfi stefnu um í hvað orkan eigi að fara?
Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að ríkið setji skýra eigendastefnu gagnvart orkufyrirtækjum og raforkuflutningsfyrirtækjum í eigu ríkisins sem tryggi m.a. að þau styðji stjórnvöld í að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum. Stjórnvöld þurfa að skilgreina ábyrgð á því að tryggja fullnægjandi framboð raforku til heimila og annarra almennra notenda og tryggja jafnframt orkuöryggi landsins. Jafnframt er hagsmunum Íslands best borgið með því að byggja upp grænt atvinnulíf í tengslum við orkuskipti hér á landi og tengjast ekki raforkukerfi annarra ríkja. Sjálfstæðisflokkurinn stendur heilshugar á bak við hugmyndir um atvinnuuppbyggingu innanlands á grunni hagkvæmrar nýtingar orkuauðlinda.
Sósíalistaflokkur Íslands
Vindmyllur eru hluti af tæknilausnum til orkuöflunar í heimsbyggðinni til að losna undan ofurvaldi jarðefnaeldsneyta. Sósíalistar eru umhverfissinnar og eru sem slíkir jákvæðir gagnvart öllum lausnum sem leiða til lækkunar losunar koltvísýrings út í andrúmsloftið. Sósíalistar gera hins vegar kröfu um að allar slíkar framkvæmdir á Íslandi séu á vegum Landsvirkjunar og í eigu almennings og að Landsvirkjun leitist eftir því að virða vilja almennings. Þau stórfelldu vindmyllu-áform sem nú eru í kortunum fara langt fram úr allri skynsemi og taka ekkert mið af langtímaáhrifum á samfélag og náttúru. Vindmyllur geta í fyrstu virst vera góð lausn til orkuöflunar, umhverfisvæn lausn í átt að minnkandi neyslu til að uppfylla loftslagsmarkmið og samninga. En hættan er að framkvæmdin feli í sér óafturkræft inngrip í náttúru landsins.
„Við megum ekki afsala okkur ábyrgð á náttúrunni í hendur auðhringja og verðum að vera upplýst um óafturkræf áhrif á náttúru okkar“
Undirbúningur orkuskipta hefur því miður verið helst til ólýðræðislegur og ógagnsær þar sem hagsmunaaðilar hafa frítt spil en ekki nógsamlega hlustað á íbúa umræddra svæða og sérfræðinga sem hafa athugað aðgerðirnar í samhengi. Spurningar hafa vaknað um óeðlilega íhlutun einkafyrirtækja í viðkvæm byggða- og vistkerfi. Sósíalistaflokkurinn krefst þess að slíkir virkjanakostir séu ræddir og rannsakaðir frá öllum sjónarhornum áður en tekin er ákvörðun um framkvæmdina, sérstaklega þegar rík andstaða íbúa á svæðunum er fyrir hendi. Sú andstaða er í sjálfu sér ástæða til að efast um virkjanakostinn. Afar ólíklegt er að sú gríðarlega orkuþörf sem verið er að mæta sé til staðar og yfirgengileg áform um vindorkuver um allt land séu réttlætanleg.
Sósíalistaflokkurinn vill leyfa náttúru landsins og almenningi á Íslandi að njóta vafans á meðan enn er ekki fundin lausn á því hvernig nýta megi vindorku á þann máta að ekki þurfi að koma til náttúruspjöll og yfirgangur stórfyrirtækja sem áforma stórfellda vindmyllugarða, stundum í takt við sveitastjórnir en yfirleitt – í trássi við nærsamfélögin, reynsluþekkingu og staðreyndir byggðar á vísindalegum prófunum sem lúta að líffræðilegum fjölbreytileika og samtengingu loftslagssjónarmiða, dýra- og náttúruverndar. Öll orkuvirkjunaruppbygging þarf öllu heldur að undirgangast ströng skilyrði um raunverulega sjálfbæra þróun, þ.e. hvort tiltekinn virkjanakostur stuðli frekar að eða hamli grósku samfélaganna með almannahag að leiðarljósi, bæði félagslega og efnahagslega, og sé liður í vernd náttúrunnar þar sem hringrásir hennar séu virtar í ljósi raunverulegs endurnýjanleika.
Við megum ekki afsala okkur ábyrgð á náttúrunni í hendur auðhringja og verðum að vera upplýst um óafturkræf áhrif á náttúru okkar og samfélög á landsbyggðinni og um allt land, og einnig um hugsanlega samtryggingu hagsmunaaðila þar sem almenningur er yfirleitt úr myndinni. Náttúruauðlindir skulu samkvæmt Sósíalistaflokknum vera í almannaeigu og ábyrgðinni gagnvart samfélaginu og náttúrunni má aldrei afsala eða útvista fyrir skammtímasjónarmið gróða og orkustefnu sem slítur úr sambandi einstök loftslagsmarkmið og heildarmynd náttúruverndar og almannaheilla. Vindmylluáform stórfyrirtækja, erlendra og/eða innlendra einkafyrirtækja og hlutafélaga í þeim stórfelldu áformum sem liggja nú fyrir geta því ekki samrýmst stefnu Sósíalistaflokks Íslands.
Vindorkuver hafa í för með sér gríðarlegt og oftast óafturkræft inngrip í náttúru landsins og raska einnig hagfræðilega ákjósanlegum jarðvegi fyrir lítil samfélög og blómlegt atvinnulíf almennings. Uppbygging vindmyllugarða hér á landi hefur hingað til í flestum tilfellum ef ekki öllum verið á forsendum stórfyrirtækja sem sjá sér leik á borði að ráðast í aðgerðir á svæðum sem þau telja ómerkileg og með litinn fórnarkostnað. Í tengslum við þau áform og íhlutanir hafa andmæli almennings og íbúa á svæðunum, fagfólks á sviði orkunýtingar, náttúruverndar og loftslagsmála ítrekað verið hunsuð. Sósíalistaflokkur Íslands getur ekki afgreitt öll vindorkuáform í eitt skipti fyrir öll, enda á sér stað ör þróun á sviði iðnaðarins sem vonandi verður að æ ákjósanlegri kostum, en krefst þess að tekið verði mið af nýjustu rannsóknum í geiranum og hlustað á raddir íbúa og almennings sem og raddir fagfólks sem tekur heildarsamhengi íhlutunar inn í myndina og leyfir almenningi og náttúru landsins að njóta vafans. Því þar sem orkuskortur er ekki aðkallandi eins og látið er að liggja í aðgerðaráætlun stjórnvalda þarf að ganga úr skugga um að heildarmynd uppbyggingarinnar hvað varðar eignarhald, ábyrgð og áhrif sé til staðar, skýr og opin fyrir áframhaldandi umræðu.
Viðreisn
„Hafa skal í huga að takmarka neikvæð áhrif á fuglalíf og nærsamfélög eins vel og unnt er þegar valið er hvar skal reisa vindorkuver“
Viðreisn styður nýtingu vindorku. Vindorkuver ætti að staðsetja utan þjóðgarða og beina uppbyggingu þeirra þangað þar sem viðeigandi innviðir eru til staðar (t.d. sterkt flutningskerfi og aðgengi að sveigjanlegri raforkuvinnslu). Hafa skal í huga að takmarka neikvæð áhrif á fuglalíf og nærsamfélög eins vel og unnt er þegar valið er hvar skal reisa vindorkuver. Hæf orkufyrirtæki, í opinberri eða einkaeigu, eiga að fá að reisa vindorkuver og tryggja þarf sanngjörn auðlindagjöld af nýtingu vindorku og tryggja að gjaldtakan renni að hluta til nærsamfélagsins. Viðreisn styður að mótuð verði atvinnu- og iðnaðarstefna fyrir Ísland þar sem stjórnvöld forgangsraða orku í þágu orkuskipta og grænnar atvinnuuppbyggingar auk þess að tryggja forgang heimila og minni fyrirtækja ef til orkuskorts kemur.
Vinstri hreyfingin – grænt framboð
Afleiðingar orkuöflunar með vindi þarf að rannsaka nánar á Íslandi og kynna fyrir almenningi áður en teknar eru óafturkræfar ákvarðanir. Gera skal ríka kröfu til þess að sýnt sé fram á hvort vindorkuver samræmist og falli að íslenskum aðstæðum, náttúru, lífríki, víðernum, samfélagi og orkuinnviðum.
„Ef vindorkuver verða að veruleika hérlendis þá eiga opinberir aðilar að sjá um uppbygginguna og á landi eiga þau aðeins heima á þegar röskuðum svæðum“
Að mati okkar í VG þarf að marka stefnu hið fyrsta um nýtingu vindorku á landi og hafi í íslenskri lögsögu og setja þarf skýrar reglur um innheimtu auðlindagjalds af vindorkuvirkjunum sem renna á til samfélagsins alls. Ef vindorkuver verða að veruleika hérlendis þá eiga opinberir aðilar að sjá um uppbygginguna og á landi eiga þau aðeins heima á þegar röskuðum svæðum með tengingu við orkuinnviði sem fyrir eru í almannaeigu. Skýrar reglur þurfa að gilda um vindorkuver t.d. um stærð þeirra, efni, lit og annað eftir því hver áhrif þeirra eru á umhverfið. Vindorkuver skulu falla undir rammaáætlun og lúta lögum og reglum um mat á umhverfisáhrifum. Útgefin leyfi þurfa að kveða á um ábyrgð á niðurrifi og förgun úrsérgenginna vindorkumannvirkja. Okkur í VG hugnast ekki að erlendir aðilar fái að nýta vind til raforkuframleiðslu í hagnaðarskyni.
Meta þarf orkuþörf landsins til framtíðar af vísindamönnum sem ekki hafa hagsmuna að gæta. Það mat getur þá vísað veginn um hvort þörf sé á því að byggja vindorkuver hérlendis. Við í VG viljum að orkuauðlindir landsins verði nýttar til að byggja upp kolefnishlutlaust samfélag. Eigi nýjar virkjanir að ná markmiðum Íslands um full orkuskipti fyrir árið 2040 verður að ríkja sátt um það hvernig og hvar orkunnar er aflað. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins og í sátt við samfélagið. Kalla þarf eftir afstöðu almennings og félagasamtaka m.t.t. náttúru- og umhverfisverndarsjónarmiða vegna þessa.
Athugasemdir