Bankarnir hafa brugðist við lækkandi verðbólgu og stýrivöxtum með því að hækka á móti verðtryggða vexti húsnæðislána og eru þeir nú hærri en þeir hafa verið síðasta áratuginn.
Eftir stýrivaxtalækkun Seðlabankans um 0,5 prósentustig tilkynnti Íslandsbanki í fyrradag að vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum yrðu lækkaðir um 0,1 til 0,5 prósentustig. Hins vegar var samhliða tilkynnt um að verðtryggðir vextir húsnæðislána yrðu hækkaðir um 0,2 til 0,3 prósentustig. Þessi hækkun verðtryggðra vaxta leggst ofan á þá stöðu að verðtryggðir húsnæðislánavextir voru þegar orðnir hærri en þeir hafa verið í rúman áratug.
Arion banki tilkynnti sömuleiðis í dag um hækkun vaxta á verðtryggðum lánum með breytilega vexti um 0,4 próesntustig upp í 5,04%. Sögulega séð eru þetta háir vextir. Árið 2012 voru sömu vextir til að mynda 3,75%.
Samkvæmt lögum er til mælikvarði sem gerir það kleift að bera saman lánaform með tilliti til þess hvað sé "hagstætt" og sá mælikvarði heitir "Árleg hlutfallstala kostnaðar" (ÁHK). Sá mælikvarði er hliðstæður þeim sem bankar nota til að meta raunverulega "innri ávöxtun" af útlánum sínum.
Ef þau lánakjör sem nú bjóðast eru borin saman á þessum mælikvarða kemur í ljós að bankarnir eru einfaldlega að stilla lánakjörum á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum saman þannig að bæði lánaformin gefi sambærilega "innri ávöxtun" (eða árlega hlutfallstölu kostnaðar).
Þetta þýðir að að hvorugt lánaformið er (núna) hagstæðara en hitt svo nokkru nemi sem skiptir máli. Valið stendur aðeins á milli þess að staðgreiða kostnaðinn í óverðtryggðum lánum eða fresta hluta hans með því að hafa lánið verðtryggt. Að fresta hluta kostnaðarins þýðir alltaf að þá þarf að greiða hann síðar með hærri fjárhæðum vegna áfallinna vaxta og verðbóta.
Það myndi hjálpa mikið við að stuðla að upplýstri umræðu um lánakjör á Íslandi ef þeir sem fjalla um þau myndu fyrst kynna sér merkingu hugtakanna "árleg hlutfallstala kostnaðar" (ÁHK) og "innri ávöxtun" (sem er nokkurn veginn það sama). Þá fyrst gætum við svo tekið almennilega og sæmilega upplýsta umræðu um kosti og galla hinna ólíku lánaforma.