Í júlí árið 2019 flutti einn af virtustu rithöfundum Breta, Howard Jacobson, pólitíska hugvekju í Breska ríkisútvarpinu. Hvatti hann til þess að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit, þar sem Bretar kusu að yfirgefa Evrópusambandið, yrði hunsuð. „Jú, jú, sigur er sigur,“ sagði Jacobson. En glópsku sagði hann rétt að leiðrétta og fullyrti að „það ylli lýðræðinu engum skaða“ þótt Brexit-liðar fengju ekki það sem þeir töldu sig eiga inni. „Sannur lýðræðissinni leitast við að vernda lýðræðið frá því sjálfu þegar ekkert mælir með því annað en meirihlutinn.“
Orð rithöfundarins sátu í mér. Sem innflytjandi í Bretlandi hafði niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verið mér áfall. Gat verið að það væri leið út úr hremmingunum? Helgaði tilgangurinn meðalið?
Einu og hálfu ári síðar blasti svarið við. Í janúar 2021, þegar Bandaríkjaþing kom saman til að staðfesta kosningasigur Joe Biden, neitaði fráfarandi forseti, Donald Trump, að viðurkenna ósigur. Stuðningsmenn hans réðust inn í þinghúsið í Washington í von um að hnekkja niðurstöðunni.
Rétt eins og Howard Jacobson taldi Trump sig vera að leiðrétta glópsku fjöldans til hagsbóta lýðræðinu. Þeir frjálslyndu lýðræðissinnar sem stuttu fyrr höfðu afneitað þjóðaratkvæðagreiðslunni um Brexit kölluðu athæfi Trumps hins vegar valdarán.
Þvert á það sem Howard Jacobson hélt fram er ekkert skaðlegra lýðræðinu en að láta undan þeirri freistingu að afneita niðurstöðu kosninga. Því það er ekki sigurvegari kosninga sem tryggir framgang lýðræðisins heldur sá sem tapar þeim.
En þótt þau sem bera skarðan hlut frá borði þurfi að lifa með niðurstöðunni þangað til kosið verður næst einskorðast lýðræðisleg skylda okkar ekki aðeins við kjörklefann.
Misheppnuð strategía
Í kjölfar nýafstaðinna forsetakosninga í Bandaríkjunum kallaði Liz Cheney, stuðningsmaður Kamölu Harris, eftir því að Bandaríkjamenn sættu sig við kosningaúrslitin hvort sem þeim „líkaði niðurstaðan eða ekki“. Hún brýndi jafnframt fyrir „almenningi, dómstólum, fjölmiðlafólki og embættismönnum“ að taka föstum tökum hlutverk sitt sem „verndarvirki lýðræðisins“.
Svo kann þó að vera að hinir „sönnu lýðræðissinnar“ skerði nú óafvitandi getu samfélagsins til að sinna því hlutverki.
„Ég fyrirlít það sem þú hefur að segja en ég léti lífið til að verja rétt þinn til að segja það.“ Ekki er langt síðan þessi hugmynd Voltaire um tjáningarfrelsið þótti augljós sannindi á Vesturlöndum. En það er af sem áður var.
Í síðasta mánuði var fyrirlestri fyrrverandi innanríkisráðherra Bretlands, Suellu Braverman, við Cambridge-háskóla aflýst vegna hótana nemenda sem mislíkuðu stjórnmálaskoðanir hennar.
Braverman er langt frá því að vera sú eina sem hefur verið tekin af dagskrá. Svo algeng er svokölluð „slaufun“ orðin í breskum háskólum að breska þingið samþykkti á síðasta ári lög sem áttu að tryggja að tjáningarfrelsi væri virt í háskólum landsins. Í kjölfar þess að ný ríkisstjórn Verkamannaflokksins tók við völdum í sumar kom nýr menntamálaráðherra í veg fyrir framkvæmd laganna.
Í síðustu viku gagnrýndi hópur fremstu rithöfunda Bretlands stjórnvöld harðlega fyrir að bregðast skyldu sinni að standa vörð um „frjálslyndissjónarmið“ og fara ekki að lögunum. Fyrr höfðu tugir Nóbelsverðlaunahafa og 600 háskólakennarar gert slíkt hið sama.
Einn þeirra var heimspekingurinn A. C. Grayling. Grayling kvaðst hlynntur málstað svokallaðrar „woke-hreyfingar“ en sagði „slaufun“ vera „misheppnaða strategíu“ sem hefði „kælingaráhrif á tjáningarfrelsið“.
Tilgangurinn og meðalið
Í dag fagna Sameinuðu þjóðirnar degi umburðarlyndis. Umburðarlyndi hefur blómstrað á Vesturlöndum síðustu áratugi þar sem það hefur sprottið upp úr frjóum jarðvegi frjálslyndis. Í baráttu sinni fyrir umburðarlyndi beita forkólfar frjálslyndis hins vegar æ oftar aðferðum sem tíðkast í afturhaldssömum samfélögum og ganga gegn þeim gildum sem þeir reyna að breiða út.
Ef við, sem segjumst boðberar frjálslynds lýðræðis, freistumst til að hunsa niðurstöðu kosninga erum við ekki í stöðu til að berjast gegn valdaráni Trumps. Ef óumburðarlyndi okkar í garð óumburðarlyndis andstæðinga okkar kemur í veg fyrir að við eigum við þá rökræður, munum við aldrei sannfæra þá um ágæti frjálslyndra gilda. Ef við festum í sessi þann sið að þeim sem viðrar „vondar“ skoðanir sé „slaufað“ munum við ekki geta sinnt hlutverki okkar sem „verndarvirki lýðræðisins“ þegar einhver boðar að skoðanir okkar séu vondar.
Lýðræðissamfélag virkar ekki eins og Nammiland í Hagkaup þar sem við getum valið það sæta og hafnað því súra. Hvort sem um ræðir lýðræðið eða tjáningarfrelsið helgar tilgangurinn aldrei meðalið.
Athugasemdir