Nú til dags þekkja mig margir sem dagskrárgerðarmann á Rás 2 eða/og sem plötusnúð á Dillon, en mitt fyrsta langtímastarf var við prófarkalestur á Þjóðviljanum. Þar byrjaði ég sumarið 1972 (23ja ára), þegar prófarkalesari Þjóðviljans, rithöfundurinn og ljóðskáldið Elías Mar, fór upp í nýstofnaða offset prentsmiðjuna Blaðaprent, að Síðumúla 14 hér í henni Reykjavík, til að æfa sig í að lesa prófarkir í þessari nýju tækni, sem var mikið framfarastökk úr blýprentuninni.
Í Blaðaprenti voru öll íslenzku dagblöðin nema Mogginn með aðstöðu. Var þetta einstaklega skemmtilegur vinnustaður, sem ég komst að haustið 1972 er ég breyttist úr afleysara Elíasar í samverkamann hans, því að það þurfti tvo til að lesa prófarkir í Blaðaprenti, þar sem voru tvískiptar vaktir. En ástæðan fyrir að ég fékk prófarkalesaradjobbið var sú að þá var Svavar Gestsson ritstjóri Þjóðviljans, en hann var giftur Nínu frænku minni (við vorum bræðradætur) og ég leigði hjá þeim (og Svandísi dóttur þeirra (og núverandi formanni Vinstri grænna)) tvo fyrri veturna af MR-árum mínum, 1965–67. Svavar sem sagt vissi að ég var ekki bara með tónlistardellu; heldur líka málfræði-, setningafræði- og kommusetningadellu (sem er auðvitað afleiðing setningafræðinnar:-). Á Þjóðviljanum var ég svo prófarkalesari næstum óslitið í rúmlega 10 ár, líka afleysingamanneskja í blaðamennsku á sumrin og skrifaði jafnframt um tónlist meðfram prófarkalestrinum. Um tíma var ég líka í umbrotinu hjá höfðingjanum honum Guðjóni með tommustokk að vopni sem kallaðist kvarði.
Ég byrjaði á Rás 2 þegar ég var enn í fastri vinnu á Þjóðviljanum, sem sagt sirka um vorið 1984, og var þá með hálfsmánaðarlegan þátt sem hét Úr kvennabúrinu. Ragnheiði Ástu Pétursdóttur, meistaraþul og snillingi, fannst það ekki kvenfrelsislegt nafn, fyrr en ég sagði henni að mér fyndust flestar tónlistarkonur vera allt of lítið spilaðar og því væri ég að hleypa þeim út úr þessu huglæga kvennabúri í þætti sem var helgaður tónlistarkonum. En svo fór að ég fékk fast, fullt starf á Rás 2 upp úr þessu, man ekki nákvæmlega hvenær.
En sem sagt … Ég var ótrúlega heppin strax með mín fyrstu „fullorðins“ aðalstörf verandi bara stúdent úr máladeild MR, sem reyndar þótti nokkuð góð menntun þegar ég útskrifaðist 1969. Og hvað ég lærði mikið á þessum árum! Og alveg naut ég prófarkalesaravaldanna. Ég lærði samt líka frjálslyndi, til dæmis að ströng MR-kommusetningin hefti flæði í samtölum, skemmtiskrifum og skáldlegum, þótt hún gæti bætt tyrfna pólitíska og fræðilega texta.
Ég hef sem sagt unnið við og með tungumálið mest af minni starfsævi og fundist sjálfsagt að vegur móðurmálsins sé sem mestur í skólum. En fyrir rúmum áratug kynnist ég barni sem er á ónefndu rófi, sem gerir að verkum að málstöðvar eru ekki fullkomnar og þar á ofan háir því lesblinda. Viðkomandi mun ekki ná tökum á málfræðireglum og er betri í ensku en íslenzku og talar móðurmálið með óskilgreindum hreim. Barn þetta er hins vegar með ríka samkennd og frjóan huga og er ýmislegt til lista lagt; það ætti ekki að þurfa að sitja undir málfræðikennslu sem því finnst það aldrei muni ná tökum á. Það væri svona börnum alger frelsun ef þau ættu völ á gagnlegu og skemmtilegu starfsnámi í stað þeirra tíma sem þau ná engu sambandi við.
„Íslenzkan er mikilvæg en aldrei mikilvægari en vellíðan og sjálfsvirðing hverrar manneskju
Ég tek það fram að ég er ekki að gagnrýna kennara, sem flestir reyna að mennta alla og hjálpa öllum, en það er (skóla)kerfið og hinn frægi, eilífi peningaskortur sem þarf að taka á. Íslenzkan er mikilvæg en aldrei mikilvægari en vellíðan og sjálfsvirðing hverrar manneskju. Sumir ná aldrei almennilega tökum á henni af ýmsum óyfirstíganlegum ástæðum. Það er alls ekki sjálfsagt að móðurmálið renni út úr okkur öllum fyrirhafnarlítið eða -laust. Það hef ég lært.
Svona í lokin langar mig að benda á skáldlegustu málvillu sem ég hef rekist á í íslenzku dægurlagi. Þetta er lagið Án þín með Trúbrotum. Lagið er erlent, textinn eftir Þorstein Eggertsson, en þessi nauðsynlega villa er söngkonunnar, sem er hin frábæra Shadie Owens. Hún er íslenzk í móðurætt og bandarísk í föðurætt og ólst að mestu upp í Texas: „... mér langar þér að taka höndum tveim.“ Hvað annað.
Athugasemdir