Minntust Geirs og vilja breytingar á kerfi sem brást honum

Jón Kristján Jac­ob­sen, fað­ir Geirs Arn­ar Jac­ob­sen sem lést í bruna á Stuðl­um, seg­ist þreytt­ur á and­vara­leysi stjórn­valda þeg­ar kem­ur að „týndu börn­un­um“. Minn­ing­ar­at­höfn um son hans, sem var sautján ára þeg­ar hann lést, var hald­in í Frí­kirkj­unni í gær.

Vinir og fjölskylda Geirs Arnar Jacobsen, sem lést í bruna á meðferðarheimilinu Stuðlum 19. október síðastliðinn, komu saman í Fríkirkjunni í gær og minntust hans. Hópurinn gekk að tröppum Alþingishússins með rósir til minningar um þau sem látist hafa af völdum fíknisjúkdóms.

Faðir Geirs Arnar hefur litla trú á þessu Alþingi og finnst að forgangsröðun stjórnvalda, sem leggi ekki nægilega áherslu á grunnstoðirnar, sé röng.

„Ég fer ekki og kýs af því að ég er búinn að vera í þessum málaflokki sjálfur, ég segi bara að ég sé ekki mun á kúk og skít,“ segir faðirinn, Jón Kristján Jacobsen, sem er betur þekktur sem Nonni Lobo.

„Ég veit hvernig pólitíkin virkar, þetta er kaup kaups, ef einn flokkur samþykkir þetta þá samþykkir hinn hitt en þetta eru bara plástrar.“

Þrátt fyrir fögur fyrirheit finnst Jóni ekki að breytingar til batnaðar hafi orðið á stöðu barna með fíknivanda.

„Ég er búinn að horfa á það – í fíknimálunum, það var gert álit og eitthvað og síðan gerðist ekkert í þeim málum. Það voru endalausar nefndir sem sátu á launum við að finna út úr þessu, skila inn áliti og þetta átti að vera nýja stefnan en það breyttist ekkert. Það er endalaust verið að eyða peningum og borga fólki fyrir að sitja í nefndum sem mætir takmarkað og hefur takmarkaða þekkingu á nefndarstarfinu,“ segir Jón. 

Úrræðaleysi, kallar hann stöðuna fyrir börn og ungmenni með fíknivanda í dag. Þegar hann er spurður hvort kerfið hafi brugðist syni hans segir Jón: „Allan daginn.“

Tveimur dögum áður en Geir Örn lést mættu þeir feðgar í viðtal hjá Vísi þar sem Geir Örn lýsti Stuðlum sem geymslu. 

„Þetta er bara geymsla. Við sitjum þarna og bíðum og fáum Playstation-tölvur. Og einhvern tímann fáum við að fara heim,“ sagði Geir Örn þá.

Vantar einhvern sem talar við krakkana sem jafningja

Jón, sem hefur áratugalanga reynslu af því að vinna með fólki með fíknivanda og hefur reynslu af fangelsisdvöl og alkóhólisma sjálfur, kallar eftir því að stjórnvöld vakni, þau hafi sofnað á verðinum. 

„Ég er búinn að vinna með fullt af börnum sem voru á Stuðlum, þetta er bara þessi hópur – týndu börnin. Maður verður þreyttur á þessu andvaraleysi stjórnvalda og þeirra sem ráða einhverju,“ segir Jón. 

Sjálfur ætlar hann ekki að láta sitt eftir liggja. 

„Ef stjórnvöld ætla ekki að gera það ætlum við að reyna að gera eitthvað, vera til staðar,“ segir Jón. „Ég er ekki hættur. Áður en þetta gerðist vorum við búin að fá sal í 12 spora húsinu. Við erum að spá í einhvern svona hitting fyrir þessa krakka, 13 til 18 ára, því það er bara ekki til.“ 

Jón, sem hefur sjálfur góða reynslu af því að vera í sveit sem ungur maður, á hugmynd um enn stærra verkefni.

„Ég er alveg búinn að vera með þennan draum, af því að ég er í hestum og mótorhjólum og öllu þessu dóti – að vera með eitthvað úti á landi fyrir strákagemlinga sem þurfa að fá nánd við dýrin, hesta, mótorhjól og þetta,“ segir Jón. „Það vantar svona, einhvern sem mætir þessum krökkum á jafningjagrundvelli og talar við þá á jafningjagrundvelli.“

Kjósa
4
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu