Á morgun verður tilkynnt um niðurstöðu leiðtogakjörs breska Íhaldsflokksins. Kjörið hófst í júlí og voru frambjóðendur upphaflega sex. Þegar landsfundur flokksins var haldinn í síðasta mánuði stóðu þrír eftir. Á fundinum hélt miðjumaðurinn James Cleverly ræðu sem þótti einkar vel heppnuð. Baðst hann afsökunar á furðulegri hegðun þingflokksins síðustu ár og kallaði eftir að flokkurinn hagaði sér „eðlilegar“. Í kjölfar ræðunnar var Cleverly talinn sigurstranglegastur frambjóðendanna.
En þegar tilkynnt var um niðurstöðu fjórðu og næstsíðustu umferðar leiðtogakjörsins kváðu við ramakvein. James Cleverly hafði lent í síðasta sæti. Í úrslit komust tveir frambjóðendur sem báðir tilheyrðu hægri jaðri flokksins.
Svo virtist sem Íhaldsflokkurinn hefði hafnað því að hegða sér „eðlilega“. Ekki var þó allt sem sýndist.
Stjórnkænskuleg tilraunastarfsemi
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var gagnrýndur í síðustu viku fyrir að gjalda varhug við „blöndun menningarheima“ hér á landi. Þótti hann bregðast við fylgistapi flokksins með því að „máta sig við Miðflokkinn“, eins og dósent í félagsfræði við HÍ komst að orði.
Bjarni er ekki einn um að stunda stjórnkænskulega tilraunastarfsemi í viðleitni sinni til að tryggja sér atkvæði. Formanni Samfylkingarinnar, Kristrúnu Frostadóttur, þótti hafa orðið á í messunni þegar hún hvatti áhugasaman kjósanda til að strika yfir meðframbjóðanda hennar, Dag B. Eggertsson, í kjörklefanum eftir að kjósandinn kvaðst óánægður með veru fyrrum borgarstjóra á framboðslista flokksins.
Bæði Bjarni og Kristrún telja sig eflaust reka kosningabaráttu af kænsku. Það þarf þó lítið til að kænska endi sem klaufaskapur.
Ekki er vitað með vissu hvernig James Cleverly fór frá því að vera framtíð Íhaldsflokksins í að vera hrapandi stjarna á einni nóttu. Hávær orðrómur er hins vegar uppi um að hans eigið pólitíska klækjabragð hafi orðið honum að falli.
Aðeins þingmenn Íhaldsflokksins fá að kjósa á fyrstu stigum leiðtogakjörs flokksins. Atkvæði þess frambjóðanda sem dettur út í hverri umferð dreifast á hina frambjóðendurna í þeirri næstu. Hver frambjóðandi bætir því að jafnaði við sig atkvæðum eftir því sem líður á keppnina.
Þegar atkvæði voru talin í næstsíðustu umferð kosninganna kom hins vegar í ljós að ekki aðeins hafði Cleverly lent í síðasta sæti heldur hafði hann hlotið færri atkvæði en í fyrri umferðum. Hvernig gat það staðist?
Ástæðan er pólitískur svartigaldur.
Til að tryggja sér auðveldan slag í lokaumferð keppninnar er talið að Cleverly hafi reynt að hafa áhrif á hver andstæðingur hans yrði. Kosningateymi Cleverly hefur verið sakað um að stunda svokallað „atkvæðalán“. Sá orðrómur gengur nú fjöllum hærra að völdum stuðningsmönnum Cleverly hafi verið skipað að greiða ekki atkvæði með sínum manni heldur með þeim frambjóðanda sem Cleverly var líklegri til að sigra í lokabardaganum. Eiga ráðgjafar Cleverly hins vegar að hafa misreiknað sig með þeim afleiðingum að of mörg atkvæði voru lánuð öðrum.
Víti til varnaðar
„Ég skammaðist mín þegar ég uppgötvaði að lífið er grímuball en ég hafði mætt með mitt rétta andlit,“ sagði Kafka.
Það verður æ erfiðara að átta sig á hvert er hið rétta andlit stjórnmálafólks og hvað er gríma sem hönnuð er í dimmu bakherbergi af pólitískri hernaðarlist. En strategía getur snúist í höndunum á mönnum. Óvæntur ósigur James Cleverly ætti að vera stjórnmálastéttinni víti til varnaðar.
Þeir frambjóðendur sem leitast nú við að segja það sem þeir telja pöpulinn vilja heyra, þeir sem tileinka sér málflutning annarra flokka í von um að hafa af þeim atkvæði, þeir sem kasta fyrir róða samherja í von um ást eins kjósanda ættu að íhuga að kasta heldur grímunni. Aldrei er að vita nema kjósendum líki betur það sem leynist þar á bak við.
Það styttist í að einstaklingar annara trúarbragða setjist á alþingi. Hvernig er hægt að gjalda varhug við því? Verður þeim gert að mæta í messuna - eða verður þeim bannað það?