Ég byrja að æfa íþrótt. Þjálfarinn kennir mér reglurnar. Sýnir mér hvar ég eigi að vera. Segir mér hvað ég eigi að gera. Hann segir mér líka að ef ég æfi mig mikið þá geti ég náð langt.
Ég mæti á mitt fyrsta mót. Ég heyri foreldra kalla á hliðarlínunni. Skjóttu! Farðu þangað. Hlauptu hingað! Eftir mótið þylja þau upp markafjölda barna sinna á samfélagsmiðlum. Úrslit leikjanna eru aukaatriði. Við sem skoruðum megum vera stoltar.
Ég æfi mig meira. Spila fleiri leiki. Kemst í meistaraflokk. Fylgist með hvað fjölmiðlar segja um mig. Les viðtöl við aðra leikmenn og fer að skilja óskrifuðu leikreglurnar. Ég læri að spila þannig að eftir mér sé tekið.
„Úrslit leikjanna eru aukaatriði. Við sem skoruðum megum vera stoltar
Ég skoða fréttir úti í heimi af leikmönnum í sömu íþrótt. Bonmatí valin best. Rodri valinn bestur. Haaland í fýlu. Manchester að spila í gær. Unnu Chelsea. Hver skoraði?
Ég mæti á leik hjá uppáhaldsliðinu mínu. Vallarþulurinn tilynnir mann leiksins. Allir klappa. Markaskorarinn er tekinn í viðtal. Glaður að hafa skorað þótt leikurinn hafi tapast.
Ég er farin að skilja fyllilega hvað þessi leikur snýst um og árangur minn nær nýjum hæðum. Ég er valin í landsliðið. Skil samt ekki af hverju ég fékk ekki þrjú M í Morgunblaðinu fyrir síðasta leik. Ég sem lagði upp tvö mörk.
Ég legg skóna á hilluna og lít til baka á ferilinn. Tel skiptin sem ég hef verið valin best. Mörkin sem ég hef skorað. Landsleikina sem ég hef spilað. Fjölda fylgjenda minna á samfélagsmiðlum. Impóneruð af árangrinum hugsa ég með mér hve dugleg ég hef verið að æfa mig. Ég er ánægð með það sem ég hef afrekað og þá viðurkenningu sem ég hef fengið. Eitt núll fyrir mér.
Og þá rennur upp fyrir mér. Ég var í liðsíþrótt.
Athugasemdir (2)