Volodimír Selenskí Úkraínuforseti og Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, hittust á Bessastöðum rétt fyrir klukkan níu í morgun.
Selenskí lýsti yfir þakklæti við Íslendinga sem hann kallaði bandamenn í baráttu Úkraínu fyrir frelsi landsins. Rússneskar hersveitir réðust inn í landið í febrúarmánuði 2022 og geisar enn stríð í landinu.
Í aðdraganda forsetakosninga var Halla sá frambjóðandi sem lýsti einna mestum efasemdum um að styðja Úkraínumenn hernaðarlega. Það gerði hún í kappræðum Ríkisútvarpsins.
Halla sagðist þá að það samræmdist ekki gildum Íslands að kaupa vopn fyrir Úkraínumenn „án samtals“.
„Í heimi þar sem allar stórþjóðir eru að velja stríð held ég að við leggjum mest af mörkum með því að standa fyrir og velja frið,“ sagði Halla.
5.000 manns hingað frá Úkraínu
Eins og aðrar Evrópuþjóðir hefur Ísland tekið á móti fjölmörgum úkraínskum flóttamönnum síðan Rússar réðust inn í heimaland þeirra, nú alls um 5.000 manns. Ísland hefur aldrei tekið á móti jafn stórum hóp frá einu landi. Íslendingar samþykkja nánast allar umsóknir um hæli frá Úkraínu og hafa gert það frá upphafi stríðs.
Selenskí er hér á landi þar sem hann er gestur Norðurlandaráðsþings sem hófst í gær. Þá hitti hann forsætisráðherra Norðurlandanna á Þingvöllum. Hann mun jafnframt ávarpa þingið síðar í dag.
Fréttin hefur verið uppfærð
Athugasemdir