Snemma á æskuárum var mér kenndur munurinn milli ills og góðs. Samtímis útskýrði fullorðna fólkið fyrir mér að það sem við gerðum var annaðhvort rétt eða rangt.
Ég var um það bil tíu ára gömul og mér leiddist þann dag. Ég var hálfliggjandi á sófarúminu og starði á vegginn. Mig langaði að leika mér en nennti engu sem ég var vön að gera. Foreldrar mínir voru uppteknir af húsverkum og yngri systkinum mínum en þau eldri höfðu engan áhuga á að tala við mig, hvað þá leika við mig. Ég kíkti út um gluggann en sá enga krakka á ferð, aðeins blauta, kuldalega dimmu að skríða milli hverfisblokkanna. Í lítilli íbúð yfirfullri af heimilisfólki var ég einmana. Ég hugsaði um hvað það væri gaman að geta hringt í vinkonu og spjallað við hana í símann. En því miður átti ég hvorki vinkonu til að hringja í né hafði ég frjálst aðgengi að heimasíma.
Þremur árum yngri bróðir minn gekk inn í herbergið sem við deildum og settist við hliðina á mér án þess að segja nokkuð. Við sátum í dálitla stund og héldum áfram að þegja þangað til ég fékk spennandi hugmynd.
„Eigum við að gera eitthvað skemmtilegt?“ spurði ég hann með glettni í augunum. Ég beygði mig undir rúm og dró fram, úr einum margra kassa, gamlan, gljáandi svartan skífusíma. Hann var þungur og gaf frá sér skemmtileg hljóð þegar skífunni var snúið. Úr símanum hékk stutt svört klólaus snúra. Ég horfði lengi á snúruna sem skiptist út í endanum í tvennt. „Við verðum að setja símann í samband,“ tilkynnti ég bróður mínum.
„Hvernig?“ hvíslaði hann og leit óttasleginn í kringum sig.
Ég færði skífusímann að innstungu við hliðina á rúminu, lyfti snúrunni og stakk endum í sitthvort gat innstungunnar. Hávær og hljóðmikil símhringing reif spennuþögn sem myndaðist á meðan ég var að framkvæma hugmyndina. Hljóðið fyllti eyrun mín, herbergið og barst út um alla íbúð og hélt áfram að hljóma þangað til faðir minn birtist móður í dyragættinni. Eftir að hafa tekið símann úr sambandi öskraði faðir minn á mig. Ég man varla hvort það var einhver lærdómur fyrir mig í öskrinu en engu að síður var ég mjög ánægð með sjálfa mig fyrir að hafa kynnt mér vísindi á lifandi hátt.
Þegar ég var unglingur eyddi ég öllum stundum í lestur. Mig langaði svo mikið að sjá heiminn og skilja manninn. Ég lifði fyrir lærdóm en einnig ævintýri. Það var reyndar ekkert betra en að sameina bæði og læra um hluti með því að uppgötva þá sjálf. Ég var orðin eldri og vissi betur en að fikta í innstungum án þess að slá út örygginu fyrst. Aftur á móti hélt ég áfram að horfa fram hjá afleiðingum þess sem ég gerði.
Spennandi hugmyndir knúðu áfram tilveru mína en vandamálið var að spennandi stóð ekki alltaf fyrir því góða eða rétta. Ég var fimmtán ára og mér leiddist í tíma. Mér datt í hug að gefa út skólablað. Í frímínútunum tók ég tvær af vinkonum mínum afsíðis til að segja þeim frá hugmynd minni.
„Þetta verður svo fyndið!“ sannfærði ég þær og við byrjuðum að skrifa niður slúður, kjaftasögur um nemendur og kennara sem höfðu talað af sér í tímum. Mér fannst það vera mjög fyndið. Ég fór heim og tók upp ritvél elstu systur minnar. Á innan við tveimur tímum var blaðið tilbúið. Ég gekk spennt en líka stressuð með tvær A4 blaðsíður á litla stofu, þar sem gegn gjaldi var hægt að ljósrita bækur og skjöl. Blaðið hét „Paddan“ og birtist í fjórum eintökum á dularfullan hátt í fataklefa menntaskólans míns. Eins og orðið paddan gaf til kynna var það blaðið um allt það sem ekki mátti heyrast, enda voru leynihlustunartæki kölluð pöddur á tíma kommúnismans í Póllandi. Paddan sem lífvera vekur ekki sérstaklega góðar eða þægilegar tilfinningar. Blaðið mitt gerði það ekki heldur. Þessi spennandi hugmynd um að verða blaðakona endaði með fundi hjá skólastjóra, símtölum og hótunum frá öðrum foreldrum um að kæra mig og ofsareiði föður míns sem lofaði að henda ritvélinni út um gluggann. Næstu fjögur ár þorði ég varla að líta á skólafélaga mína. Mér var útskúfað vegna gríns sem engum fannst fyndið. Munurinn milli góðs og ills var mér meira fyrirfinnanlegur en nokkru sinni fyrr. Skömmin fylgdi mér langt inn í fullorðinsárin en ég átti samt oft erfitt með að læra af vanhugsuðum gjörðum.
„Sem fullorðin manneskja hef ég loksins lært að draga reynslu af því slæma í stað þess að dvelja í skömminni að eilífu
Í dag er ég mjög fullorðin á aldurskvarða enda hef ég lifað í fjörutíu og eitt ár. Ég fæ enn þá spennandi hugmyndir en óskemmtileg reynsla er mér í dag leiðarljós þegar ég tek ákvarðanir og hugsa um mögulegar afleiðingar þeirra. Sem fullorðin manneskja hef ég loksins lært að draga reynslu af því slæma í stað þess að dvelja í skömminni að eilífu. Ég reyni að læra af mistökum mínum og veit að þau eru mikilvægur hluti af þroska og skilningi á manninum. Ég er ekki lengur eins fljót að draga ályktanir um aðra heldur, skoða fólk í gegnum réttlætislinsu, halda að ég hafi alltaf rétt fyrir mér. Með árunum og mistökum mínum lærði ég líka að við þurfum að sjá það sem við gerum í stærra samhengi, reyna að skilja hvers vegna við gerum það sem við gerum.
Af hverju leiddist þessum krakka og unglingi? Hefði ég hagað mér öðruvísi ef ég hefði fengið meiri athygli frá fullorðnum, tækifæri til að fá útrás fyrir skapandi orku, meiri félagsskap og ævintýri? Ég veit það ekki en stórefast um að ég myndi aldrei gera mistök eða taka ákvarðanir sem leiða ekki til ills. Ég veit líka að gjörðir okkar eru ekki alltaf góðar og að við erum ekki laus frá ábyrgð af því að við gerum eitthvað í réttlætisskyni eða gamni.
Mér finnst ég læra eitthvað nýtt á hverjum degi og er meðvituð um að allt sem ég geri hefur áhrif á aðra. Og sem betur fer hef ég oft rangt fyrir mér. Annars gæti ég aldrei lært neitt.
Athugasemdir