Myndefni sem ísraelskir hermenn hafa sjálfir deilt á samfélagsmiðlum sem virðast sýna alvarleg mannréttindabrot og jafnvel stríðsglæpi. Þar á meðal sést hvernig skotið er á óvopnað fólk á götum úti og hús sprengd, að því er virðist án ástæðu. Al Jazeera afhjúpaði myndskeiðin í nýrri heimildarmynd sem frumsýnd var á föstudag.
Myndin er nú aðgengileg með íslenskum texta í spilaranum hér að ofan.
„Í grunninn er hugmyndin á bak við myndina sú að segja sögu stríðsins á Gaza í gegnum raddir ísraelsku hermannanna sjálfra. Við uppgötvuðum að þeir höfðu sett ótrúlegt magn myndbanda og mynda á netið sem sýndu frá reynslu þeirra á Gaza,“ segir framleiðandi myndarinnar, Richard Sanders, í samtali við Heimildina.
„Það sem er athyglisverðast við þetta efni er í fyrsta lagi að ísraelsk stjórnvöld hafi yfirhöfuð leyft því að fara á netið, sem er undarlegt miðað við hermenn við störf, en líka hvað það sýnir ísraelska herinn í slæmu ljósi. Oft voru þeir einfaldlega að eyðileggja heimili fólks, róta í gegnum eigur þeirra eða stela fjármunum af því. Á öðrum myndböndum voru þeir að fremja, það sem virðist vera í öllu falli, frekar alvarleg mannréttindabrot. Sprengja upp byggingar, og í sumum myndböndum, meira að segja, að skjóta óvopnað fólk.“
Myndin byggir á myndum og myndböndum af meira en 2.500 samfélagsmiðlareikningum, sem safnað var í stóran gagnagrunn. Allt efnið lá fyrir hvers manns augum á samfélagsmiðlum.
„Þetta er af Facebook, af TikTok, af Instagram, af YouTube, og já, þetta er efni sem þeir settu sjálfir á netið,“ segir Sanders og bætir við að upphaflega hafi teymið búist við því að þurfa að kafa djúpt í efnið til að staðsetja atvik eða nota andlitsgreiningu til að komast að hverjir væru á myndunum. „En í raun og veru voru þeir að mestu að birta þetta undir eigin nöfnum og gefa upplýsingar um hvað myndböndin sýndu. Þannig að þetta var mjög auðvelt fyrir okkur.“
„Í myndinni stillum við efni frá ísraelskum hermönnum við hlið viðtala á vettvangi sem við tókum í gegnum teymi í Gaza. Við berum saman sjónarhorn ísraelskra hermanna við reynslu Palestínumanna á vettvangi.“
Til greina kemur að birta allan gagnagrunninn, sem Sanders segir að hljóti að vekja athygli og áhuga saksóknara og þeirra sem rannsaka framgöngu Ísraels í stríðinu. Viðbrögðin hafa þó ekki verið mikil á Vesturlöndum.
„Viðbrögðin við myndinni hafa verið eins og viðbrögðin eru almennt við myndum Al Jazeera í vestrænum fjölmiðlum: þau hunsa okkur algjörlega. Ég held að ein ástæða fyrir því að við vildum gera þessa mynd sé sú að við höfum mjög ólíkt sjónarhorn á þetta mál og segjum þessa sögu á annan hátt en vestrænir fjölmiðlar. Og það virðist vera sjónarhorn sem vestrænir fjölmiðlar hafa lítinn áhuga á,“ segir Sanders.
Áhuginn á efninu sé hins vegar sannarlega til staðar í Mið-Austurlöndum. „Og einnig, sem er áhugavert, í ísraelskum fjölmiðlum og á ísraelskum samfélagsmiðlum. Þar eru mörg örvæntingarfull skilaboð á hebresku þar sem fólk er beðið um að eyða samfélagsmiðlareikningum sínum. En auðvitað höfum við vistað allt sem við fundum.“
Athugasemdir (3)