Það eru víðsjárverðir og ógnvænlegir tímar á alþjóðasviðinu. Í dag er ár liðið frá hryllilegri árás vopnaðra Hamas-liða á saklaust fólk. Í kjölfarið hófust skelfilegar stríðsaðgerðir Ísraelshers á Gaza með ógurlegu mannfalli tugþúsunda saklausra borgara sem ekki sér fyrir endann á og nú breiðist stríðið á ógnarhraða til nágrannaríkjanna. Ekkert lát er á stríðsátökum milli Rússa og Úkraínumanna í kjölfar ólöglegrar innrásar Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 og blóðug stríðsátök í Súdan hafa staðið yfir í rúmt ár.
Þetta eru ekki einu stríðsátökin í heiminum. Alþjóðaráð Rauða krossins áætlar að um 120 vopnuð átök eigi sér stað um heim allan í ár og vakti athygli á því í maí síðastliðnum að fjöldi stríðsátaka hefur aukist jafnt og þétt frá aldamótum. Þetta er óbærileg staða. Langflest fórnarlömb stríðsátaka eru saklaust fólk sem ekkert hefur til saka unnið og eru ekki hermenn eða í stríði við einn eða neinn; börn, konur og eldra fólk. Aldrei hafa fleiri börn látið lífið í stríðsátökum en á árinu 2024, sem enn er þó ekki búið, og aldrei hafa fleiri manneskjur í heiminum verið á flótta frá heimilum sínum vegna stríðsátaka eða afleiðinga þeirra.
Á nýafstöðnu allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York yfirgnæfði ákall þjóðarleiðtoga eftir friði og fordæmingar á stríðsátökum fyrir botni Miðjarðarhafsins allt annað. Yfirmaður Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna hefur óskað eftir viðbótarfjármagni til að mæta þörfum fólks á flótta, sem flýr í unnvörpum stríðsátök við botn Miðjarðarhafs. Talið er að um 8 milljónir manna hafi flúið heimili sín í Súdan frá því í apríl í fyrra sem er langstærsta flóttamannakrísa veraldar um þessar mundir, en hefur því miður ekki hlotið verðuga athygli á Vesturlöndum.
Á þessum ófriðartímum þarf bráðnauðsynlega skýrar aðgerðir í þágu friðar. Ekki bara lífsnauðsynlega fyrir íbúa átakasvæðanna, heldur líka til að draga úr vaxandi hernaðarhyggju víða um heim með auknum fjárútlátum til hergagnaframleiðslu sem annars færu í önnur samfélagsleg verkefni og stöðugleika. Aðgerða er líka þörf til að minnka og draga úr sívaxandi spennu í samskiptum ríkja í millum, almennum borgurum til heilla hvar sem þeir búa.
Hlutverk stjórnmála er að stuðla að friði
Til að viðhalda, halda á lofti og minna stöðugt á nauðsyn friðar og friðarstefnu þurfa stjórnmálin að koma til. Stjórnmál sem snúast um friðsamlegar lausnir. Stjórnmál sem leggja ávallt áherslu á friðarviðræður við lausn á deilumálum. Stjórnmál sem snúast um virka samvinnu og heiðarleg samtöl á milli ríkja og íbúa þeirra í stað þess að undirbyggja ótta eða ala á hatri eða andúð. Stjórnmál sem styðja við alþjóðastofnanir og alþjóðasáttmála. Stjórnmál sem snúast um að efla samtakamátt og hafa það að markmiði að styrkja og efla samvinnu ólíkra hópa fólks, af ólíkum uppruna eða með ólíkan bakgrunn. Sem stuðla þannig að betra, friðsælla lífi okkar allra en ekki bara fárra. Þetta eru stjórnmál sem VG hefur ávallt haldið á lofti.
VG hefur frá upphafi verið ólík öðrum stjórnmálaflokkum á Íslandi, að því leyti að flokkurinn hefur alltaf haldið skýrt í friðarhyggjuna sem eina af grundvallastoðum sínum. Þegar VG hefur setið í ríkisstjórn hefur það sýnt sig að sú seta með áherslum okkar á friðarstjórnmál hefur haft áhrif.
Ríkisstjórn Íslands með VG innanborðs hefur jafnt og þétt aukið framlög sín til þróunarsamvinnu og mannréttindamála. Samþykkt var fyrir ári að greiða 110 m.kr. til Flóttamannaaðstoðar Palestínu sem kjarnaframlag á ári til ársins 2028 en líka að greiða viðbótarframlag til stofnunarinnar vegna stríðsátakanna á Gaza. Stjórnvöld juku líka verulega viðbótarframlag sitt vegna stríðsins á Gaza í sjóð Alþjóðabankans til enduruppbyggingar í Palestínu, til Alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem og til Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Ísland hefur líka lagt til viðbótarframlag í Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna, sem úthlutaði samtals 18 milljónum Bandaríkjadala til mannúðar- og neyðaraðstoðar á Gaza árið 2023. Íslensk stjórnvöld komu Palestínumönnum frá Gaza til Íslands á grundvelli fjölskyldusameiningar við afar erfiðar aðstæður. Það má líka minna á að þegar VG sat í ríkisstjórn 2009 -2013 samþykkti Ísland Palestínu sem fullvalda, sjálfstætt ríki. Ísland hefur tekið fullan þátt í viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins gagnvart Rússlandi og fulltrúar Íslands hafa talað einarðlega gegn innrás Rússa og fyrir friði í Úkraínu. Ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar samþykkti að taka á móti tæplega 5000 úkraínskum flóttamönnum vegna innrásar Rússa og setja umtalsverða fjármuni í mannúðaraðstoð, efnahagsaðstoð og aðstoð við heilbrigðisþjónustu til Úkraínu. Allt þetta skiptir máli þó mörgum finnist ekki nóg að gert.
Missum ekki trúna á friðsamlegar lausnir
Það er auðvelt að missa móðinn og trúna á að hægt sé að tryggja frið og koma í veg fyrir að saklaust fólk láti lífið, missi heimili og tilveru sína vegna blóðugra stríðsátaka. Mörg okkar sakna þess líka að heyra ekki fleiri þjóðarleiðtoga eða forystufólk tala fyrir friði. Sumum okkar finnst jafnvel að orð séu til einskis nýt og samvinna þjóða beri engar áþreifanlegan árangur.
En við megum ekki líta undan gagnvart því sem er í gangi á heimsvísu, við megum ekki gefast upp fyrir vaxandi vopnaskaki sem er drifið áfram af pópulisma og þjóðernisofstæki eða ganga einangrunarhyggjunni á hönd. Við verðum að vera virk í þátttöku á alþjóðavettvangi þar sem við nýtum stöðu okkar til að tala ávallt með friði og vinna áfram statt og stöðugt að friðsamlegum lausnum. Þar hefur Ísland trúverðugleika sem herlaus þjóð með ríka virðingu fyrir mannréttindum.
Nú reynir á að við sameinumst öll í baráttunni fyrir friði og um leið virðingu fyrir mannréttindum og fyrir alþjóðalögum. Sú barátta hefur aldrei verið auðveld en sjaldan mikilvægari en núna.
Athugasemdir