„Mamma, ég var ekki alveg tilbúinn en ég gerði það samt!“
Ég fór með syni mínum á fyrstu fótboltaæfinguna hans. Hann var búinn að vera svo spenntur og biðja um að fá að æfa fótbolta lengi, en allt í einu hafði hann miklar áhyggjur. Hann var stressaður yfir að kunna ekki neitt, stressaður að verða skammaður af þjálfaranum, stressaður að þekkja ekki hina krakkana. Ég fullvissaði hann um að hann yrði ekki neyddur til að gera neitt, við gætum bara staðið á hliðarlínunni og horft á þar til hann væri tilbúinn að taka þátt. Eftir að hafa horft í góðar 15 mínútur ákvað hann að hann væri tilbúinn að hoppa inn í fótboltaleik, en bara ef ég kæmi með inn á völlinn. Við tók fjörugur fótboltaleikur þar sem sjö strákar á aldrinum 4 til 6 ára og ein kona á fertugsaldri hlupu um völlinn með boltann í ærslafullum leik.
Þegar næsti leikur hófst hljóp minn maður af stað alveg sjálfur og kláraði æfinguna með stæl. Í bílnum á leiðinni heim hrósaði ég honum fyrir að hafa gert þetta með sínu nefi, beðið þar til hann var tilbúinn og farið svo af stað. Þá sagði hann þessa línu sem vakti mig til umhugsunar: „Mamma, ég var ekki alveg tilbúinn en ég gerði það samt!“
Það er einstaklega óþægileg blanda að vera kvíðin og eiga erfitt með óvissu og að vera drifin áfram af metnaði og þörf til að prófa nýja hluti og ögra sér (hæ, allar kvíðakonur eins og ég). Það er nefnilega mikilvæg lexía sem ég hef lært, maður er aldrei alveg tilbúinn. Það þekkja eflaust allir tilfinninguna að standa frammi fyrir stóru tækifæri. Tækifæri sem vekur mikla spennu og gefur kitl í magann, og sem á sama tíma lamar mann af kvíða og breytir löppunum í soðið spagettí. Þig langar að hlaupa af stað, framkvæma, upplifa, sigra og njóta, en á sama tíma er tilhugsunin um að fara af stað yfirþyrmandi og lætur þig langa til að stoppa tímann og læsa þig inni í herbergi til að undirbúa þig fullkomlega fyrir þetta tækifæri. Maður vill finna fyrir tilfinningunni að maður sé fullkomlega undirbúinn, með báða fætur styrkar á jörðinni, og finna að maður sé tilbúinn. En veistu hvað, þú verður aldrei fullkomlega tilbúin. Gerðu það samt!
„Hæ, allar kvíðakonur eins og ég“
Ég hef alltaf sett miklar kröfur á sjálfa mig. Til dæmis hafði mig alltaf langað að eiga auðvelt með að tala fyrir framan fólk. Ég hef síðustu 15 ár starfað í mannréttindageiranum og verið svo heppin að vinna alltaf við eitthvað sem ég brenn fyrir, eitthvað sem ég tengi við inn í kjarnann. Ég hafði margt að segja, ég vildi segja mikið, ég vildi tala fyrir framan fólk. En ég var ekki tilbúin ... fannst mér. Ég þurfti að æfa mig meira, vera viss um að ég vissi 100% hvað ég væri að tala um og hefði svör við öllum spurningum sem mögulega gætu komið. Ég mátti alls ekki ruglast, ég varð að hafa allt sem ég vildi segja skrifað niður á blað, ég mátti samt alls ekki horfa á blaðið meðan ég talaði. Ég var ekki tilbúin!
Ég var um 25 ára, nýlega orðin stjórnandi yfir stórum verkefnum í vinnunni og var búin að skipuleggja stóran viðburð fyrir samtökin sem ég vann hjá á þeim tíma. Ég hafði undirbúið allt svo vel, en ég var ekki búin undir það að vera beðin um að fara upp á svið og ávarpa allt fólkið sem var komið til að kynna sér málefnið, styðja samtökin og njóta dagsins með okkur. Mitt fyrsta viðbragð var: „Neeei, er ekki einhver annar sem er betur til þess fallinn að tala uppi á sviði? Ég er ekki tilbúin!“ En það var víst þannig að þar sem ég stýrði verkefninu væri ég best til þess fallin að tala. Auðvitað.
Fæturnir mínir breyttust í soðið spagettí og skyndilega varð andardrátturinn eins og ég hefði hlaupið heilt maraþon í mótvindi. En upp á svið fór ég. Ég vildi að ég gæti í þessari sögu sagt að ég hafi farið upp á svið og haldið fallegustu og einlægustu ræðu sem nokkru sinni hefði verið haldin, jafnvel brostið í söng. En svo er ekki. Í raun man ég hreinlega ekki hvað ég sagði, en ég man að ég gerði það. Ég gat það! Ég var ekki tilbúin, en ég gat það.
Í framhaldi af þessu fann ég að ég vildi bæta fleiri verkfærum í verkfærakistuna, ég fór á framkomunámskeið, ég greip öll tækifæri sem ég fékk til að tala fyrir framan fólk, sama hversu móð og másandi ég væri, ég lærði að segja: „Góð spurning, ég veit ekki svarið við henni núna en ég skal finna það og svara þér síðar“, ég lærði líka að vera einlæg og segja „ég er svolítið stressuð að tala hérna fyrir framan ykkur, en mikið er ég samt spennt að fá tækifæri til þess“. Ég lærði að það er allt í lagi að mismæla sig og segja eitthvað vitlaust, það eru víst allir mannlegir og ég má vera það líka. Ég endurtók áskorunina aftur og aftur og aftur og aftur. Í dag veit ég ekkert skemmtilegra en að fá tækifæri til þess að tala (já, ég elska að tala) fyrir framan hópa, stóra sem litla, í útvarpi, í hlaðvarpinu mínu, í vinnunni minni. Ég elska að eiga samtöl, ég elska að vita ekki allt og fá tækifæri til þess að læra nýja hluti og heyra hvað fólki liggur á hjarta.
Það er nefnilega líka þannig að lífið er ekkert að tryggja að við séum fullkomlega tilbúin að takast á við áföllin sem geta dunið á manni í gegnum lífið. Ég var ekki tilbúin að greinast með tourette, ég var ekki tilbúin að glíma við afleiðingar þess að verða fyrir ofbeldi, ég var ekki tilbúin að fylgja mömmu minni í gegnum erfið veikindi. Ég gerði það samt.
Við getum svo miklu meira en við gerum okkur oft grein fyrir. Við setjum ríkar kröfur á okkur sjálf að vera fullkomin og fullkomlega tilbúin, á meðan við fögnum öðrum sem þora að rjúka af stað og grípa tækifærin þegar þau gefast.
Þú ert líklega ekki alveg tilbúin í nýja vinnu, í að verða foreldri, í að fara í draumanámið, í að halda ræðu á sviði í Smáralindinni. En þú getur það ef þú vilt það! Þú þarft ekki að segja já við öllum tækifærum, en ekki segja nei af því þú ert ekki tilbúin.
Athugasemdir