Stjórnmálaflokkurinn Vinstri græn, er haldinn sjálfseyðingarhvöt. Það er svosem alveg eðlilegt eftir að hafa unnið gegn yfirlýstri stefnu sinni í 7 ár.
Fylgi flokksins hefur mælst undir þeim mörkum að hann verði starfandi á Alþingi eftir næstu kosningar, margar kannanir í röð. Flokknum virðist hins vegar alveg fyrirmunað að skilja af hverju kjósendur þeirra hafa snúið við þeim baki. Það er nefnilega svo svakalega góð eining þegar litli hópurinn sem eftir er hittist. Þau styðja hvert annað og lofa að halda áfram að styðja hvert annað í að gera það sama aftur og aftur, því bara ef þau geri það aðeins lengur, þá hljóti fyrrverandi kjósendur þeirra og jafnvel einhverjir nýir að skilja hvað þetta er frábær flokkur.
„VG þurfa fyrst að skilja að þolinmæði kjósenda þeirra gagnvart þessarri ríkisstjórn er talsvert minni en þolinmæði þingflokks þeirra“
Um næstu helgi munu VG halda landsfund sinn og sá fundur sker úr um það hvort flokkurinn ætlar að lifa af eða ekki. Fyrir þann fund hafa 9 félagar í VG lagt fram tillögu um að slíta núverandi ríkisstjórnarsamstarfi. Þetta er mikilvægasta tillagan af öllum þeim sem munu koma fram á þessum fundi, af því hún sker úr um það hvort VG eigi möguleika á að rétta úr kútnum. VG þurfa fyrst að skilja að þolinmæði kjósenda þeirra gagnvart þessarri ríkisstjórn er talsvert minni en þolinmæði þingflokks þeirra. Þess vegna hafa svo margir kjósendur þeirra snúið baki við flokki þeirra.
Ætlar VG að taka enn einn snúninginn á því að snúa út úr öllu með málalengingum? Halda þau að það nægi að samþykkja stjórnarslit með því að til þeirra þurfi að vanda og að til þess þurfi tíma, a.m.k. til næsta vors? Hvað halda þau eiginlega að gerist til næsta vors? Ekkert af viti! Þjóðin fær að sitja uppi með ríkisstjórn þar sem hangið er á þremur handbremsum á meðan þeir sem á þeim hanga segja að það sé svo mikið á batavegi í efnahagslífi þjóðarinnar að það væri algjört glapræði að efna til kosninga sem gætu veikt þann bata. Er það ekki bara yfirleitt lýðræðislegt glapræði að vera að trufla ríkisstjórnir við mikilvæg störf með því að efna til kosninga?
„Rangar ákvarðanir í efnahagslegum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar, fyrst í covid og svo í náttúruhamförunum, eiga ríkan þátt í því slæma efnahagsástandi sem við búum við nú“
Það þýðir ekkert að afsaka slælega stjórnarhætti undanfarin 7 ár með því að hér hafi geysað covid, stríð í Evrópu og náttúruhamfarir. Þessi ríkisstjórn á sína sök á því hvernig haldið hefur verið á utanríkismálum með því að treysta á hernað og leggja stríði lið, en hunsa brýna þörf fyrir frið með því að finna leið friðar til að enda þetta stríð. Rangar ákvarðanir í efnahagslegum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar, fyrst í covid og svo í náttúruhamförunum, eiga ríkan þátt í því slæma efnahagsástandi sem við búum við nú, aukinni misskiptingu eigna og tekna í samfélaginu, neyðarástandi á húsnæðismarkaði og vaxtabyrðum alls almennings.
Núna eru allir stjórnmálaflokkar að undirbúa kosningar. Þeirra plön ganga bæði út á það að vera reiðubúin til kosninga með mjög stuttum fyrirvara og ekki síðar en næsta vor. Flokkar eru mis vel undir það búnir. En eitt er víst, að sá flokkur sem er verst undir það búinn er Sjálfstæðisflokkurinn, af því hann býr við forystu sem hefur hvorki traust meðal flokksmanna né almennings, sem veldur því að fylgi hans mælist í sögulegri lægð. Sjálfstæðisflokkurinn er olíuskip sem tekur langan tíma að snúa, jafnvel þótt lítið sé í tönkunum. Til að búa sig undir kosningar þarf Sjálfstæðisflokkurinn að fá að halda landsfund sinn í febrúar, skipta um forystufólk og móta kosningastefnu. Á þeim fundi verður Sjálfstæðisflokkurinn tilbúinn í kosningar og það strax. Ef hann fær það svigrúm, þá verða kosningar fyrir næstu páska, alveg sama hvað samstarfsflokkar þeirra vilja.
VG eru hins vegar svo heppin að þau eru með landsfund eftir örfáa daga og þar geta þau bæði valið sér nýja forystu og skýra stefnu. Ætla þau að gera það? Þora þau að gera það? Eru þau fær um að gera það? Eða ætlar flokkurinn að eyða orku sinni í að malla enn eitt orðasalatið og bera það fram í rauðri skál með grænu káli sem komið er fram yfir síðasta söludag?
Athugasemdir (2)