Verk listamannsins Odee – öðru nafni Odds Eysteins Friðrikssonar – heldur áfram að tendra spurningar af bæði listrænum og lögfræðilegum toga.
Myndlistarmaðurinn Ragnar Kjartansson hefur gefið út stuðningsyfirlýsingu þar sem hann segir það sorglegt að sjá eins stórt fyrirtæki og Samherja sýna annan eins skort á húmor og um leið vanvirðingu fyrir listrænu frelsi. Neyðarlegt sé að horfa upp á Samherja saka íslenskan listamann um það að hafa ófrægt orðspor fyrirtækisins með listaverkinu „We‘re SORRY“ og stefnt honum fyrir rétt í Bretlandi.
„Augljóslega er þetta listaverk,“ skrifar Ragnar. „Odee gerir óhefðbundið en marglaga og pólitískt verk í raunheimi dagsins; internetinu, sem vanalega er stjórnað af spunameisturum fyrirtækja.“
Ragnar hefur nú skorað á Samherja að láta kærur gagnvart Odee niður falla.
„Áhugavert, löglistfræðilegt álitamál“
Sjálfur hefur listamaðurinn sagt: „Þetta er liststefna sem heitir menningarbrengl eða culture jamming. Heimsþekktir listamenn hafa unnið eftir þessari listrænu stefnu, eins og Banksy, The Yes Men og Nadia Plesner. Hún gengur út á að taka yfir eða breyta samskiptum fyrirtækja eða stofnanna. Til þess að skapa nýja tjáningu sem listamaðurinn stýrir.“
En fleiri velta þessu fyrir sér og á Facebook-síðu sinni skrifar rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson færslu þar sem hann segir meðal annars: „ ... Er listaverk veruleiki? Er listaverk ekki í eðli sínu alltaf skrök? Skrök sem færir fram sannleikann? Ef ég skrifaði í ljóði eða skáldsögu að Samherji hefði beðið namibísku þjóðina afsökunar myndi það sennilega ekki hafa neinar aðrar afleiðingar en þeir fáu sem læsu ypptu öxlum og segðu: „Það er gállinn á honum í dag, blessuðu skáldinu“ en þegar Odee útfærir hugmynd sína svo nákvæmlega er spurning hvort hann fer yfir mörk listaverksins og inn á svið veruleikans. Þetta er sem sagt áhugavert, löglistfræðilegt álitamál. Skyldu ekki vera til listlögfræðingar?“ spyr Guðmundur Andri.
„Leikhúsið hefur nú líka heldur betur staðið sig í slíkum „hrekkjum” í gegnum tíðina. Allt of lítið þegar við erum södd og rík.“
Hvað er list?
Í umræðum sem þar hafa skapast virðist sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason ekki vera á þeim skónum að um sé að ræða list en hann skrifar í athugasemd: „Ég veit ekki hversu gagnlegt, viturlegt eða djúpt er að kalla alla mögulega hluti list – reyndar virðist myndlistin sérstaklega ofurseld þessu. (Mér finnst hún alltaf skemmtileg sagan af safnstjóranum sem hætti störfum í örvinglan af því hann skildi ekki lengur hvað taldist list – hún er sönn.) Þetta er hrekkur - það sem kallast á ensku prank – kannski ágætlega heppnaður. En spurning hvort breski dómstóllinn taki það að sér að úrskurða hvað er list?”
Lögmaðurinn, leikkonan og fyrrum þingmaðurinn, Helga Vala Helgadóttir, svara honum þá: „Leikhúsið hefur nú líka heldur betur staðið sig í slíkum „hrekkjum” í gegnum tíðina. Allt of lítið þegar við erum södd og rík en þeim mun meira þar sem pólitísk og samfélagsleg ólga kraumar, hvort sem um er að ræða Shakespeare eða Þorleif Örn og Mikka Torfa svo einföld dæmi séu tekin.”
„Ég veit ekki hversu gagnlegt, viturlegt eða djúpt er að kalla alla mögulega hluti list.”
Listrænt frelsi mikilvægt fyrir lýðræðið
Nýlega barst sú frétt að 27 alþjóðleg og leiðandi samtök fyrir vernd fyrir uppljóstrara kalli nú eftir því að Samherji, sem samtökin kalla eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Evrópu, felli niður málið gegn listamanninum.
Í bréfinu er lögð áhersla á mikilvægi listræns frelsis fyrir heilbrigði lýðræðisins.
Samtökin kalla eftir að eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Evrópu felli niður málið gegn listamanninum. Samtökin linka á bréf á vef sínum sem má vitna í og birta snemma á morgun og styðja þar Odee og listrænt frelsi hans til tjáningar – sem geri okkur kleift að íhuga og kanna siðferðislegt val okkar en um leið skilja hvernig vald virkar og hefur áhrif á okkur, hvort sem það er pólitískt, félagslegt eða efnahagslegt.
Lögð er áhersla á sameiginlegan grundvöll uppljóstrara og listamanna hvað varðar mikilvægi þess að lýsa upp sannleikann og afhjúpa í þágu almannaheilla. Þá er spurt hvort þessar aðgerðir séu við hæfi eða tilraun til að þagga niður í þeim sem tali gegn spillingu. Í bréfinu er meðal annars minnt á dómsmálið í Namibíu og það að tíu grunaðir hafi verið ákærðir, þar á meðal fyrrum dómsmálaráðherra og fyrrum sjávarútvegsráðherra. Og nefnt að rannsókn á starfsemi Samherja standi enn yfir á Íslandi.
„Listin sjálf er fyrir rétti.”
Þess má geta að lögmenn Samherja virðast hafa aðrar hugmyndir um list af þessum orðum pistlahöfundar Heimildarinnar að dæma en Sif Sigmarsdóttir sat í dómssalnum um daginn þegar málið var tekið fyrir og sagði í viðtali við Heimildina: „Oddur lýsir því sem „hringleikahúsi fáránleikans“ að sitja í breskum réttarsal í einhvers konar „ritrýni“ um eigið verk. Í tilraun til að sýna fram á að heimasíðan, sem var hluti af verki Odds, væri ekki list lásu lögmenn Samherja upp skilgreiningu Ensku orðabókarinnar á list. Oddur velti fyrir sér hversu gáfulega skilgreiningu hann fyndi þar um orðið „lögfræði“.“
Í umfjöllun The Art Newspaper um málið er vitnað í Andra Matei, lögfræðilegan ráðgjafa listamannsins sem ver sig sjálfur. Þar segir hún: „Listin sjálf er fyrir rétti.”
Þess má geta að bæðið Bandalag íslenskra listamanna og Samband íslenskra myndlistarmanna hafa sent út eindregnar stuðningsyfilýsingar við listamanninn og verk hans. Hér má sjá yfirlýsingu frá Sambandi íslenskra listamanna til stuðnings listamanninum. Og hér er að finna yfirlýsingu Bandalags íslenskra listamanna.
Svo er hitt að það er áhugavert að "enski bötlerinn" (hér í líki lögfræðinga) lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna þegar kemur af meintum óþrifum og bjarga þarf hagsmunum eða heiðri húsbænda sinna og beitir hinum óvönduðustu meðulum ef svo ber undir við hreinsunarstarfið, enda er ómakinu síðan lokað með feitum reikningi.
Um slík atvik og fyrirbæri má lesa í áhugaverðri bók Olivers Bullough, sem kom út í fyrra og fjallar um hvernig Bretland varð þjónustumiðstöð fyrir auðjöfra, skattsvikara, þjófræði og glæpamenn.
Veit ekki hvort hann Marcel Duchamp hefði litið upp frá skákinni.