Ídesember árið 2022 samþykkti ríkisstjórnin tillögu Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um að skipa starfshóp sem myndi vinna að gerð nýrrar aðgerðaáætlunar gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Hópinn átti að stofna vorið 2023 og aðgerðaráætlun hans átti að leggja fram á Alþingi sem þingsályktunartillögu vorið 2024.
Síðan hefur ekkert spurst til þessa starfshóps. Hvorki um skipun hans né afurðir.
Mikið hefur verið rætt um aukið ofbeldi í íslensku samfélagi undanfarið. Varð það einkum í kjölfar hnífaárásar sem dró 17 ára stúlku til dauða á Menningarnótt – en hnífaburður og ofbeldi meðal ungmenna hefur færst mikið í aukana. Nýverið hefur ríkisstjórnin, forseti Íslands auk fjölmargra annarra kallað eftir þjóðarátaki gegn ofbeldisbrotum barna.
Í svari frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu við fyrirspurn Heimildarinnar segir að tekin hafi verið ákvörðun með að bíða með stofnun starfshópsins „í ljósi þess að á vegum stjórnvalda var þegar verið að vinna að margvíslegum aðgerðum gegn ofbeldi, auk þess sem aðrar aðgerðaáætlanir tengdar ofbeldi voru enn í gildi.“
Í því samhengi er minnst á aðgerðaáaætlanir svo sem þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, en í þeirri ályktun er áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021-2025.
„Ráðuneytið telur að fyrirhuguðum verkefnum þess starfshóps sem spurt er um hafi því að stöddu verið fundinn annar farvegur“
Enn fremur var starfshópur starfandi sem skoðaði og lagði mat á hvaða laga- og reglugerðabreytinga væri þörf á í tengslum við þjónustu vegna ofbeldis. Var það út frá samningi Evrópuráðsins (Istanbúl-samningurinn) um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi.
Auk þess hafði verið skipaður starfshópur til að vinna að landsáætlun um innleiðingu Istanbúl-samningsins um ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.
„Talið var rétt að þessum verkefnum og öðrum yrði fylgt úr hlaði og mat lagt á framvindu þeirra áður en hafist yrði handa við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar,“ segir í svari ráðuneytisins.
Fjölmörg verkefni studd
Þá er tekið fram að í dag sé unnið að margvíslegum aðgerðum tengdum ofbeldi vítt og breitt um stjórnkerfið. Til dæmis sé einn liður í nýkynntri áætlun um aðgerðir vegna ofbeldis meðal barna og gegn börnum að samhæfa aðgerðir gegn ofbeldi og móta stefnu til framtíðar. „Ráðuneytið telur að fyrirhuguðum verkefnum þess starfshóps sem spurt er um hafi því að stöddu verið fundinn annar farvegur.“
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið segist síðustu ár hafa komið að fjölmörgum verkefnum sem miði að því að draga úr ofbeldi í samfélaginu og bregðast við afleiðingum þess.
„Ráðuneytið gerði samkomulag við Ríkislögreglustjóra um frekari þróun á svæðisbundnu samstarfi um aðgerðir gegn ofbeldi meðal lykilaðila á hverju landssvæði þ.m.t. félagsþjónustu, sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, barnaverndaryfirvalda, lögreglu, heilbrigðisþjónustu og skólastjórnenda. Sú vinna stendur enn yfir og á flestum landssvæðum hefur verið skrifað undir samstarfsyfirlýsingu um svæðisbundið samráð gegn ofbeldi,“ segir í svarinu.
Þá hafi ríkislögreglustjóra einnig verið veitt fjárframlag til þess að halda fyrsta landssamráðsfundinn um aðgerðir gegn ofbeldi. Þema fundarins hafi verið ofbeldi meðal barna og ungmenna og þverfaglegt samráð gegn heimilis-, kynferðis-, og kynbundnu ofbeldi.
Ráðuneytið hafi lengi stutt við frjáls félagasamtök og aðra sem veita þjónustu vegna ofbeldis, til dæmis Bjarkarhlíð, Stígamót og Samtök um kvennaathvarf á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi. Árið 2023 hafi verið auglýst sérstaklega eftir umsóknum um styrki til verkefna til að takast á við ofbeldi. Enn fremur hafi um árabil verið gerður samningur við Heimilisfrið sem veitir þjónustu við fólk sem beitir ofbeldi í nánum samböndum.
Frumvarp á þingmálaskrá vetrarins
Í svarinu er enn fremur tekið fram að í heimsfaraldrinum hafi fjölmörg verkefni verið sett á laggirnar af aðgerðarteymi gegn ofbeldi. Áhersla hafi verið lögð á verkefni sem yrðu fest í sessi til framtíðar.
„Má þar nefna að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var studd til að ráðast í markvissar aðgerðir til að vinna gegn stafrænu kynferðislegu ofbeldi gegn börnum og ungmennum, auk þess að fá stuðning til að sinna auknum forvörnum og stuðningi við börn í viðkvæmri stöðu til að draga úr líkum á ofbeldisbrotum þeirra.“
Að lokum sé frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem byggi á tillögum starfshópsins um þjónustu vegna ofbeldis út frá Istanbúl-samningnum, á þingmálaskrá vetrarins.
„Um er að ræða frumvarp um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga (aðgerðir gegn ofbeldi) í þeim tilgangi að skýra ábyrgð og hlutverk opinberra aðila þegar kemur að stuðningi og vernd fyrir þolendur ofbeldis og meðferðarúrræðum fyrir gerendur,“ segir í svari félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.
Athugasemdir