Sem vill þér jafnan vel.
Hvers virði er allt heimsins prjál
ef það er enginn hér
sem stendur kyrr
er aðrir hverfa á braut.
Sem vill þér jafnan vel
og deilir með þér gleði og sorg
þá áttu minna en ekki neitt
ef þú átt engan vin.
Ég er svo heppin að eiga vini þar sem þetta stórkostlega lag Gunnars Þórðarsonar með frábærum texta Ólafs Hauks Símonarsonar er öskursungið á góðum stundum.
Sú lína sem mér finnst fallegust er „sem vill þér jafnan vel“. Hvað er fallegra en að eiga að fólk sem vill manni jafnan vel?
Ég hef frá unga aldri verið þeirrar skoðunar að fólk sé almennt gott og vilji öðrum vel. Það var grunnstef í mínu uppeldi og gott veganesti.
Þessi grunntrú mín hefur styrkst til muna undanfarin ár eftir að hafa lent í missi og sorg og svo að fara af stað með Bergið headspace. Ég hef fundið á eigin skinni hvernig það er að fá slíkan stuðning og gleðina sem fylgir því þegar allir standa saman.
Manneskjur eru nefnilega hópdýr, við þurfum að upplifa að við tilheyrum og að við höfum tilgang. Það er einfaldlega skrifað í okkar DNA, ef við tilheyrum ekki hóp þá deyjum við.
Það er stundum sagt að það þurfi þorp til að ala upp börn en ég hef komist að þeirri niðurstöðu að þorpið er ekki bara til þess, það er líka til að styðja við foreldra, til að styðja við fólk sem er veikt, til að gefa öldruðum tilgang, til að næra og skemmta fólki með listum, til að eiga góðar stundir, til að halda utan um hvert annað. Alvöruþorp lætur engan verða útundan, lætur engan deyja einan, í þorpinu sér fólk um hvað annað.
Alveg sama hvað við gerum, hver við erum, hvaðan við komum og hvað við getum. Við getum öll lagt okkar inn í þorpið. Í sammannlega þorpinu eigum við öll tilverurétt, við eigum öll rétt á öryggi, á því að geta lagt okkar af mörkum hvað sem það er.
Þegar þjóðin syrgir saman, þegar þjóðin tekur þátt í þjóðarátaki, þegar hópar spretta upp til að hjálpa fólki, finna föt, mat og húsaskjól fyrir þá sem það missa. Við höfum ótal dæmi um slík verkefni, Grindavík, flóttamenn frá Úkraínu, öll þessi félagasamtök sem gera gott fyrir fólk og svo margt fleira. Við erum á slíkum stað núna eftir áföll síðustu vikna en samt finnst mér eins og við megum ekki gleyma okkur og gleyma þorpinu.
Það er nefnilega þannig að við getum villst af leið, förum að finna það sem aðskilur okkur, förum að öskra í stað þess að hlusta, dettum í neyslu í stað þess að taka þátt, dæmum aðra í stað þess að sýna skilning.
Það sem eitrar er einangrun og fjarlægð, einstaklingshyggja, við og hinir-hugsunarháttur og að láta eins og „kerfið“ eigi að geta leyst öll vandamál. Því kerfið er mannanna verk og byggt á ákvörðunum okkar.
Í tæknivæddu nútímasamfélagi þurfum við að finna aðrar leiðir og til að viðhalda þessu þorpi okkar en hægt er í smærri samfélögum. Ef við göngum út frá þeirri grunnforsendu að vilja jafnan öðrum vel þá getum við fundið leiðirnar í flóknum heimi. Það er sérstaklega mikilvægt á Íslandi í dag þar sem þorpið okkar er að víkka út með nýjum íbúum sem ekki hafa deilt þorpinu okkar alltaf.
En ég trúi því að þegar við virkum sem samfélag, þegar fólk kemur saman og gefur öðrum af sér, þegar við deilum taugakerfum, þá getum við allt.
En hvað hef ég lært sjálf á mínum 52 árum?
Ég hef lært í gegnum Bergið að það að hlusta, raunverulega hlusta, er ótrúlega magnað og getur haft svo mögnuð áhrif á fólk. Svo lærir maður líka svo mikið á því.
Ég hef líka lært að taka áhættur, að ef maður er með þorp í kringum sig verður maður gripinn.
Ég hef lært að ég get breyst og breytt stefnunni í lífinu, að ég get átt mörg líf með öllum þeim lærdómi sem því fylgir.
Það sem ég hef lært er að þó að það versta í heiminum komi fyrir mann þá heldur maður áfram að vera til, maður andar og hugsar og elskar og virkar. Við komumst ekki í gegnum lífið án sorgar en við getum lifað góðu lífi með sorginni, það er ef við höfum þorpið okkar með okkur.
Ég hef lært að vera mannleg, ég er ekki alltaf fullkomin. Ég hlusta ekki alltaf á börnin mín, ég hef sært fólk ómeðvitað, ég hneykslast, ég hegða mér heldur ekki alltaf vel, borða allt of mikið súkkulaði og dett í hámhorf á lélegar raunveruleikaseríur svo eitthvað sé nefnt.
En ég er mannleg með öllu sem því fylgir, ég er alltaf að reyna að bæta mig og svo er ég að reyna að ástunda sjálfsumhyggju sem hjálpar.
Niðurstaðan mín er þessi. Við erum manneskjur með þeim kostum og göllum sem því fylgir, en ef við höldum í þá grunntrú að fólk vilji manni vel og með því að vilja öðrum vel, þá komumst við í gegnum þetta blessaða líf.
Saman.
Athugasemdir (1)