Í september árið 2014, fyrir nákvæmlega tíu árum, steig níutíu og eins árs ellilífeyrisþegi í pontu á flokksráðsfundi breska Verkamannaflokksins. „Ég kom í heiminn á því herrans ári 1923,“ sagði Harry Smith, sem barðist í breska hernum í síðari heimsstyrjöldinni. „Æska mín, rétt eins og æska flestra annarra á þessum tíma, var ekki að neinu leyti eins og þáttur í Downton Abbey. Þetta voru grimmúðlegir tímar, frumstæðir tímar.“ Og hvers vegna voru þessir tímar svona grimmúðlegir samkvæmt Harry? „Vegna þess að heilsugæsla fyrir almenning var ekki til.“
Fyrstu minningar Harrys voru annars vegar af hungri og hins vegar skilyrðislausri ást foreldra hans. Hann sagðist enn finna í hjarta sér örvæntingu foreldra sinna sem reyndu allt sem þau gátu til að búa börnum sínum öryggi og tryggja þeim heilsu. En aðstæður voru þeim ekki hliðhollar. Almennir sjúkdómar héldu tilvist fólks í heljargreipum og „slökktu ítrekað með köldum andardrætti hlýjan loga lífsins“.
„Ég man enn eftir að hafa verið úti að leika sem drengur og heyrt sársaukavein berast út um glugga í götunni. Þetta voru óp nágrannakonu sem dó hægum dauða úr krabbameini og átti ekki fyrir morfíni til að lina þjáningarnar við brotthvarf sitt úr veröldinni.“
Ekki leið á löngu uns „kaldur andardrátturinn“ smaug inn á heimili Harrys. Þegar systir hans smitaðist af berklum hafði fjölskyldan ekki ráð á að greiða fyrir læknisþjónustu. „Við horfðum upp á hana veslast upp uns umönnun hennar var orðin móður okkar um megn,“ sagði Harry. „Þá var hún send á sjúkrahúsið í vinnuhælinu þar sem hún dó.“ Jarðneskum leifum hennar var hent í ómerkta fátækragröf.
Að gráta út tíma
Hin áratuga gamla ræða Harry Smith, sem fangar horfinn heim, kom mér til hugar þegar ég las reynslusögu íslenskra mæðgna af bráðamóttöku Landspítalans.
Kristín Guðmundsdóttir handboltakona sagði nýverið í færslu á Facebook frá raunum sínum og átján ára dóttur sinnar, Emblu.
Í byrjun ágúst héldu mæðgurnar í sex daga ferð til New York. Í ferðinni veiktist Embla og við heimkomuna til Íslands var Embla orðin fárveik.
Aðgengi að læknisþjónustu var þó ekki auðsótt. Kristín þurfti að „gráta það út“ að Embla fengi tíma hjá heimilislækni.
Þegar á heilsugæsluna var komið sá læknirinn strax að Embla var mikið veik. Hann kvað hana líklega þjást af lungnabólgu og sagði þeim að fara beint niður á bráðamóttöku. Hann skrifaði beiðni þar sem þess var óskað að Embla yrði tekin strax inn.
Sú varð þó ekki raunin. Í þrjár klukkustundir lá Embla rænulítil á gólfi biðstofu bráðamóttökunnar. Þegar Kristín leitaði til hjúkrunarfræðings, sem hafði það hlutverk að forgangsraða sjúklingunum, og spurði hvort hún væri búin að lesa beiðnina frá lækninum svaraði hjúkrunarfræðingurinn að sögn Kristínar því til að hún hefði „engan tíma í að skoða beiðnir“.
Þegar röðin kom loks að Emblu tók ekki betra við. Embla var geymd í rúmi frammi á gangi. Í kjölfar þess að hún var formlega greind með lungnabólgu gleymdist að gefa henni mikilvæg lyf. Einnig láðist að gefa henni súrefni. Þegar leggja átti Emblu inn reyndust engin rúm laus á spítalanum. Á bráðamóttökunni deildi hún stofu með meira en tíu öðrum sjúklingum þar sem hún lá „ofan í manni sem var alkóhólisti“ og vildi ekki fara að sofa og vissi ekki hvar hann var staddur. Það var ekki fyrr en Emblu var boðið að leggjast inn á Barnaspítala Hringsins eftir tveggja sólarhringa bið á bráðamóttökunni að sá fyrir endann á raunum hennar.
Framtíð ykkar, fortíð mín
Saga Kristínar og Emblu er ekki einsdæmi. Árum saman hafa heyrst sambærilegar frásagnir af ófremdarástandi á bráðamóttökunni.
„Við megum aldrei hætta að passa upp á heilbrigðiskerfið okkar,“ sagði Harry Smith í lok ræðu sinnar um aldargamlan veruleika. „Ef við gerum það verður framtíð ykkar fortíð mín.“
Samtími okkar er sem betur fer ekki fortíð Harrys. En viljum við að samtíminn sé framtíðin? Hvenær fáum við okkur fullsödd af ástandi sem veldur því að sjúklingar liggja sárþjáðir á gólfi og göngum bráðamóttökunnar?
Í kjörklefanum getur almennigur kosið flokk/fólk sem hefur fólk í fyrirúmi á sínum stenuskrám.
Eða gert eins og venjulega kosið elítuna sem treður á almenning.
Ykkar er valið.