Lögreglan fer sífellt oftar vopnuð í útköll. Aukningin er áberandi mikil á milli ára þegar kemur að almennri lögreglu, en fjöldi vopnaðra útkalla á þeim bænum stökk úr 86 árið 2022 í 180 árið 2023. Fjöldi slíkra útkalla var einungis 57 árið 2021.
Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata.
Björn Leví spurði bæði um almenna lögreglu og sérsveitina en síðan árið 2021 hafa sérsveitarmenn ávallt verið vopnaðir við störf. Slíkum útköllum hefur fjölgað verulega á síðustu árum, farið úr 438 árið 2021 og upp í 644 í fyrra.
Sérsveitarmennirnir fóru ekki einungis í útköll vegna tilkynninga um vopnaða einstaklinga. 461 af tilkynningunum 644 í fyrra voru af þeim orsökum en í ríflega 200 tilvikanna var ekki tilkynnt um vopnaburð.
„Þegar um er að ræða að sérsveit vopnast vegna útkalls þar sem ekki er grunur um vopn á vettvangi, getur t.d. verið um að ræða sérstaklega hættulega brotamenn eða alvarlegar hótanir,“ segir í svari Guðrúnar.
Þegar kemur að vopnatilkynningum til sérsveitar var í fyrra oftast um að ræða egg- eða stunguvopn, eða í 361 tilviki. Þá var tilkynnt um skotvopn 87 sinnum og 79 sinnum um önnur vopn.
Athugasemdir