Svo mælti kór öldunga í gríska borgríkinu Þebu einu sinni:
„Margt er undrið og mun þó víst
maðurinn sjálfur undur stærst.“
Þannig þýddi Helgi Hálfdanarson alþekkta fullyrðingu öldunganna sem sett er fram í harmleiknum Antígónu sem Sófókles skrifaði á fimmtu öld FT, eða fyrir um 2.500 árum. Næst skyldi maður ætla að öldungarnir legðu út af orðum sínum með því að draga upp af því hve djúphugull maðurinn sé, ástríðumikill í anda, eldmóðugur í list sinni og sköpun.
En málið snýst ekki alveg um það hjá öldungunum. Sönnun þess hvílíkt undraverk maðurinn sé er hve miklu og algjöru valdi hann hefur náð yfir náttúrunni. Því kórinn heldur áfram svo:
„Þar sem ólgandi hrímgrátt haf
hrannast úfið í vetrarbyl
ristir hann kembdan kólguskafl
kili traustum á viðsjálsleið.
Móður guðanna, gömlu Jörð,
gróskuríka svo aldrei þverr,
markar hann sér til sáðs hvert vor,
svörðinn skárar með plógi og klár.“
Athugasemdir