Hvað sérðu aftur við og við skrifað á skiltum?
Öllum óviðkomandi bannaður aðgangur.
Ég hef lært að sum augnablik geta verið þér hinar dýrmætustu vörður, en það er þó eins og sé einhver helgur hvítagaldur umvafinn þessar vörður sem gerir að verkum að þær verða helst ekki nefndar.
Þannig virðast mér sum augnablik, upplifanir.
Ef ég hef orð á þeim er sem rof hafi orðið á sáttmála, sum augnablik eru svo heilög.
Kannski kannast þú við þetta í eigin lífi.
Reynirðu að hafa orð á því finnurðu fyrir takmörkunum okkar allra; sumt verður ekki fært alveg í orð og sumt er okkur kannski ekki ætlað að færa í orð. Og takist þér að hafa orð á slíkri upplifun þá gætir þú grátið og það gæti verið yfirþyrmandi en það er ekki beinlínis sárt, eða, þessi sársauki er allavega undur, því það er eins og opnist á ljósglugga innra með þér. Hefurðu séð hvernig ljós sem skín í gegnum glugga getur lýst upp flögrandi rykagnirnar, nokkuð sem þú hefðir aldrei annars komið auga á?
Hvað ætli sé margt þátttakandi í dögunum okkar sem við könnumst sjaldnast við?
Taktu eftir því, þegar þú hefur deilt slíkri upplifun með öðrum, að þó þú þekkir fólkið ekki endilega vel þá hefur skapast í augnaráði ykkar á milli djúpur gagnkvæmur skilningur.
Þið hafið deilt nokkru sem hefur skerpt sýn ykkar á eigin mennsku og annarra.
Ég hef velt því fyrir mér hvers vegna Kristur í guðspjöllunum segir fólki stundum að hafa ekki orð á því hvað skeð hafi, þegar kraftaverkin gerast. Kannski á ég eftir að læra að þetta tengist allt saman, þó á stundum séu augnablik sem verða aldrei orðuð ekki augnablik kraftaverkanna, heldur sársaukans mikla.
Þar er það geta manneskjunnar til að rúma sársaukann mikla sem getur orðið að kraftaverki.
Sumt er ekki hægt að umbera en einhvern veginn verður. Þá ættum við ekki að vanmeta getu hjartans til að rúma sorg. Hve mörg eru þau sem við höfum mætt, sem hafa lifað af visku og frá innsta kærleika, vaxið áfram utan um hið óhugsandi? Yfirleitt án þess að við áttum okkur á því.
Hér tala ég um að sumt verði ekki fært í orð og að, eins og með svo margt, kannski sé það besta sem við getum gert að sleppa takinu af því að reyna það.
„Það er hægt að vera þögla sterka týpan og það er hægt að vera þögla beyglaða týpan“
Ég hef lært að þó sumt verði kannski aldrei orðað, er mikilvægt að bæla ekki reynsluna niður því það þarf að finna henni farveg. Svo margt í reynsluheimi okkar myndum við ekki velja okkur. Þó við eigum ekki um allt val hef ég lært að við getum sannlega haft áhrif á hvernig við vinnum með reynsluna sem við fáum í fangið. Tilveran er ekki eitt heldur margt og langoftast samtímis. Orð geta verið til alls fyrst og „You say it best, when you say nothing at all.“ Það er hægt að vera þögla sterka týpan og það er hægt að vera þögla beyglaða týpan.
Ég hef lært að hér reynir á getu manneskjunnar til að rúma ,,bæði og“ í stað „annaðhvort eða“.
Ég er brotinn og ég er heill.
Kristinn mannsskilningur gefur áfram þessa sýn á manneskjuna, við erum syndug og við erum réttlát og dauði og upprisa er sá veruleiki sem okkur er gefinn með móðurmjólkinni.
Í því er hvorki að finna niðurlægingu né upphafningu, heldur viðleitni til að finna fótum okkar stað á heilagri jörðinni á sama tíma og við horfum til himins. Að rúma slíka dýnamík reynist smellubeitu-skyndibita samfélagi erfitt.
Ég hef lært að manneskja sem horfir aðeins til himins fær hálsríg, það er verkurinn sem kemur þegar gleymist að við mætum Guði í augum barnsins. Til að ná augnsambandi við barnið þarf stundum að beygja sig og krjúpa, ég held að það kallist auðmýkt.
Ég hef lært að lífið vonar fyrir okkur að við séum auðmjúk frammi fyrir sjálfum okkur og að ein besta leiðin til þess sé að láta sig hafa það að hafa svolítinn húmor fyrir sjálfum sér.
Ég hef lært að það hjálpar mér að leitast við að vera fyrri til að hafa húmor fyrir sjálfum mér, því ég get hrokkið í svo mikla vörn og orðið tapsár ef einhver hefur húmor fyrir mér áður en ég kemst þangað sjálfur. Þetta mun vera eins og með ræktina; mæting er bæting.
Ég hef lært að lífið vonar fyrir okkur að við séum auðmjúk frammi fyrir sjálfum okkur, því þá getum við lært að vera ábyrg og vinna með vanköntum okkar, sem er ekki alveg jafn orkufrekt og að vinna stöðugt gegn þeim.
Því ég hef lært að ég losna ekki við þá trú að við séum öll kölluð til þjónustu.
Mismunur er á náðargjöfum, en andinn er hinn sami, skrifaði postulinn. Því hef ég lært að þjónusta okkar kann best við sig í sömu tóntegund og sál okkar.
Ég hef lært að förum við þann veg þá munum við mæta á leið okkar því dularfulla afli og undri sem lotning er.
Sú reynsla verður ekki svo auðveldlega færð í orð.
Athugasemdir (1)