Ég hef lært að ...
... lífið er súpa. Nær gúllasi reyndar (ekki gefast upp á mér strax). Dagarnir eru hræringur með óljósum innihaldsefnum; tilviljunum, stjórnleysi í ákveðni-dulbúningi og ógeðslega fallegri óreiðu. Hvernig er best að synda gegnum svona lífs-gúllas? Það hef ég ekki hugmynd um en hér er uppleggið að deila því sem ég hef lært og þá verð ég fjandakornið að koma með eitthvað sem hönd á festir.
„Eini lærdómurinn sem hefur skotið rótum er að lífið er stutt“
Upptalning á lexíum úr námi og starfi myndi endanlega granda athygli lesenda, svo við sleppum því. Svoleiðis þekking er þar að auki hverful og pottþétt úrelt. Eini lærdómurinn sem hefur skotið rótum er að lífið er stutt. Eiginlega alveg ömurlega stutt, tíminn tekur fram úr okkur um leið og við lærum að mæla hann og við fáum engan pásutakka, aldrei að spóla til baka. Og hvers virði er þessi eini lærdómur minn?
Hann kveikir meðvitund og brýnir smá lífsneista.
Ég glósaði nokkra punkta sem ég lærði í þessum skóla.
Lífið er (of) stutt listinn
Lífið er stutt, munum að:
-
sá kleinuhringjafræjum
-
segja hrósið upphátt, ekki bara hugsa
-
leyfa hundinum að sofa uppi í
-
elska þarmaflóruna eins og mömmu sína
-
eiga hæga morgna af og til
-
ef okkur langar að gera eitthvað, gerum það núna
-
pitsa er betri köld daginn eftir
-
tengsl eru allt
-
taka kaffi með í bílinn
-
leyfa iljum að snerta gras
-
það er mikilvægt að leika. Mikilvægara en við höldum.
-
segja takk
-
breytingar eru böggandi gull
-
setja smjör saman við grjónin
-
heilsa er stærsta gæfan
-
vera viðstödd
-
vera næs
Nokkrir bitar úr gúllasinu kólna eflaust áður en þetta fer í prent. En kannski gildir pitsulögmálið líka um gúllas, hver veit?
Ekki ég.
Gleðilegt sumar.
Athugasemdir