Ég hef alltaf lagt mikið upp úr því að fólki líki vel við mig. Kann illa við að rugga bátnum um of í samskiptum og finnst best ef allir eru bara næs. Sumir myndu kalla þetta ákveðna tegund af meðvirkni. Að vilja geðjast og jafnvel þóknast öðru fólki. En hingað til hefur mér þótt þetta ágætis kostur. Að lenda ekki upp á kant við fólk er töluvert einfaldara en að brenna brýr.
Ekki misskilja mig. Ég er með mjög sterkar skoðanir á allflestu. Og ég hef sannarlega tekist á við fólk um hin ýmsu mál. En þar gildir reglan um að hjóla í málið, ekki manninn. Ég hef gaman af því að rökræða málefni líðandi stundar og kippi mér lítið upp við það ef fólk er ósammála mér í einstaka málum. Þá getum við rætt þau og vonandi bæði lært eitthvað, því það að hlusta á ólík sjónarmið er mikilvægt og þroskandi. Ég legg mikið upp úr góðum samskiptum og vil frekar ræða hlutina en að vera með upphrópanir.
En svo gerist lífið og þá er eitt og annað sem hristir upp í þessu viðhorfi.
Því fleiri stór verkefni sem maður tekur að sér, því fleira fólk mun hafa á því skoðun. Því háværari sem maður er, því fleiri vilja þagga niður í manni. Þess vegna hefur það verið ákveðinn masókismi fyrir konu sem vill helst að öllum líki vel við sig að útsetja sig fyrir gagnrýni – jafnvel opinberri.
„Því háværari sem maður er, því fleiri vilja þagga niður í manni“
Ég hef árum saman talað opinberlega um þau baráttumál sem standa hjarta mínu næst. Þar eru málefni hinsegin fólks efst á baugi. Við María, konan mín, stofnuðum fræðsluvettvanginn Hinseginleikann fyrir átta árum og höfum haldið fyrirlestra um allt land auk þess sem ég hef stýrt samnefndum sjónvarpsþáttum. Við höfum haft það að leiðarljósi að fjölga fyrirmyndum hinsegin fólks í samfélaginu og brjóta niður staðalímyndir og algengar kreddur. Á þessu hefur ákveðinn hópur sterkar skoðanir.
Athyglissýki að trana sér svona fram til að tala um þessa öfugugga.
Á þetta ekki bara heima í svefnherberginu?
Það er nú bara ákveðin geðveiki að ætla að skilgreina sig svona og hinsegin.
Greyið börnin að eiga engan pabba.
Hán? Við erum að skemma íslenskuna.
Þetta setti mig úr jafnvægi til að byrja með. Hvernig getur fólk sem ég þekki ekki neitt haft svona sterkar skoðanir á mér og því sem ég stend fyrir? Ég er bara að segja að við eigum öll að fá að vera við sjálf. En því hærra sem við hrópuðum því minna námu eyrun hljóðin í þessum röddum. Þær urðu að fjarlægu suði sem hætti að hafa áhrif á okkur.
Ég hef sömuleiðis unnið hin ýmsu verkefni sem fela það í sér að fólk hefur á þeim skoðun; sjónvarpsþætti, hlaðvörp og tónlist svo eitthvað sé nefnt. Verkefni sem bókstaflega biðja um opinbera gagnrýni. Sem getur verið alls konar.
Stundum frábær.
Geggjaðir þættirnir þínir!
Hvenær kemur næsta lag?
Ætlið þið að byrja aftur með podcastið? Mér fannst það svo skemmtilegt!
Stundum ekki svo frábær.
Hvaða þvæla er þetta???
Þetta er nú ekki minn tebolli.
Jæja, heldur athyglissýkin áfram.
Og núna nýlega gaf ég út mína fyrstu skáldsögu, Ljósbrot. Eitthvað sem mig hefur lengi langað að gera en mögulega frestað óþarflega mikið af ótta við viðbrögð fólks. Til hvers að ákveða það sjálfviljug að opna á mér heilann og leyfa fólki að gægjast inn? Hvað ef það hatar það sem það sér?
„Ætla ég að sleppa því að gera það sem mig langar til því einhver sem ég þekki ekki gæti haft á því skoðun?“
Það er kannski einfaldara líf að geðjast og þóknast. Gera ekkert sem kallar á gagnrýni fólks. Vera ekki hávær heldur haga sér bara vel. Vera næs. Vera samviskusama stelpan sem ruggar ekki bátnum. En hvað verður þá um draumana? Ætlar einhver annar að lifa þá fyrir mig? Ætla ég að sleppa því að gera það sem mig langar til því einhver sem ég þekki ekki gæti haft á því skoðun?
Svarið mitt er nei. Ég ætla ekki að sleppa því sem mig langar að gera því Nonna úti í bæ gæti fundist það asnalegt. Og með því fylgir sú ákvörðun að hætta að reyna að þóknast öllum. Hætta að gera bara það sem töff fólki finnst töff. Hætta að láta hugmyndir annars fólks skilgreina fyrir mér hvað það er sem er sniðugt, skemmtilegt, flott, töff.
Þessu hefur fylgt ákveðin frelsun. Það munu ekki allir elska mig. Það mun ekki öllum finnast ég skemmtileg og sniðug, góður penni eða þáttastjórnandi.
Og vitið þið – það er bara allt í lagi. Ég veit hver ég er og fyrir hvað ég stend og ég er stolt af því. Það er nóg fyrir mig. Rétt eins og mér getur ekki mögulega líkað vel við allt fólk í heiminum, getur ekki öllu fólki í heiminum líkað vel við mig.
Til þín þarna úti: Það er allt í lagi að vera ekki allra. Eltu draumana þína. Gerðu það sem þig langar til að gera í stað þess að þjappa þér inn í eitthvert box því einhver annar gæti haft skoðun á þér eða því sem þig langar að gera. Þú munt gera mistök og það er allt í lagi. Þannig lærum við og vöxum. En við getum ekki verið okkar sannasta sjálf nema við sleppum tökunum og leyfum okkur að gera það sem okkur langar raunverulega að gera. Ég hvet þig til að gera nákvæmlega það. Þú ert ljós – láttu það skína.
P.S. Sumum mun finnast þú snilld! Ekki leyfa þeim sem finnst það ekki að slökkva ljósið þitt.
Athugasemdir (1)