„Við skulum gera okkur grein fyrir því að þessi ríkisstjórn sem heldur áfram að níðast á þegnunum hvern einasta dag og tekur í rauninni ekki utan um neitt nema þá sem þurfa ekki á hjálpinni að halda. Það er ríkisstjórn sem á fyrir löngu að vera búin að pakka saman og pilla sig,“ sagði Inga í upphafi þingfundar í morgun.
Starfsáætlun Alþingis hefur verið felld úr gildi en samkomulag um þinglok hefur ekki náðst. Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýna ríkisstjórnina fyrir óvissu um afgreiðslu og forgangsröðun mála. Inga segir ríkisstjórnina verkstola og vanhæfa í störfum sínum. „Við höfum ekki vitað það síðustu fjórar vikur hvort við erum að koma eða fara í þessum þingsal vegna þess að það logar allt stafnanna á milli í þessari ríkisstjórn. Innan gæsalappa,“ sagði Inga og hélt svo áfram: „Ég mun hrópa hallelúja uppi í Hallgrímskirkjuturni þegar þessi ríkisstjórn hefur lagt upp laupana og einhverjir aðrir hafa tekið við stjórnartaumunum sem vita hvernig þeir eiga að fara með allt samfélagið en ekki bara hluta af því.“
Ríkisstjórnin vinnur nú að því að koma sér saman um afgreiðslu mála fyrir þinglok og mun Alþingi starfa áfram í næstu viku. Þingmenn Miðflokksins íhuga að leggja fram vantraust á matvælaráðherra vegna ákvörðunar hennar um að leyfa hvalveiðar til eins árs.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hafi ekki farið að ráðleggingum sérfræðinga í ráðuneytinu heldur „spilað pólitískan leik þvert á lög og reglur.“ Bergþór spurði ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær hvað sérfræðingar ráðuneytisins höfðu ráðlagt henni að veita leyfi til hvalveiða í langan tíma. Bjarkey sagði að í sjálfu sér ráðlögðu þeir henni ekki að fara fram yfir tvö ár „sökum þess að veiðiráðgjöfin er þar til staðar“. Bergþór segir í samtali við Morgunblaðið að ráðherra hafi farið eins og köttur í kringum heitan graut í svari sínu.
Bergþór telur að vantrauststillagan, verði hún lögð fram, verði það á þriðjudag og vonast hann þá til að hún verði á dagskrá þingsins á miðvikudag.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, mun styðja vantrauststillögu Miðflokksins á matvælaráðherra, verði hún lögð fram. „Aðalatriðið er þetta: Ríkisstjórnin er ekki að ná utan um það verkefni að vinna fyrir fólkið í landinu,“ sagði Sigmar í störfum þingsins á upphafi þingfunar í dag.
Athugasemdir (3)