Það vekur mér ugg að lesa nær daglega um lögreglu sem fer offari í aðgerðum sínum, beitir valdi og hörku gegn almennum borgurum,“ sagði Jódís Skúladóttir, þingkona Vinstri grænna á þingfundi í dag.
Hún vísaði þar bæði til umdeildra aðgerða lögreglu í síðustu viku þegar lögreglumenn beittu piparúða gegn mótmælendum fyrir utan ríkisstjórnarfund og til dóms sem féll yfir lögreglunema í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Maðurinn var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi. Atvikið átti sér stað í maí í fyrra þegar lögregluneminn hafði afskipti af karlmanni í grennd við skemmtistað í Austurstræti. Hann beitti piparúða ítrekað gegn manninum jafnvel þó að hann hafi ekki veitt mótspyrnu við handtökuna. Lögregluneminn var jafnframt sakaður um að hafa sparkað í manninn þar sem hann lá, slegið hann með kylfu og ausið yfir hann fúkyrðum.
Athugasemdir