„Ég er svo umvafinn alls kyns þvaðri að ég vildi gjarnan að nokkrir vinir mínir og afkomendur fengju réttari hugmynd um mig sem mann,“ var ástæðan sem afi minn gaf fyrir útgáfu fjögurra binda sjálfsævisögu sinnar á sjötta áratugnum. Ég rakst á þessa tilvitnun hans um daginn og vegna óforskammarlegrar sjálfhverfu fór ég strax að hugsa um hvernig hugmynd ímyndaðir afkomendur mínir myndu hafa um mig í framtíðinni.
Ég hitti aldrei téðan afa þar sem hann lést fyrir fæðingu mína og er því ansi heppin að geta kynnst honum aðeins á þessum 1.600 blaðsíðum sem hann fyllti af lífi sínu. Það vill þó svo óheppilega til að ég mun ekki sýna meintum afkomendum mínum sömu tillitssemi, það verður engin ævisaga skrifuð um mitt líf, og hvað gera framtíðarkynslóðir þá? Hvernig mynda þau sér rétta hugmynd um mig?
„Verst er að ímynda sér þessa afkomendur kemba Facebook og grafa upp statusa frá árinu 2009, þegar ég hélt að allir vildu fylgjast með framgangi mínum í hamborgarabindindi.“
Einfalt, þau googla það bara. Eflaust mun leitin skila sér í nokkuð bjagaðri hugmynd, byggðri á Instagram sjálfum og misfyndnum tístum, verst er að ímynda sér þessa afkomendur kemba Facebook og grafa upp statusa frá árinu 2009, þegar ég hélt að allir vildu fylgjast með framgangi mínum í hamborgarabindindi. Það er nógu neyðarlegt að fá árlega áminningu frá Facebook fyrir dómgreindarbresti sína án þess að sjá fyrir sér að þeir muni nýtast sem framtíðarheimild um persónuleika manns og skoðanir.
Facebook er nú þegar notað til að minnast þeirra sem hafa kvatt þennan heim, mögulega verður síðan einn daginn einhvers konar stafrænn kirkjugarður, þar sem hægt er að skrolla í gegnum minningar löngu liðins fólks og sjá hvernig það upplifði líðandi stundir.
Kannski verða barnabörnin okkar í sögutíma í skólanum, að læra um hvað var í gangi árið 2024, kannski hugsa þau, hvernig gat þetta gerst? og því næst; hvað ætli amma hafi verið að gera þarna? Þau þurfa líklega ekki að velta því neitt sérstaklega fyrir sér, fletta því bara upp. Sjá það svart á hvítu. Hvað ætli þau finni?
Við vitum ekki hvernig sú umræða og þróun mun breyta netheimum en það getur vel verið að barnabörnin þín fái upp í mesta lagi þessa grein hér í Heimildinni en ekkert meir.