Á undanförnum árum hefur þeim heimilum sem kaupa sjónvarpsþjónustu yfir svokallað IP-net, þar sem sjónvarpsútsendingu og annarri þjónustu er miðlað í gegnum myndlykla sem leigðir eru af fjarskiptafyrirtækjum, fækkað mikið. Frá byrjun árs 2018 og fram til loka árs 2022 fækkaði þeim til að mynda um 21.186, eða um 21 prósent. Á sama tíma fjölgaði landsmönnum um ellefu prósent.
Í fyrra varð breyting á þessari þróun. Samkvæmt nýlega birtri tölfræðiskýrslu Fjarskiptastofu um íslenska fjarskiptamarkaðinn á árinu 2023 stóð fjöldi áskrifenda með sjónvarp yfir IP-net nánast í stað og var 79.316 í lok þess árs. Það eru 651 færri en ári áður.
Tvö fyrirtæki bjóða upp á myndlykla til að horfa á sjónvarp yfir IP-net, Síminn og Vodafone, sem er hluti af Sýnarsamstæðunni. Áskrifendum Símans fækkaði í fyrra og markaðshlutdeild fyrirtækisins á þessum markaði lækkaði um rúm tvö prósentustig, niður í 58,1 prósent. Áskrifendum Vodafone fjölgaði að sama skapi um 1.422 milli ára.
Ástæða þess að myndlyklunum hefur fækkað er sú að sífellt fleiri taka sjónvarpsþjónustuna sína í gegnum öpp, sem annaðhvort eru innbyggð í nettengd sjónvörp eða hægt er að nálgast í gegnum utanáliggjandi tæki, eins og til dæmis Apple TV eða sambærileg Android-box. Með þeirri leið er hægt að nálgast ýmsar erlendar streymisveitur sem starfa á Íslandi á borð við Netflix, Amazon Prime, Viaplay og Disney+. Síminn, Sýn/Vodafone og Nova bjóða einnig upp á sjónvarpsþjónustuöpp sem hægt er að hlaða niður án endurgjalds, bæði fyrir Apple og Android tæki, en þó ekki öll.
Athugasemdir