Skoðanakannanir gefa til kynna, að aðeins Katrín Jakobsdóttir og/eða Halla Hrund hafi raunverulega möguleika á að ná kjöri. Reyndar virðist Katrín vera komin með umtalsvert forskot, í bili, enda studd dyggilega af stjórnmálamönnum, valdastétt og kapítali.
Vandræði þeirra kjósenda, sem vilja frjálsan og hlutlausan kandídat í forsetaembættið, er, að á þessu stigi dreifast atkvæði þeirra á Höllu Hrund, Baldur, Höllu Tómasdóttur og Jón Gnarr; á 4 frambjóðendur. Skv. síðustu skoðanakönnun, hafa þessir 4 frambjóðendur samtals nær tvo þriðju af fylginu, en enginn meira en tæp 20%, á sama tíma og Katrín er með 27%.
Ef frjálsir kjósendur, sem vilja forseta þjóðarinnar, ekki valdsins, greiða atkvæði með sama hætti á kjördag, og þeir hafa tjáð sig í skoðanakönnunum, eru þeir ekki að kjósa sinn frambjóðanda, heldur Katrínu!! Með þeim hætti féllu atkvæði þeirra allra dautt. Tveir þriðju kjósenda hefðu ekkert að segja. Rúmur fjórðungur atkvæða þeirra, sem hafa völdin og vilja halda þeim óskertum, nú í gegnum Katrínu, myndu standa uppi sem glaðhlakkalegir sigurvegarar.
Ógæfan í þessu máli er sú, að Halla Tómasdóttir hefur sótt fram á kostnað nöfnu sinnar Hrundar, en ætla má, að sú þróun snúist aftur við – síðasta skoðanakönnun bendir til þess, að það þróunarferli sé afstaðið, komið á lokapunkt – enda hefur Halla Hrund bæði góðan stuðning á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni á sama tíma og Halla Tómasdóttir höfðar mest til höfuðborgarbúa.
Á lokaspretti má því ætla, að Halla Hrund muni hafa vinninginn, og, til að tryggja henni þann sigur, gegn Katrínu, þyrftu sem flestir stuðningsmenn Höllu Tómasdóttur, reyndar líka helzt allir stuðningsmenn Jóns Gnarr, að færa sig yfir á Höllu Hrund. Bezt væri auðvitað, ef Jón Gnarr drægi framboð sitt til baka og skoraði á sína stuðningsmenn að fara yfir á Höllu Hrund. Væri manndómur og þroski í því.
Þannig fengju stuðningsmenn Höllu Tómasdóttur og Jóns forseta, sem stæði þeim nærri, uppfyllti þeirra kjörmynd að verulegu leyti, í stað Katrínar, sem þeir vildu væntanlega sízt, eða alls ekki. Sigur Höllu Hrundar væri, þannig, þeirra sigur líka.
Þegar kjósendur ná ekki að tryggja sínum uppáhalds frambjóðanda brautargengi, verður spurningin, hvort þeir eigi ekki að færa atkvæði sitt á þann „næst bezta“, sem þá á raunhæfa möguleika á að vera kjörinn.
Þeir, sem greiða frambjóðanda atkvæði, sem enga möguleika á á kjöri, sitja uppi með steindautt atkvæði.
Ég vil minna á, að Halla Hrund býr yfir feikigóðri menntun, hérlendri og erlendri, auk umfangsmikillar starfsreynslu, á háu kunnáttu- og ábyrgðarstigi, líka hérlendis og erlendis. Hún er látlaus og alþýðleg, velviljuð og með góðan skilning á stöðu og möguleikum Íslands í heiminum. Hún er náttúru- og umhverfissinni – við eigum bara eina jörð – Íslendingur í hjarta sínu og, umfram allt, sjálfstæð og hlutlaus, óháð öllum stjórnmálaöflum landsins.
Halla Hrund er auðvitað ekki jafn þjálfuð og örugg í framkomu, á fundum og í kappræðum, og Katrín og Halla Tómasdóttir. Þar slá þær hana báðar út í fyrstu umferð. Katrín er þrautþjálfuð í að koma fram og flytja sitt mál, sannfærandi og vel, með sjarma, eftir tæplega 7 ára forsætisráðherratíð og Halla Tómasdóttir, sömuleiðis, eftir áratuga reynslu af innlendum og erlendum stjórnunarstörfum, framkomu og málflutningi í sambandi við þau, auk fyrirlestrastarfa.
Í þessum efnum, sviðsframkomu og frammistöðu í kappræðum, mun Halla Hrund ná sér á strik, eins og Kristján Eldjárn forðum, enda ekki kosið um það hér!
Athugasemdir (2)