Ég flutti til Úganda á síðasta ári. Maki minn starfar hér og synirnir tveir ganga í alþjóðlegan skóla. Þetta er búið að vera athyglisverður tími, margt nýtt, margt flókið og erfitt, margt forvitnilegt og heillandi. Við njótum þess auðvitað að vera í skjóli forréttindanna sem við fæddumst til og deilum ekki kjörum með meirihluta landsmanna hér í einu af fátækari ríkjum heims. Við þénum meira en 200 krónur á dag, borðum næringarríkan mat daglega, höfum aðgang að hreinu vatni, salernisaðstöðu og eins góðri heilbrigðisþjónustu og býðst á þessum slóðum.
Þannig að þegar ég segi að vissulega sé erfitt að flytja fjölskyldu í miðja Afríku og eiga þar líf og fara í gegnum hversdagslega hluti eins og að skutla og sækja, kaupa í matinn, reka erindi og skipuleggja félagslíf og áhugamál – þá verður það að skoðast út frá samhenginu. Ég upplifi þetta stundum sem erfitt, en það er bara af því að líf mitt er og hefur verið alveg ótrúlega auðvelt. Ég líð áfram eftir lygnum farvegi lítils lækjar, í honum hafa ekki verið mikil vatnaskil, straumköst, flúðir eða fossar. Staðreyndin er sú að meirihluti jarðarbúa gæfi allt fyrir mína svokölluðu erfiðleika og áskoranir.
Ég hef spáð mikið í þetta síðustu misserin. Hvernig líðan mín, staða, þekking og upplifanir er í stóra samhenginu. Hvað allt verður svo ógnar smátt og léttvægt í samanburði við áskoranir fólks sem á við raunverulegan vanda að stríða. Fátæktin í Úganda er stundum svo sturluð, birtingarmyndir hennar og afleiðingar slíkar að heilinn minn, sem er mótaður af vernduðu umhverfi og aðgangi að öllum heimsins gæðum, nær eiginlega ekki utan um það sem ég sé og upplifi. Innan í mér bærast flóknar tilfinningar, ekki endilega allar góðar, sem láta mér líða eins og almennilegri manneskju og ég hef ekki hugmynd hvernig ég á að vinna með þær.
„Ég upplifi þetta stundum sem erfitt, en það er bara af því að líf mitt er og hefur verið alveg ótrúlega auðvelt“
Og þá komum við að efni þessa pistils. Mér er gert að skrifa um það sem ég hef lært, en akkúrat núna er ég á þeim stað í lífinu að ég er bara farin að efast um að ég viti, kunni eða skilji rassgat. Ég hef blessunarlega lifað þokkalega áhyggjulausu lífi og það hefur voða lítið reynt á það sem ég hef þó meðtekið í gegnum tíðina. Og nóg hefur nú verið skrifað og talað um sjálfhverfan skilning hvíts forréttindafólks á heiminum, eins og svokallaður lærdómur okkar eigi eitthvert erindi við heimsbyggðina og komi að raunverulegu gagni. Við upphefjum mikilvægi þess að vera góðar manneskjur, en svo skilgreinum við út og suður hvað það raunverulega þýðir þannig að merkingarleysið verður algjört. Við gerum svo kannski eitthvað sem gæti talist gott og rétt en á endanum þverr okkur oftast kraftur og siðferðisþrek. Lærdómurinn sem við drögum af lífinu, hvað þá sögunni, er hverfull.
Þið sjáið að ég er á góðri leið með að eyðileggja þessa annars góðu hugmynd Heimildarinnar að pistlaröð. En kannski er bara gott að til sé manneskja sem hefur ekki þurft að læra af lífinu til að berjast endalaust fyrir því. Við erum mörg – líklega flest sem lesa þennan pistil – sem höfum fengið allt til alls af því besta sem þessi heimur býður upp á. Við getum svo bara vonast til að fleiri jarðarbúar nái þessum stað. Að dvelja í öryggi þess sem lifir án þess að þurfa að læra af viðstöðulausum erfiðleikum, mótlæti og ömurð.
Svo ég hlýði í það minnsta dagskipuninni finnst mér eins og ég verði að skilja eftir eitthvað jákvætt og upplífgandi hér á síðunni. Það er hlutur sem ég lærði af mömmu. Lærdómur sem ber vissulega vitni um hversu mikil Vesturlandaprinsessa ég er, en þetta er gott, fallegt og frekar einfalt atriði sem mér finnst gefa mikið. Það er að þurrka sængurver úti á snúru. Viðra sængurnar og koddana. Það jafnast hreinlega ekkert á við að breiða yfir sig rúmföt sem hafa þornað utandyra og dregið í sig lyktina af tilheyrandi árstíð.
Frostþurrkuð rúmföt eru mitt uppáhald. Hvern hefði grunað að það gæti verið svona góð lykt af snjó? Vissulega er oft og tíðum töluvert fyrir þessu haft, það má ekki vera væta, það þarf að vera vindur, þetta tekur tíma og það þarf að fylgjast vel með líninu þar sem það blaktir til og frá, snúa því við og hrista vel í. En takist vel til geturðu farið upp í rúm með allar þínar tilvistarkrísur og efasemdir, hversu smávægilegar sem þær eru, og andað að þér fegurð og hreinleika. Hvað sem öðrum áhyggjum og sorgum manns líður er gott að geta búið sér til og sofnað í oggulitlu jarðnesku himnaríki.
Athugasemdir