Sveitarstjórnarkosningar fóru fram í Bretlandi í síðustu viku. Íhaldsflokkurinn galt það afhroð sem honum hafði verið spáð í fylgiskönnunum. Í fjölmiðlum reyndu flokksjálkar að beina athyglinni frá stórtapi með því að draga hana að því sem enn hafði ekki miður farið.
Kosning til borgarstjóra West-Midlands sýslu stóð tæpt. Ráðherra Íhaldsflokksins birtist glaðhlakkalegur í sjónvarpi þegar endurtalning atkvæða stóð yfir og tilkynnti áhorfendum jafnkokhraustur og maður með þrjá rétta í lottóinu að frambjóðandi flokksins, Andy Street, hefði „annaðhvort sigrað eða næstum því sigrað“ kosningarnar.
Það styttist í forsetakosningar hér á landi. Frambjóðendur takast á um Bessastaði eins og þátttakendur í nauðungaruppboði hjá sýslumanni og hækka í sífellu tilboð sitt: „Ég býð ást.“ „Ég býð frið.“ „Ég býð ást, frið og samstöðu.“
Orðagjálfrið hefur farið fyrir brjóstið á sumum sem sakað hafa frambjóðendur um froðusnakk. Það eru þó ekki aðeins forsetaefnin sem leitast við að segja sem minnst í sem flestum orðum og hringsóla um viðfangsefnið eins og ökumaður sem kann ekki að beygja út af hringtorgi.
„Á mannamáli kallast það að tapa“
Andy Street „sigraði næstum því“ borgarstjórakosningarnar í West-Midlands sýslu. Á mannamáli kallast það að tapa.
Stjórnmálafólk á litlum vinsældum að fagna. Nýleg könnun sýndi að tiltrú almennings í Bretlandi á stjórnmálum hefði aldrei verið minni. Niðurstöðurnar koma ekki á óvart, enda boðar innsæið að erfitt sé að bera traust til starfsstéttar sem lætur okkur líða eins og við séum sögupersónur í skáldsögu eftir Orwell.
En ekki er allt sem sýnist.
Bobby Duffy er félagsfræðingur við King’s College háskólann í London. Hann sérhæfir sig í að sýna fram á að margt það sem við teljum okkur vita fyrir víst sé rangt – flestir telja morðtíðni í heiminum fara hækkandi en hún fer lækkandi; meðal-Bretinn telur að 43 prósent fólks á þrítugsaldri búi enn í foreldrahúsum – raunin er 14 prósent.
Í hálfan áratug hefur fullyrðingum um endalok lýðræðisins rignt yfir okkur eins og eldi og brennisteini við veraldarlok í bókum, blaðagreinum og hlaðvörpum ábúðarfullra, miðaldra karlmanna. Duffy hefur þó ekki haft nokkrar áhyggjur af stjórnarfarinu. Því þótt tiltrú almennings á stjórnmálum sé lítil sýna kannanir að trú fólks á lýðræðinu hefur aldrei verið meiri.
En óvænt staðreynd vekur nú með Duffy ugg.
Ótrúleg viðhorfsbreyting
Í síðustu viku var greint frá því að Samband íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hefði hlutast til um að nýju frumvarpi um laxeldi hefði verið breytt og viðurlög við slysasleppingum minnkuð. Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar var upphaflega gert ráð fyrir að hægt yrði að taka af laxeldisfyrirtækjum kvótann í kjölfar slysasleppinga en eftir breytinguna er aðeins hægt að sekta fyrirtækin.
Samkvæmt könnun sem gerð var við King’s College háskóla telur þorri fólks í Bretlandi lýðræðislega kjörna ríkisstjórn landsins ekki lengur hafa mest völd í samfélaginu heldur séu það peningaöflin sem hafi tögl og hagldir. Þrjátíu og níu prósent fólks segir hin ríku ráða mestu en aðeins 24 prósent sögðu stjórnvöld ráða landinu.
Bobby Duffy segir niðurstöðuna einstaka. Árið 2018 taldi meirihluti fólks ríkisstjórn landsins vera við stjórnvölinn. Hann segir viðsnúninginn hafa verið ótrúlega hraðan. „Við sjáum ekki oft viðhorfsbreytingu í líkingu við þetta,“ segir Duffy.
Hin raunverulega ógn
Frjálslynt lýðræðissamfélag hvílir á trausti almennings til lýðræðisins. Margir munu „næstum sigra“ komandi forsetakosningar. En þótt froðusnakk stjórnmálafólks sé hvimleitt virðist það lítil ógn við lýðræðið. Sama verður hins vegar ekki sagt um froðufellandi peningaöfl sem reyna með frekju að fá sínu fram.
Árið 2024 verður mesta kosningaár sögunnar. Um sjötíu kosningar munu fara fram víða um heim til forseta, þings, svæðis- og sveitarstjórna og er talið að tæpur helmingur íbúa jarðar gangi að kjörborðinu. Á meðan við gleymum okkur í æsingi yfir orðagjálfri stjórnmálastéttarinnar er mikilvægt að við missum ekki sjónar á hinni raunverulegu ógn við lýðræðissamfélagið: fólkinu sem telur sig geta keypt það.
Athugasemdir (6)