Fyrir tilstilli samtakanna Earth Day (earthday.org), sem stofnuð voru í Bandaríkjunum árið 1970, er árlega haldið upp á Dag Jarðar þann 22. apríl. Tilgangur þessara samtaka er að vernda Jörðina, fyrst og fremst fyrir ágangi og vanhugsuðum aðgerðum mannfólksins sem á Jörðinni býr, þess hinu sama sem Jörðin fæðir og klæðir. Mögulega hefur hugtakið “sjálfbærni” orðið til vegna aðgerða þessara samtaka. Almennt er sjálfbærni skilgreind sem “geta kerfis til að viðhalda sjálfu sér til framtíðar og gefur til kynna að komandi kynslóðir ættu ekki að vera verr settar en núverandi kynslóðir”. Segja má að sjálfbær þróun og umfang nýtingar auðlinda jarðarinnar sé mælikvarði á það hversu vel kerfið nær að viðhalda sér eða endurnýja sig. Ef Jörðin er kerfið er þróun sjálfbærni Jarðar mælikvarði á það hvernig við manneskjurnar meðhöndlum þessa fóstru okkar.
Varðandi sjálfbærni Jarðar er yfirleitt talað um lífríki hennar, fánu og flóru á láði, í legi eða lofti. Endurnýjun nýtanlegra lífrænna efna Jarðarinnar er fyrst og fremst byggð á inngeislun sólar sem frumorku og afleidda ljóstillífun. Hlutur sjálfbærni í nýtingu lífrænna auðlinda Jarðar er þannig háður því að hvað miklu leyti hún er fær um að framleiða og framreiða efni til að bæta fyrir það sem tekið er af henni. Sagt er að nú á tímum sé staðan sú að þegar almanaksárið er hálfnað hafi með neyslu og ágangi á auðæfi Jarðarinnar verið farið yfir mörk þess sem hún nær að viðhalda á árinu. Það er því stöðugur ágangur á gæði Jarðar umfram það sem hún er fær um að framleiða. Sjálfbærnin er ekki í jafnvægi, það hallar verulega á Jarðarkerfið.
„Sjálfbærnin er ekki í jafnvægi, það hallar verulega á Jarðarkerfið.“
Í mínum huga eru það einkum tveir þættir sem eru valdar að of miklum ágangi á náttúruna og gera að verkum að nýting jarðarauðlinda er ekki lengur sjálfbær: Ofneysla og græðgi. Með græðgi á ég ekki við orsakavalda ofneyslu, heldur fyrst og fremst fé- og/eða valdagræðgi sem leiðir oftar en ekki til stríðsástands. Mjög lítið er hægt að gera við þessari birtingarmynd ágangs, slík græðgi er sumum í blóð borin, og þannig hefur það sennilegaverið allt frá því að Homo sapiens -hinn viti borni maður- kom fram. Hinn þátturinn er ofneyslan. Ofneysla er hins vegar ekki ásköpuð manninum og því má ætla að það sé hægt að draga úr eða vinna bug á henni. Allt lífríkið myndi í raun hagnast á því að draga úr ofneyslu hins "viti borna manns". Með því yrði til dæmis minna um sorp og annan úrgang, minna um mengunarvalda, lýðheilsa myndi batna stórlega og síðast en ekki síst myndu áhrif hnattrænnar hlýnunar minnka mikið eða hverfa, svo nefnd séu nokkur alvarleg vandamál sem stór hluti mannkyns stendur frammi fyrir.
Ef minnkuð (of)neysla er lausnarorðið, aðgerðin sem við gætum innleitt til að auka og endurskapa sjálfbærni í nýtingu jarðargæða, þá er bara spurning um aðferðarfræðina. Hvaða leiðir eru færar til að þetta raungerist? Þar er einkum tvennt sem getur orðið til þess að árangur náist. Annars vegar með pólitík, þar sem fólk er hvatt með mismunandi aðferðum tii að draga úr neyslu. Dæmi um það eru alþjóðlegar loftslagsráðstefnur. Sá hængur er þó á að maðurinn er í eðli sínu íhaldssamur og tregur til að láta af hendi það sem honum hefur einu sinni áskotnast af þægindum og munaði. Vegna þessa tregðulögmáls hafa ráðstefnur eins og COP 24 í París heldur ekki reynst sérlega árangursríkar, og þó er þar einungis tekið á einni birtingarmynd neyslunnar: loftslagsvandanum. Aðalorsök loftlagsvandans er, eins og þekkt er, aukið magn ýmissa gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. En það er mikill misskilningur að þar sé um frumorsök þessa ástands að ræða. Augljóslega er orsakarinnar að leita í þeirri staðreynd að því fleiri manneskjur sem byggja Jörðina, því meiri er neysla jarðarbúa og þar með framleiðsla gróðurhúsagastegunda.
Gera má ráð fyrir að heildarneysla flestra lífvera standi í beinu hlutfalli við fjölda þeirra. Ef jarðarbúum myndi með tímanum fækka um helming, frá um 8 milljörðum sem fjöldinn telur í dag og í þá 4 milljarða manneskja sem bjuggu Jörðina árið 1974 -fyrir aðeins 50 árum!- mætti gera ráð fyrir helmingun neyslunnar miðað við óbreytta hegðun mannkyns. Með þessu móti myndi Jörðin líkast til ná að endurheimta fulla sjálfbærni sína. Og ef stjórnmálamenn allra landa færu í auknu mæli að beita sér í þágu Jarðar, með hvatningu og upplýsingu til að auka virðingu fólks fyrir umhverfi og lífríki, myndi það hjálpa verulega til við endurheimt sjálfbærninnar. Hvað þá ef stjórnmálamenn horfðu lengur fram á veginn en aðeins fjögur til sex ár. Með slíkum aðgerðum, með samfélagslegri hvatningu til að minnka ofneyslu og á sama hátt upplýsingum til að stuðla að lækkun á fæðingartíðni barna, gæti mikill árangur náðst á tiltölulega skömmum tíma. Jafnvel á innan við eitthundrað árum, sem er vel yfir meðaltalsævilengd mannfólks á Jörðinni. En eins og nú horfir, með þeim takmörkuðu mótvægisaðgerðum stjórnmálamanna sem áætlaðar eru, mun mannkynið hinsvegar hafa náð 10 milljarða markinu árið 2058.
Maðurinn er ein fárra dýrategunda sem virðist ekki hafa nokkra náttúrulega tilhneigingu til að stemma stigu við fjölgun og útbreiðslu sinni. Nú er Elon Musk meir að segja þegar farinn að tala um möguleikann á að leggja Mars undir sig -allavega undir Jarðgerða flóttamenn. En ef almenningur mun í náinni framtíð sjá að óheftar barneignir sé ekki alfarið sjálfgefinn þáttur, og að fækkun barneigna hafi ákveðna kosti umfram galla, mun jarðarbúum fara fækkandi innan nokkurra áratuga, en ekki fjölgandi eins og nú stefnir í. Það myndi leiða til þess að við gætum búið okkar börnum og afkomendum þeirra betri og fallegri -og jafnvel friðsælli- jörð.
Athugasemdir